#53. Kristinn H. og gengistryggingin

Enn á ný ritar Kristinn H. Gunnarsson á vef sínum um að sanngjarnt sé að verðtrygging verði reiknuð á áður gengistryggða neytendalánasamninga.  Vísar hann í nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness og telur að almennir lántakendur séu jafnsettir og sveitarfélagið Álftanes, sem atvinnurekandi sem fékk dæmt til að greiða verðbætur á áður óverðtryggðan samning.  Sama eigi að gilda í stöðu almennra lántakenda og lánastofnana að mati Kristinns.

Nú er það svo að 36.gr.samningalaga var breytt 1995 til að vernda neytendur fyrir óréttætum samningsskilmálum, eins og Hæstiréttur dæmdi þ.16.júní um gengistryggingu. Var bætt inn fjórum liðum a-d almennum neytendum til hagsbóta.  Ákvæði 36. gr. a-d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d.  Í c-lið 36. gr. segir að samningur skuli gilda að öru leyti án breytinga að kröfu neytanda, verði hann efndur utan hins óréttmæta skilmála.  Þingmaðurinn fyrrverandi var í hópi þeirra þingmanna sem samþykkti fyrrgreindar  breytingar á lögum um samningsgerð.

Almennir lántakendur eru ekki jafnsettir og atvinnurekendur eða opinberir aðilar.  Atvinnurekendur og opinberir aðilar hafa að öllu jöfnu á sínum snærum sérmenntað fólk til að verja fjárhagslega hagsmuni, sem í flestum tilfellum eru verulegir og með öllu ósambærilegir við hagsmuni neytenda.  Er sérstaklega gert ráð fyrir kostnaði vegna slíkrar ráðgjafar í rekstri þessara aðila.

Hinn almenni lántakandi hefur ekki aðgang að slíkri sérfræðiráðgjöf nema gegn þóknun.  Hún er í flestum tilfellum ekki ódýr.  Í annan stað eru neytendasamningar einhliða samdir af lánveitendum og óumsemjanlegir að öðru leyti en sem nemur lánsfjárupphæð og lengd lánstíma.  Það er skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að í slíkum neytendasamningum séu ekki óréttmætir samningsskilmálar.  Það er sérfræðiráðgjöfin sem neytendur eiga rétt á að kostnaðarlausu.

Kristinn H. Gunnarsson veður villur vegar þegar hann heldur því fram að lántakendur eigi að bera fullu á byrgð á því tjóni sem varð af ólögmætum samningsskilmálum um gengistryggingu.  Það eru stjórnendur lánastofnana sem eiga bera ábyrgð á þeim skaða, ekki neytendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband