Færsluflokkur: Fréttir

#255. Misháir?

Það sem er athyglisvert við þetta atvik er að að flutningabíllinn er að koma út úr göngunum að sunnanverðu og er þar með búinn að aka undir annan bita þegar hann fór inn í þau að norðanverðu. Hvers vegna fór hann ekki á þann bita? Eru þeir misháir frá jörðu?


mbl.is Lá við stórslysi í Hvalfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#254. Stórfrétt! Banki mátti ekki breyta vöxtum í lánasamningi!

Úrskurður áfrýj­un­ar­nefnd­ar neyt­enda­mála í máli nr. 20/2014 hefur væntanlega fordæmisgildi fyrir aðra samskonar lánasamninga neytenda við fjármálastofnanir. Staðreyndin er nefnilega sú að allir bankar og fjármálastofnanir voru með samskonar ákvæði í lánasamningum við neytendur, en allir nýttu sér ákvæðið sem nú er ólögmætt og breyttu vöxtum að fimm árum liðnum.

Hins vegar vantar í fréttina niðurlag úrskurðarins: "Með vísan til 3.mgr.29.gr. laga nr. 33/2012, sbr. 26. gr. laga nr. 121/1994, er bankanum bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. gr. skilmála lánssamningsins."

Þetta þýðir náttúrulega að vextir eru enn upphaflegir, eða 4,15%, og allar innborganir umfram þá vaxtaprósentu eiga að fara til lækkunar höfuðstóls.

En væntanlega skilur Íslandsbanki ekki niðurstöðuna og mun neytandinn nú þurfa leita til dómstóla til að fá leiðréttingu á ofteknum vöxtum.


mbl.is Íslandsbanki braut gegn lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#253. Öfug mismunun á Keflavíkurflugvelli

Fjármálaráðherra hyggst afnema alla tolla, að tollum á matvöru undanskildum, 1. janúar 2017. Afnám þetta, til viðbótar afnámi tollum á fatnað og skó sem tekur gildi 1. janúar nk., skerðir tekjur ríkissjóðs sem nemur einu RÚV, eða um 6 milljörðum á ári.

Fróðlegt verður að vita hvort þessar breytingar leiðrétta þá mismunun sem íslenskir þegnar búa við í ferðum til landa innan EES, að takmarka heildarverðmæti vara sem fluttar eru inn í landið í farangri ferðamanna við 88.000 kr. Ég hef lengi haft ímugust á þessu takmarki þar sem í því fellst fyrrnefnd mismunun. Takmark þetta þjónar litlum tilgangi og þá aðeins því helst að vernda innlenda kaupmenn og óhóflega álagningu þeirra.

Íslensk yfirvöld setja hámark á virði vöru sem ferðamaður má flytja með sér inn í landið, alls 88.000 kr., og er sama hvort um einn eða fleiri hluti er að ræða. Umfram þessa upphæð þarf að greiða toll og VSK skv. núgildandi íslenskum lögum.

EES samningurinn gefur Íslendingum aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Innan þessa markaðar er frjálst flæði vöru og þjónustu. Þegar neytandi fer á milli landa innan EES, t.d. keyrir heiman að frá sér í Þýskalandi til Danmerkur, kaupir þar einhverja vöru, t.d. sjónvarp og fer svo sömu leið til baka, þarf hann einungis að greiða VSK í Danmörku, af því hann fer sjálfur heim með vöruna. Ef hann fær vöruna senda, þarf þjónustuaðilinn að innheimta VSK í landi neytandans, í þessu tilfelli Þýskalandi, og skila til yfirvalda.

Íslenskir ferðamenn þurfa hins vegar að greiða VSK við innkaupin í þjónustulandinu, og svo aftur í Keflavík ef heildarverðmæti vöru í farangi fer yfir 88.000 kr.

Óformleg fyrirspurn til Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi hvort svona hámark væri heimilt skv. EES leiddi í ljós að í þessu tilfelli væri um svokallað öfuga mismunun að ræða sem væri stjórnvöldum væri heimilt að beita þegna sína.


mbl.is Boðar afnám allra tolla 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#252. Þarf að varðveita?

Ég velti fyrir hvort það sé merkur fundur að eitthvað hafi verið grafið upp sem menn vissu vel að væri til staðar. Nefnt er að hafnargarðurinn hafi verið hluti af stærstu og merkilegustu framkvæmd sem landinn hafði ráðist í fram að þeim tíma, hafnargerðinni. En er það svo merkilegt að beri að varðveita og sýna þegar hið sama hefur verið hulið í 75 ár? Þarf að sýna allt gamalt og fornt eða er í lagi að fjarlægja það til að þjóna nútímahagsmunum? Garðurinn þessi hefur jú menningarsögulegt gildi sem hluti af Reykjavíkurhöfn. En Reykjavíkurhöfn hefur breyst og mun áfram breytast.

Hættir eitthvað gamalt einhvern tímann að vera merkilegt? Ætla menn næst að grafa upp steinbryggjuna bara til að sýna hana af því hún er svo merkileg?


mbl.is Hafnargarðurinn verði varðveittur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#251. Kolólöglegt!

Sérstök gjaldtaka á almenning sem hyggst ganga um svæði Árbæjarsafns með þrífót til að taka ljósmyndir er kolólögleg og gróft brot á jafnræðisreglu. Þar að auki er upphæðin sem nefnd er í fréttinni, 20 þús kr., í engu samræmi við verðlagningu fyrir almennan aðgang að safninu.

Á vef Borgarsögusafns Reykjavíkur er tilgreint að gjald fyrir ljósmyndatöku sé 20 þús. kr., og 7.200 kr. eftir fyrsta klukkutímann. Þetta gjald er þó auglýst undir liðnum Húsaleiga og getur því ekki átt við rölt um safnasvæðið, hvort heldur sem er innanhúss eða utan.


mbl.is Krafinn um gjald með þrífótinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#250. Landsnúmerið 371 er fyrir Lettland

Í fréttinni um svindlsímtöl er hermt að númer sem byrja á landsnúmerinu 371 séu frá Litháen. Hið rétta er að slík númer eru frá Lettlandi sem er næsti nágranni Litháen til norðurs. Landsnúmer Litháen er 370.


mbl.is „Þetta er lygilega furðulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#248. Er áratugagamall slóði ekki vegur?

Nú velti ég fyrir mér: Flokkast akstur eftir vegarslóða, sem notast hefur verið við í áratugi og ekki er lokaður sem utanvegaakstur? Ef landeigandi ætlar að banna akstur um land sitt eftir þessum slóða hlýtur hann að þurfa setja hlið eða keðju til að loka slóðanum? Skilti sem minnir á að utanvegaakstur sé bannaður getur ekki talist bann við akstri eftir þessum slóða að mínu mati. NB: Ég geri hér ráð fyrir ferðamaðurinn hafi ekið eftir slóðanum en ekki utan hans enda er það ekki rætt í fréttinni.


mbl.is Stöðvaði jeppamanninn utan vegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#247. Er þetta eina leiðin?

Hvernig samræmist það hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar að búa til mosku á Ítalíu? Hvar er tengingin við Ísland og hvaða íslensku verk voru kynnt í moskunni? Er eina leiðin til að kynna íslenska myndlist að stuða og valda ágreiningi með því að notast við málefni sem tengist Íslandi ekki neitt? Ef svo er, er ekki mikið varið í íslenska myndlist.


mbl.is „Sorgleg niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#246. FME rumskar!

Það eru að verða komin 5 ár frá fyrsta dómnum sem féll vegna gengislánamála, og FME hefur staðið á hliðarlínunni sem mállaus púðluhundur mest allan þann tíma! Löngu er orðið tímabært að stofnunin vaknaði af blundinum og setji Lýsingu stólinn fyrir dyrnar, ellegar taki stjórn félagsins yfir eða afturkalli starfsleyfi þess. Á meðan Lýsing stundar ekki eðlilega viðskiptahætti, eða sýnir enga tilburði í þá átt að bæta þá, á það ekki að fá að starfa, svo einfalt er það. 19.gr. laga um fjármálafyrirtæki er mjög skýr um þetta efni:

"19. gr. Góðir viðskiptahættir og venjur.
[Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.
Fjármálaeftirlitið setur reglur1) um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.

......" 1)Rgl. 670/2013.

Reglugerð 670/2013 segir ennfremur í 3.gr:

"Mat á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði að teknu tilliti til 3. mgr. 1. gr.

Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallast á:

  1. ákvæðum laga, reglugerða og reglna sem gilda um starfsemina, markmiðum og tilgangi þeirra,

......."

Ef brot á lögum og þvergirðingsháttur að færa starfsemina er ekki til betri vegar telst brot gegn þessum greinum, ja þá veit ég ekki hvað það gæti verið! En það var löngu orðið tímabært að FME gerði vart við sig varðandi Lýsingu. En betur má ef duga skal!


mbl.is FME fylgist grannt með Lýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#245. Hefur sem sagt ekkert með fyrirtækið að gera!

Spunameistarinn er með þetta allt á hreinu!

874 dómsmál á 5 árum hafa sem sagt ekkert með það að gera að Lýsing hafði rangt við í viðskiptum um árabil. Alveg dásamlegt.

Um 390 dómsmál sem bíða meðferðar fyrir Héraðsdómi og Lýsing er til varnar hafa sem sagt ekkert að gera með það að:

  • Lýsing gerði samninga við neytendur með ólöglegum skilmálum;
  • Lýsing virðir ekki lög um fjármálagerninga;
  • Lýsing hefur ekki frumkvæði að leiðréttingu á sambærilegum samningum eftir dómafordæmum Hæstaréttar;
  • Lýsing virðir að vettugi rökstuðning viðskiptavina sem leita réttar síns án aðstoðar lögfræðinga;
  • Lýsing virðir að vettugi rökstuðning viðskiptavina sem leita réttar síns með aðstoð lögfræðinga;

„Málarekstur veldur gríðarlegu álagi á aðila málsins og dómstóla,“ segir Þór. „Ég spyr bara hvort ekki sé rétt að í eðlilegu viðskiptaumhverfi sé gengið frá málum utan réttar líkt og kostur er,“ segir hann."
Um þetta er það helst að segja að Lýsing stundar ekki eðlilega viðskiptahætti og tekur aldrei undir röksemdir viðskiptavina, án aðkomu lögfræðinga, og helst ekki fyrr en dómari hefur sagt sitt. Og jafnvel ekki þá heldur!

"....3 mál af hverjum 4 sem farið hafa fyrir Hæstarétt, frá árinu 2010, hafa fallið Lýsingu í hag."

Flest, ef ekki öll, þeirra mála sem Lýsing hefur stefnt fyrir Hæstarétt og unnið hafa verið mál vegna fjármögnunarleigusamninga lögaðila, sem ekki eru verndaðir af lögum um neytendalán. Mál neytenda hafa undantekningalaust unnist hafi þau farið alla leið, nema skrípamálið 471/2010, sem var alveg með ólíkindum. Blaðamenn gleyma iðulega að spyrja út í þetta.

Ennfremur hefur Lýsing leikið það að áfrýja málum áfram í Hæstarétt en draga þau síðar til baka á síðustu stundu þannig að Hæstiréttur hefur ekki fjallað um málin. Ég minni á leikinn með prófmálin sem ákveðið var að fara í með samvinnu fjármálafyrirtækja og í engu þeirra féll dómur ef ég man rétt.

Og nú kemur spunameistari Lýsingar og beinir athyglinni að heimilistryggingum viðskiptavina og fégræðgi lögmanna.  Froðusnakkur!


mbl.is Sækjast eftir heimilistryggingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband