#30. Ræða þingmanns um afnám verðtryggingar árið 1992!

Ég fann eftirfarandi tilvitnanir á vef Alþingis í ræðu þingmanns frá árinu 1992.  Umræðuefnið var frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu.  Ég birti hér valda kafla, en hlekkur á ræðuna í heild sinni er að finna í lok færslunnar.  Leturbreytingar eru mínar.

„Ég vil fyrst nefna þann megingalla að sá sem á að greiða skuldina og undirgengst skuldbindingar um vísitölu tekur á sig alla áhættu um þróun mála á lánstímanum hvað varðar vísitölu og vexti og önnur þau kjör sem kveðið er á um í lánssamningi að séu breytileg. Eitt af því sem mér hefur fundist orka mjög tvímælis er hvort það ætti að heimila lánveitingar með breytilegum kjörum. Það er að mínu viti nokkurt siðleysi fólgið í því að fá fólk til að taka lán á tilteknum kjörum, eins og þau líta út við undirskrift samnings, en áskilja sér síðan rétt til að breyta þeim kjörum sér í hag og lángreiðandanum í óhag hvenær sem er á lánstímanum. Þar á ég fyrst og fremst við vextina. Það er alkunna og þarf ekki að minna menn á það að eitt af því sem hefur valdið verulegum vandræðum hjá fjöldamörgum hér á landi eru þessir breytilegu vextir."

Og litlu seinna:

Mér hefur stundum fundist að það væru réttar leikreglur að skipta áhættunni til helminga og skylda þá sem veita lán eða vilja fá aðra til að taka lán hjá sér að hafa fast fyrirkomulag á láninu og afnema ákvæði um breytileg lánakjör eða fyrirvara lánveitanda um það að hann áskilji sér rétt til að breyta kjörum á láninu hvenær sem honum dettur í hug. Það er eitt af þeim atriðum sem hafa reynst launafólki hvað erfiðust í gegnum tíðina og hefur ítrekað komið mjög hart niður á pyngju þeirra, t.d. hækkanir á afborgunum af lánum til húsnæðiskaupa."

Og síðar:

Mér finnst að mörgu leyti sanngjarnar leikreglur að sá sem lætur lánið eða peningana af hendi undirgangist þá kvöð að lánið, sem hann er að veita, sé með föstum kjörum. Hvort sem það er með verðtryggingu eða vöxtum sem samið er um þarf það að vera fast og óumbreytanlegt út lánstímann svo sá sem tekur lánið veit að hverju hann gengur og hefur þar fast land undir fótum allan lánstímann. Hann tekur að vísu áhættuna af því að afsala sér hugsanlega skárri lánskjörum ef vextir kynnu að lækka en sá sem lætur lánið af hendi verður líka að sæta því að taka áhættu því hann getur ekki tekið sér hærri vexti ef vaxtastigið hækkar á lánstímanum. Það held ég að sé grundvallaratriði í fjármálaviðskiptum að þeir sem taka lán geti búið við það öryggi að lánskjör séu föst.

Eitt dæmi af hálfu stjórnvalda sem hefur breytt verulega miklu fyrir lántakendur er hringlandaháttur og lagabreytingar sem koma aftan að fólki."

Áfram heldur þingmaðurinn:

Ég vil líka nefna að með verðtryggingunni sem slíkri er sá sem veitir lánin að taka sér býsna miklar tryggingar gagnvart öllum hugsanlegum breytingum, t.d. breytingum erlendis sem við getum ekki haft nein áhrif á og valda erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Lánveitendur hafa tryggt sig fyrir þeim þó að þeir erfiðleikar lendi á almenningi í landinu af fullum þunga að öðru leyti. Þannig má nefna sem dæmi, sem að sumu leyti er kannski dálítið broslegt, að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu leiðir til hækkunar skulda hjá fólki hér á landi af því að sá sem hefur lánað hefur tryggt sig fyrir því með svokallaðri lánskjaravísitölu og hvernig að því er staðið að reikna hana út.

Maður kann auðvitað að spyrja sjálfan sig: Er rétt eða eðlilegt að sá sem á útistandandi peninga hjá öðrum þurfi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum? Á hann að njóta þess að eign hans hjá öðrum hækkar við að erfiðleikar verði í kaffiuppskeru í Brasilíu? Það er nákvæmlega það sem gerist að það veldur hækkun á höfuðstól lánsins."

Og svona endar ræða þingmannsins:

En í heildina finnst mér óeðlilegt að verðtrygging skuli vera slík trygging fyrir þá sem lána peninga sem raun ber vitni. Þeir hafa í raun og veru allt sitt á þurru, taka enga áhættu og áskilja sér þar að auki heimild til þess að auka kostnaðinn við lántökuna með breytilegum vöxtum ef tilteknar aðstæður leiða til þess að vextir almennt hækka í þjóðfélaginu.

Staða þeirra sem lána gagnvart stöðu þeirra sem skulda allt of ójöfn. Staða þeirra sem skulda þarf að verða miklu styrkari en hún er í reynd.  Því tel ég þetta frv. í sjálfu sér fyllilega tímabært og vænti þess að það leiði til skaplegrar umræðu um lánskjör og ávöxtun sparifjár, eins og hér segir, en kannski ekki hvað síst um stöðu skuldara í samfélagi markaðshyggjunnar."

Þessi orð mælti Kristinn H. Gunnarsson á 116. löggjafarþingi árið 1992, í 2. umræðu um frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu.

Ræðuna í heild sinni má finna hér.

Kristinn:  Hvað breyttist?


mbl.is Eftirstöðvar sexfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristinn hefur alltaf átt svolítið erfitt með að ákveða sig. Ég er ekki viss um að hann muni í hvaða flokki hann var þetta skiftið.

Georg Friðriksson (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband