#154. Svarar hugsanlega ekki öllu....

Nú þekki ég ekki málsatvik þessa máls Elviru Pinedo en ef efni þess snýst um húsnæðislán eingöngu mun það líklega ekki svara spurningunni um lögmæti þess að innheimta hærri heildarlántökukostnað af bílaláni, en samið var um í upphafi, eins og fjármálafyrirtækin eru að gera.  2.mgr. 14.gr. laga um neytendalán segir:

"Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Þó er rétt að taka fram að 3.mgr. 14.gr. segir:

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera. Ef ákvæði 1. eða 2. mgr. leiða til lækkunar eftirstöðva skal neytandi greiða þær samkvæmt samningnum og lækkunin koma fram á síðustu afborgunum.

Að síðustu vil ég benda á ákvæði 15.gr. sem stendur svo: 

Hafi lánveitandi ekki veitt þær upplýsingar, sem fyrir er mælt í 6. gr., sbr. 5. gr., getur það skapað honum bótaábyrgð, enda hafi neytandi mátt ætla að lánskjör væru hagstæðari en þau síðar reyndust vera.

Vegna ofangreindra atriða vil ég benda á forúrskurð Evrópudómstólsins í máli C-76/10.  Í málinu var tekist á um heimild lánveitanda til að innheimta lántökukostnað þegar árleg hlutfallstala kostnaðar hafði ekki verið kynnt.  Dómurinn úrskurðaði að ákvæði Evróputilskipana 93/13 og 87/102 bæri að túlka á þann hátt að lánveitanda væri ekki heimilt að innheimta lántökukostnað í þegar láðst hefði að kynna árlega hlutfallstölu kostnaðar við samningsgerð.

Úr niðurstöðu dómsins: "......the failure to mention the APR [innsk: annual percentage rate of charge eða árleg hlutfallstala kostnaðar] in a consumer credit contract means that the credit granted is deemed to be interest-free and free of charge." [leturbreyting EAJ]

Ég túlka þessa niðurstöðu Evrópudómstólsins, og ákvæði 2.mgr. 14.gr. neytendalánslaga, því þannig að þegar árleg hlutfallstala kostnaðar hefur verið kynnt neytanda við samningsgerð sé sú tala takmarkandi og ekki megi undir nokkrum kringumstæðum innheimta meiri lántökukostnað en kemur fram við samningsgerð á greiðsluáætlun.  Sú tala, sem þar er kynnt, er endanleg heildargreiðsla.  Hér ber að taka fram að greiðsluáætlun er fylgiskjal samnings og þar með hluti af honum.  Hins vegar geta vaxtaákvarðanir á hverjum tíma haft áhrif á upphæð mánaðargreiðslu, en ekki á heildarlántökukostnað.  Hafi heildarlántökukostnaður átt að vera breytilegur hefði átt að kynna það við samningsgerð og hvaða ástæður hefðu áhrif til breytinga.  Slíkar upplýsingar eru alla vega ekki í mínum bílasamningi, aðeins að greiðslur geti tekið breytingum vegna vaxtabreytinga.

Það vekur athygli hver málsaðilinn er, þ.e. prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í Evrópurétti.  Það er ekki óvarlegt á áætla að þar fari aðili sem viti nákvæmlega hvernig túlka eigi lög.  Tapi hún málinu hlýtur hún að þurfa íhuga stöðu sína við HÍ.

Úrskurði Hæstiréttur gegn röksemdum Elviru Pinedo prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, konu sem er m.a. með fordæmisgildi forúrskurða Evrópudómstólsins og neytendalöggjöf að sérsviði í sínu starfi, þurfum við óháða skoðun á allri íslenskri löggjöf þar sem neytendaréttur hefur verið innleiddur, sem og öllum dómum Hæstaréttar með tilliti til Evrópuréttar.


mbl.is Óvissu um vaxtaforsendur gengislána verður eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Erlingur, það er samt ekkert útilokað að þetta gefi fordæmi fyrir bílalánin líka. Rétt er að geta þess að Elvira flytur málið ekki sjálf heldur er hún í þessu tilviki sem skjólstæðingur, en auðvitað hlýtur hún að hafa innlegg í málatilbúnaðinn, skárra væri það nú.

Ég held að það sé talsvert til í því að séu lögin um neytendalán rétt lesin, að þá sé hlutfallstala kostnaðar takmarkandi eins og þú segir. Ef þannig er lesin tólfta greinin má jafnframt finna þar lagastoð fyrir þaki á hverskonar viðbótarlán, 150.000 kr. ef það er ekki tilgreint í samningi.

Í núverandi framkvæmd verðtryggingar felst í reynd mánaðarlegt viðbótarlán hversi lögmæti er ekki þaulreynt.

1 + 1 = ?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2012 kl. 17:56

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Nei það er rétt Guðmundur við skulum ekkert útiloka mogulegt fordæmisgildi. :-) Og ég vil taka fram að ég er ekki að gera lítið úr Elviru með því að nefna að hún þyrfti hugsanlega að skoða stöðu sína innan HÍ ef dómur félli á móti henni. Mér finnst það bara rökrétt framhald af slíkri niðurstöðu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 26.1.2012 kl. 19:44

3 identicon

Sæll,

Þú ert aðeins að mistúlka dóminn í Pohotovost málinu sem fordæmi. Ákvæðið í slóvakísku lögunum sem um ræðir og fjallar þar um hlutfallstölu kostnaðar, er sambærilegt og 1. mgr. 14. gr. neytendalánalaganna íslensku. Til viðbótar má nefna að neytendalánalögin hér gera ráð fyrir, eins og tilskipun 87/102, að ef vextir eða annar kostnaður sé breytilegur þá skuli við gerð greiðsluáætlunar miða við stöðuna eins og hún er á lántökudegi. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að ekki sé heimilt að reikna vexti á gengislánin í kjölfar rangrar niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010. (Og reyndar 604/2010 líka)

Erlingur og Guðmundur ég vildi óska að það mætti túlka neytendalánalögin eins og þið virðist gera, en því miður þá tel ég einsýnt að túlkanir ykkar standist ekki.

kv.,

Arnar Kristinsson

Arnar (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 00:42

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Arnar. Takk fyrir innleggið. Viltu þá meina að niðurstaðan eigi einungis við 1.mgr.14.gr. neytendalánalaganna og ekki sé hægt að yfirfæra niðurstöðu dóms C-76/10 á 2.mgr.14.gr.? Mér finnst dómurinn styrkja þá túlkun (meginreglu??) að það sem sé ekki tilgreint er ekki innheimtanlegt, þannig að ef heildarlántökukostnaður er tilgreindur ákveðin tala sé það takmarkandi þáttur í innheimtunni. Ertu ósammála því?

Erlingur Alfreð Jónsson, 1.2.2012 kl. 09:23

5 identicon

Sæll Erlingur. Ég verð því miður að vera ósammála um þessa túlkun vegna þess að 1. mgr. 12. gr. neytendalánalaganna (Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.) takmarkar gildi 2. mgr. 14. gr. við skilmála þar sem eru óverðtryggðir fastir vextir og gjöld. Tilskipun 87/102 gerir einnig ráð fyrir þessu þannig að við verðum víst að sætta okkur við það. Hitt er svo annað mál að ég vildi óska þess að þessu væri farið á hinn veginn. :-)

Arnar (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 13:29

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Arnar. Þetta er allt gott og blessað. Sé hvað þú átt við en er ekki kominn á þitt band enn.   Ætla ekki að fara í langa röksemdafærslu vegna þess. Vísa til ákvæða 9.gr. um upplýsingaskyldu lánveitanda á breytilegum lántökukostnaði og þá sömuleiðis 15.gr. um hugsanlega bótaábyrgð vegna slakrar upplýsingagjafar.

Varðandi tilskipun 87/102 þá vísa ég til b-liðar 2.tl.4.gr.:

"Í skriflega samningnum skal eftirfarandi koma fram:

a).......

b) yfirlýsing um það við hvaða aðstæður megi breyta ár-
legri hlutfallstölu lánskostnaðar."

Líklega má segja að 2.mgr.6.gr. nll. uppfylli þetta ákvæði:

”Ef breyta má lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum skal lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar geta orðið. Ef ekki er unnt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skal lánveitandi þess í stað skýra neytanda frá því hverjir vextir eru, hvaða gjöld falla á lánið og við hvaða aðstæður breytingar geti orðið.”

Ég ætla að fullyrða að enginn bílalánasamningur, þá sérstaklega eignaleigusamningar/kaupleigusamningar tilgreini að heildarlántökukostnaður geti breyst, aðeins einstakar greiðslur. Enda var ávallt vísað í (og er jafnvel ennþá) að þarna væri um leigu að ræða en ekki kaup.

Erlingur Alfreð Jónsson, 1.2.2012 kl. 18:04

7 identicon

Sæll aftur. Það er nú ekkert sérstaklega langt bilið á milli okkar í þessum efnum, enda erum við í sama liðinu. Reyndar er ég með samning undir höndum þar sem kveðið er á um að heildarlántökukostnaður geti breyst þó að það sé ekki orðað alveg þannig og því verð ég að hryggja þig með því að sú fullyrðing þín er röng. Þar er meira að segja tilgreint hvað getur orðið til þess að valda slíkum breytingum. Miðað við það sem ég hef séð til íslenskra dómara myndu þeir nú varla fara að ganga jafnlangt í túlkun og þú gerir, (þó að ég vissulega skilji þína túlkun á þessum ákvæðum) sérstaklega með hliðsjón af niðurstöðu HR í máli 604/2010. Það fer hins vegar að verða spennandi hver niðurstaða ESA verður og ég trúi ekki öðru en þar komi niðurstaða sem við getum verið ánægð með. Verði það svo getum við farið að snúa okkur að lögmæti verðtryggingar og/eða viðurkenningu á forsendubrestinum.

Eigum við ekki bara að mætast á miðri leið og vera vongóðir um að heimurinn fari og stjórnmálamenn (les: fjármálafyrirtækin) fari að sjá ljósið.

Arnar (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 19:25

8 identicon

heimurinn fari BATNANDI ..., átti þetta að vera

Arnar (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 19:27

9 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Voðalega ertu erfiður við mig..... .....en jú það er vissulega bjartsýni að ætla að íslenskir dómarar væru mér sammála.

En við skulum von að þetta fari batnandi þegar niðurstaða ESA kemur, (eða kannski fyrr með dómi Hæstaréttar í máli Elviru ).

Erlingur Alfreð Jónsson, 1.2.2012 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband