#188. "Bankaröflarar!"

Bankar eru svolítið merkilegt fyrirbrigði. Í bönkum virðist ríkja einhver hentistefna hvernig gera eigi hluti og enginn reynir að komast til botns í málum fólks, hvaða lög gilda eða koma með skynsamleg rök fyrir því af hverju málum sé háttað með ákveðnum hætti ef viðskiptavinur efast um gjörninginn. Það er einfaldlega vaðið áfram í viðjum vanans og aldrei athugað hvort hlutir séu rétt gerðir eða löglegir nema einhver "röflari" geri "allt vitlaust"!

Almennt starfsfólk fær líklega ekki mikla formlega þjálfun vegna starfa sinna og ályktar því að fyrst svona hafi hlutir verið um árabil sé það bara rétt sem þeim var sýnt. Þeim er því nokkur vorkunn.

Sem dæmi um álíka einkennileg vinnubrögð bankastarfsmanna greiddi ég í lok síðasta árs síðustu greiðslu af skuldabréfi í Arion banka. Síðan leið og beið og ekki barst mér frumrit skuldabréfsins stimplað sem uppgreitt. Svo ég lagði leið mína í útibúið mitt seinni part dags í febrúar 2013, til að athuga málið. Þar var mér sagt að venjulega væri uppgreiðsluupplýsingum safnað saman, síðan farið í skjalageymslur og skuldabréfin tekin til og því næst mörg bréf stimpluð í einni aðgerð. Svo ég bað viðkomandi að athuga hvenær ég fengið bréfið stimplað og afhent. Um kvöldmatarleytið hringir þjónustufulltrúinn sem ég hafði talað við og sagðist hafa komist að því eftir að hafa kannað málið að bankinn væri hættur að senda út frumrit uppgreiddra skuldabréf. Því hefði verið hætt eftir hrun. Ég hló og benti henni góðfúslega á að slíkt mætti ekki. Bankanum bæri skylda til að afhenda skuldabréfið áritað sem uppgreitt þegar það hefði verið greitt upp. Hún sagði að svona væri þetta gert í dag og bar við að sumir vildu ekki fá svona sent í pósti og stundum væri upplýsingar um heimilisföng viðskiptavina óáreiðanlegar í kerfum bankans. Ég hló aftur og sagði bankannn ekki eiga í vandræðum með að innheimta eftir sömu upplýsingum. Svo ég þakkaði henni fyrir upplýsingarnar og sagðist ætla hafa samband við umboðsmann viðskiptavina bankans vegna þessa máls.

Svo ég sendi umboðmanni tölvupóst sama kvöld og benti á tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf þar sem tilgreint er að afhenda skuli skuldunaut áritað skuldabréf þegar höfuðstóll þess er uppgreiddur. Umboðsmaður tók minni fyrirspurn vel og sagðist ætla athuga málið. 2-3 dögum síðar barst mér svar frá umboðsmanni sem staðfesti sögu þjónustufulltrúans en sagði jafnframt að eftir athugun bankans hefði verið tekin ákvörðun um að breyta þessu og framvegis yrðu uppgreidd skuldabréf stimpluð og send viðskiptavinum. Nokkrum dögum seinna, eða seinni hluta febrúar 2013, barst mér skuldabréfið í pósti stimplað sem upgreitt. Dagsetning stimpilsins var 12.  júní 2012. Síðasta greiðslan var hins vegar innheimt 6 mánuðum síðar, 1. desember 2012. Þetta eiga víst að kallast fagleg vinnubrögð.

Ég bendi viðskiptavinum Landsbankans, sem og annarra banka, að athuga stöðu mála með uppgreidd skuldabréf og óska eftir að fá frumritið sent, stimplað sem uppgreitt þegar greiðslum hefur verið lokið. Ekki sýna tómlæti þegar um skuldabréf er að ræða og kynnið ykkur tilskipun um áritanir á skuldabréf.

Og ekki síður að vera ófeimin að véfengja vinnubrögð bankafólks ef nokkur vissa er fyrir því að vinnubrögðin eiga ekki stoð í lögum og reglum. Fyrst eftirlitsaðilar bregðast hlutverki sínu verður almúginn að vera á verði.

 


mbl.is Faðirinn hafði betur gegn bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

 "Dagsetning stimpilsins var 12.  júní 2012. Síðasta greiðslan var hins vegar innheimt 6 mánuðum síðar, 1. desember 2012. "

Er þá ekki innheimtan frá júní til Des ólögleg ?

Jón Aðalsteinn Jónsson, 8.8.2013 kl. 11:34

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það er nákvæmlega það sama og mér datt í hug, Jón, og bar það undir lögfræðing. Sá var ekki tilbúinn að segja fyrir víst að dómur tæki undir það með tilliit til fjölda umsamdra gjalddaga á skuldabréfinu. Mögulega var ekki búið að breyta dagsetningu stimpilsins, þegar bréfið var stimplað, sem sést þá hversu oft hann er notaður ef svo var raunin, en ég nennti ekki að fara eltast við upphæðina sem um var að ræða með lögfræðikostnaði og veseni. Ætti kannski að láta reyna á það? :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 12:15

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Prófaðu bara að senda þeim reikning fyrir mismuninum Erlingur. Þú þarft ekki að ráða lögfræðing til þess eða leggja út neinn sérstakan kostnað. Ef þeir hafa ekki greitt þann reikning innan tilskilins tíma (t.d. 30 daga) sendirðu þeim innheimtuviðvörun (í samræmi við innheimtulög) og ef þeir hafa svo aftur ekki greitt innan 10 daga sendirðu þeim greiðsluáskorun. Ef þeir hafa ekki orðið við henni innan 15 daga geturðu látið gera fjárnám fyrir skuldinni. Ég veit um fjölda tilfella þar sem "viðskiptavinir" bankanna ætla að fara þessa leið, og þá fer hver að verða síðastur á meðan enn eru til einhverjir peningarí bönkunum fyrir þessu. Sá síðasti mun tapa stærst.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.8.2013 kl. 13:23

4 identicon

Fólk á að standa á rétti sínum. Ég gerði það og ég gaf ekki mm eftir. Ég er að vísu bara gaur sem vinn á lyftara út í bæ.

Enn ég er læs og ég veit hvaða rétt ég á. Banki er bara stofnun sem ég tek og sný niður sýnist mér svo. Ég er bara með allt á tæru áður. Les lög og reglugerðir og svo læt ég vaða í þá og með hörku. Tryggingafélag fékk mig á sig og einusinni var rafmagnsveitan með of háan reikning líka.

kom bara og sagðist koma aftur og aftur þangað til þeir færu að lögum. " ertu að bíða eftir að ég verði vondur kannski og komi hér með lögfræðinga í kippum sem munu öskra jafn hátt og ég mun gera" Gáfu sig alveg um leið. Einn sagði að ég væri bilaður. Já alveg snarbilaður sko sagði ég. þeir lækkuðu sig um 16%hjá Tm um árið. Enn rafmagsveitan gerði gott betur. Endur greiddu hverja krónu. Málið er þetta. Lesa og lesa og vita hvað maður er að gera. Svo hjólar maður í þá og þá þá gefur maður ekki millimeter eftir!

ólafur (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 13:24

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Takk fyrir ábendinguna Guðmundur. Ég skoða þessa leið.

Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 15:08

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sammála ólafur. Fólk á að standa á rétti sínum og það fast!

Lögfræðingur SP hótaði einu sinni að henda mér út af skrifstofunni sinni í Sigtúninu þegar ég neitaði að fara þaðan. Ég sagði honum ef hann héldi sig mann í það þá mætti hann bara koma. Hann sagðist vel vera maður í það, en kom ekki þegar ég sat sem fastast. Tveim mínútum seinna hótaði hann að hringja á lögregluna og sagðist vera búinn að fletta upp númerinu. Ég sagði: "Gjörðu svo vel, það er 112."

Á endanum lofaði hann mér svari á ákveðnum degi, svo ég stóð upp og fór, enda á leiðinni í fertugsafmæli hjá vinafólki þá um kvöldið og nennti ekki að standa í lögguveseni þess vegna. Annars hefði ég setið sem fastast. Það er rétt að nefna að hann stóð við loforðið.

Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband