"50. SP-Fjármögnun hf. var gjaldþrota!

Í bloggfærslu þ. 12. ágúst velti ég upp þeirri spurningu hvort dótturfélag Nýja Landsbankans, SP-Fjármögnun, hafi í raun verið gjaldþrota í árslok 2008.  Í dag rakst ég á gamla frétt af mbl.is frá mánudeginum 12. janúar 2009 um fjárkröggur SP, frétt sem líklega fór framhjá mér og hugsanlega fleirum, á sínum tíma.  Alla vega mundi ég ekki eftir að hafa séð hana.  Fréttin staðfestir það sem ég held fram í pistlinum 12.ágúst sl.  

SP-Fjármögnun hf. var í raun gjaldþrota um áramótin 2008-2009 og hefði átt að missa starfsleyfi sitt. 

Í staðinn virðist Fjármálaeftirlitið hafa gefið SP undanþágu frá reglum um eiginfjárhlutfall þangað til Nýji Landsbankinn bætti við hlutafé.  Hlutafé SP-Fjármögnunar hf. var aukið um 1080 milljónir á vordögum 2009, með niðurfellingu Nýja Landsbankans á skuldum fyrirtækisins, og verðið var 330 krónur á hverja krónu nafnverðs.  Fyrirtækið virðist því hafa starfað á undanþágu Fjármálaeftirlitsins fyrstu 3-4 mánuði ársins 2009. 

Á sama tíma og fyrirtækið óskaði eftir undanþágu Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall sitt, til að þurfa ekki tímabundið að fara eftir reglum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis, stundaði það ólögmæta innheimtustarfsemi á lánssamningum viðskiptamanna sinna.   Fyrirtækið fyrirskipaði einnig vörslusviptingar án atbeina sýslumanns og braut þar með lög og reglur um aðför og fullnusturéttarfar.  Stjórnendum SP-Fjármögnunar hf. er, að því er virðist, eðlislægt að brjóta lög og reglur í starfsemi fyrirtækisins. 

Hvað rifti fyrirtækið mörgum gengistryggðum samningum við viðskiptamenn sína á þeim tíma sem það starfaði á undanþágu FME, og vörslusvipti þá bifreiðum, sem samningur var um, án atbeina sýslumanns?  Hver er ábyrgð Fjármálaeftirilitsins á þeim gjörningum?

Ég minni á bloggfærslu mína frá 24.júní sl., um eignaleiguna Lind hf., sem var í eigu Landsbankans, sem svo aftur var í eigu íslenska ríkisins.  Íslenska ríkið á SP-Fjármögnun hf. að fullu í gegnum Nýja Landsbankann. 

Sverrir Hermannsson, þá verandi bankastjóri Landsbankans, sagði í blaðaviðtali við Morgunpóstinn árið 1994 um starfsemi Lindar hf.:  „Lind hefur stórtapað, og bankinn á hundrað prósent í Lind svo tap fyrirtækisins er tap bankans."

Mikið var fjallað um málefni Lindar hf. í bankaráði Landsbankans á þeim tíma til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni.  Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins.   Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýringanna er að leita í þeirri megin hugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins.  Hún var að fjármagna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum.

Aðdragandinn að örlögum Lindar hf. minnir óneitanlega á stöðu SP-Fjármögnunar hf. undanfarin misseri.  Hvað er langt þar til SP fer sömu leið?  Verður það í október, þegar Hæstiréttur dæmir um samningsvexti sbr. frétt Pressunnar?  Og hvað munu margir tapa ofgreiddum greiðslum til fyrirtækisins þegar það gerist?

Ég geri hér orð Sverris Hermannssonar að mínum og segi: SP-Fjármögnun  hf. hefur stórtapað, og Nýji Landsbankinn á hundrað prósent í SP-Fjármögnun hf. svo tap fyrirtækisins er tap bankans".  

Tap bankans er tap eigenda hans, íslensku þjóðarinnar!

 


mbl.is SP vill undanþágu frá reglum um eigið fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband