#74. Nýyrðasmiðurinn á Sölvhólsgötunni.

Ég er orðinn þreyttur á þeim sólbrúna, hæstvirtum viðskiptaráðherra.  Ég skil ekki hvað hrærist í höfðinu á honum.  Næsta vika er alltaf vika tíðindanna hjá honum.  Jafnvel stórtíðinda.  Núna vill hann loforð bankanna um að ekki verði sóttar skaðabætur vegna nýja gengislánafrumvarpsins. Frumvarpsins sem á að bjarga öllu en gera gengistryggð lán til fyrirtækja lögleg.  Heldur hann virkilega að slíkt loforð væri virði pappírsins sem það væri skrifað á?  Af hverju eru núgildandi lög ekki virt og unnið eftir þeim?  Hví þarf að setja ný?

Ráðherrann getur ekki einu sinni ráðið fólk í ábyrgðarstöður embættismanna vandkvæðalaust og gerði ekkert fyrir heimilin á meðan hann var félagsmálaráðherra.  Ég fæ ekki séð að hann geti gert neitt fyrir fyrirtækin sem viðskiptaráðherra.  Nær öll verktakafyrirtæki eru komin að fótum fram vegna verkefnaskorts og skuldastöðu.  Fyrrum starfsmenn þeirra ganga atvinnulausir í öllum landshlutum.  Fjöldi tækja hafa verið gerð upptæk, eða skilað til fjármögnunarleiga og flutt úr landi, en eftir standa skuldirnar sem nú á að gera löglegar og innheimta!  Hvað heldur hann að gerist?  Að menn borgi þessar tækjaskuldir með glöðu geði en standa tómhentir eftir?  Eigendur þeirra stofna bara ný félög, færa allar eignir (ef einhverjar eru eftir) úr gamla félaginu í það nýja en skilja gengistryggðu skuldirnar eftir í því gamla sem verður sett í þrot, að nýjum víkingasið!   

Í Hagsýn, nýju vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, segir að endurskipulagning skulda fyrirtækja sé forsenda hagvaxtar.  Síðan á að fara í skuldahreinsanir lífvænlegra fyrirtækja því slíkt sé ein meginforsenda þess að fjárfesting taki við sér á ný.  Væntanlega er átt við sömu fyrirtæki og eiga nú að glíma við að gengistryggð lán þeirra verða gerð lögleg af þeim sólbrúna í nýja gengislánafrumvarpinu.   Í sama vefriti segir að nú liggi fyrir að svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til fyrirtækja er umtalsvert.  Og þó að um helmingur fyrirtækja sé í vanskilum við viðskiptabankana eru aðeins 4% íslenskra fyrirtækja gjaldþrota. Nær allar eftirstöðvar lána gjaldþrota fyrirtækja eru vegna lántöku í erlendri mynt.  Aldrei er minnst á gengistryggð lán þessara fyrirtækja.  Vefritið endar á því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið leggur því mikla áherslu á árangur í skuldahreinsun fyrirtækja í samvinnu við önnur stjórnvöld, lánastofnanir og aðila vinnumarkaðarins. 

En heimilin skulu brenna á ólöglegu skuldabáli enda er svigrúm bankanna til að hjálpa þeim fullnýtt!

Ráðherrann lifir í einhverjum draumaheimi.  Það er eins og hann viti ekki hvað landslög eru.  Og þó er hann lögfræðingur að mennt.  Hjal hans í viðtölum er innantómt og innihaldslaust og frekar leiðinleg tímasóun.  Vera hans í ríkisstjórn er einhver aumasta ráðherraseta frá upphafi lýðveldis. 

Vantar ekki karlmódel í næsta Hagkaupsbækling eða nýjustu Gillette auglýsingu?


mbl.is Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góður flott færsla hjá þér! Lifi byltingin!

Sigurður Haraldsson, 14.11.2010 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband