Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

#136. Sköpum þrúgandi þögn á Austurvelli.....

Ég legg til að hver einasti kjaftur sem ætlar að mæta á Austurvöll við setningu Alþingis á laugardaginn fari að fordæmi ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna á meðan þingheimur gengur til kirkju:

1. Geri ekkert!
2. Segi ekkert!

Leyfum alþingismönnum að heyra hvernig land án þjóðar hljómar.


mbl.is Flýta setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#135. Skapar 110% leiðin hagnað bankanna?

Ég las nýlega skjöl frá Íslandsbanka vegna 110% leiðar fyrir skuldara. Áður en ég las þessi skjöl yfir þótti mér einkennilegt hvers vegna bankinn þarf samþykki skuldara til að hann lækki útblásnar eftirstöðvar lánasamninga. En eftir lestur skjalanna vegna umsóknar um 110% leið hjá bankanum þá áttaði ég mig betur á hvað um er að vera. Íslandsbanki er að fara fram á að skuldari gangist við 110% skuldsetningu fasteignar vegna lána sem bankinn fékk á u.þ.b. helmingsafslætti frá Glitni banka, með því að staðfesta og viðurkenna að eftirstöðvarnar 01.01.2011 hafi verið þær sem tilgreindar eru á umsókn um niðurfærslu fasteignaveðláns. Jafnframt segir að skuldari gefi bankanum heimild til að nota þessar upplýsingar nafnlaust til að endurmeta verðmæti lánasafna bankans. M.ö.o. þá er bankinn að fara fram á að skuldarar samþykki að lánin séu meira virði en bankinn er með bókfært í lánasöfnum sínum í dag.

Farið er fram á að skilað sé með umsókn staðfestu afriti síðustu 3 skattframtala. Hvers vegna þarf bankinn að sjá skattframtöl til að lækka skuldir viðkomandi? Er hann að meta greiðslugetu?
Þá er einnig farið fram á staðfestingu á stöðu eftirstöðva 01.01.2011. Sem sagt skuldarinn á að staðfesta að eftirstöðvarnar er þær sem sagt er að þær séu á umsókninni, til þess að Íslandsbanki eigi verðmætara lánasafn.

Í reynd er því um hækkun á lánunum að ræða en ekki lækkun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, um stofnun efnahagsreiknings Nýja Glitnis, nú Íslandsbanka, segir:

“Útlán til viðskiptavina önnur en þau sem tilgreind eru hér á eftir eru færð yfir í nýja bankann á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána.”

Það er því almenningur sem er að gefa bönkunum heimild til að endurmeta lánasöfnin eftir þeim gögnum sem undirrituð eru við umsókn um 110% leið sem skapar hagnaðinn. Hér er þvílíkt verið að spila með grandvart fólk að annað eins gerist ekki nema í svæsnustu bíómyndum og viðskiptum mafíósa við undirmálsfólk.

Nú er ég enginn sérfræðingur í að greina ársreikninga fjármálafyrirtækja en ég fæ ekki betur séð en virði lána til viðskiptamanna Landsbankanns hafi hækkað um 60 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Hvað mikill hluti þessa hækkunar má rekja til endurmats á lánasöfnum bankans á lánum til einstalinga í kjölfar 110% leiðar? Líklega um 20 ma. króna. (Sjá árshlutauppgjör Landsbankans bls.16)

Íslandsbanki virðist ekki hafa uppfært lánasafn sitt til einstaklinga ennþá þannig að ég yrði ekki hissa á að hagnaður bankans á seinni ársins verði meiri en á fyrri hluta ársins.

Það verður fróðlegt að sjá.


mbl.is 42,7 milljarðar í hagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#134. Brotið er fjárdráttur....

Ég held að í þessu máli hafi Íslandsbanki réttinn sín megin.  Málssókn á hendur Íslandsbanka mun ekki skila neinum árangri, því allt eins getur maðurinn árangurslaust stefnt Arion banka, eða Landsbankanum.  Þeir aðilar komu ekkert nærri þessum gjörningi frekar en Íslandsbanki, því miður.  Viðskiptin voru uppgerð áður en Íslandsbanki varð til og tók við skuldbindingum Glitnis hins gamla með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Samningurinn var því ekki lengur til staðar ólíkt þeim lánasamningum sem voru gagngert færðir til hins nýja banka við bankahrunið. 

Líklega er eina leiðin fyrir manninn að kæra stjórnendur gamla Glitnis, þ.e. stjórn bankans og bankastjóra, fyrir fjársvik og fjárdrátt.  Mér skilst að skilyrði fyrir slíku er að hinum brotlega, hér stjórnendum Glitnis, mátti vera ljóst að gengistrygging lána væri ólögmæt aðferð við verðtryggingu lána í íslenskum krónum.  Bankinn, og stjórnendur hans, hafi vakið villu hjá neytenda við samningsgerð, hvort sem það var viljandi eða óviljandi.  Samningur með slíku ákvæði er þess vegna fjársvik því vakin var villa hjá brotaþola, neytandanum, að samningurinn hafi verið löglegur.  Forsendur lögbrotsins er að villa hafi verið að vera til staðar hjá brotaþola, sbr. 248.gr. hegningarlaga:

" 248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum."

Þegar svo hinn brotlegi tekur við greiðslum á grundvelli slíks samnings, en má vera ljóst að greiðslan er á misskilningi byggð, ber honum að leiðrétta mistökin, ella gerist hann sekur um fjárdrátt.

Glitnir hinn gamli hefði því í fyrsta lagi aldrei átt að krefjast, eða taka við greiðslunni, og í öðru lagi hefði átt að skila greiðslunni, eða leiðrétta, þegar hún var móttekin.

Uppgjörið eins og það var framkvæmt var því fjárdráttur.  Á slíkum gjörningi bera fyrrum stjórnendur bankans ábyrgð, og þá á að kæra til sérstaks saksóknara fyrir fjársvik og fjárdrátt.


mbl.is Fær ekki leiðréttingu mála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#133. Fraktflugvélar orðnar að einkaþotum?

Fyrirsögn og niðurlag þessarar fréttar er ansi broslegt fyrir þá sem þekkja til. Orðið risaþota er að öllu jöfnu notað yfir mjög stórar þotur eins og Boeing 747 eða 777, og Airbus 330, 340 eða 380. Enginn íslenskur auðmaður hafði aðgang að svoleiðis vél í einkaþágu að mínu viti. Vélarnar sem Darling var bent á í Luxembourg sem íslenskar voru líklega vélar frá Air Atlanta í reglubundnu viðhaldi hjá Cargolux eða í leiguverkefnum fyrir Cargolux. Þá er venjulega aðeins ein flugvél á flugbraut hverju sinni. Sé þetta bein þýðing á textanum í bók Darlings er greinilegt að hann eða ráðgjfafi hans veit ekki mikið um flugvélar eða flugrekstur. Orðræða hans um íslenksar risaþotur sem einkaþotur er því villandi svo ekki sé meira sagt.
mbl.is Ríkir Íslendingar og risaþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#132. Fastur við sinn keip....

Enn á ný fer sá mæti maður, formaður Lögmannafélagsins, fram á ritvöllinn um heimildir fjármögnunarfyrirtækja til einhliða vörslusviptinga; í þetta sinn þar sem hann útskýrir ástæðu pistils síns frá síðustu viku um þetta efni.  Aftur bendir hann á ákvæði í samningi, einhliða samið af öðrum aðilanum, þar sem heimild er veitt til vörslusviptingar ef neytandinn stendur ekki við skyldur sínar samkvæmt samningi.  Því megi lánveitandi (stundum nefndur leigusali í samningi) sækja viðkomandi hlut án íhlutunar stjórnvalds.  Viðbót og breyting 5/9 kl 22:45:  Lögmaðurinn minnist í þessu sambandi á samningafrelsið og að um þetta atriði hafi verið samið.  Þetta er því miður rangt hjá lögmanninum að mínu mati því hér er um staðlaða samningsskilmála að ræða sem ekki gefst kostur á að semja um; það er annað hvort að taka þeim eða fara annað með viðskiptin.

Að mínu mati er svona samningsskilmáli því óréttmætur enda gengur hann á lögvarinn rétt neytenda þegar um neytendalán er að ræða.  Ótvírætt er að slíkir samningar eru lánssamningar en ekki leigusamningar sbr. dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á vörslusviptingum, sem framkvæmdar voru vegna ólöglega útblásins höfuðstóls gengistryggðra lána, fyrir uppkvaðningu þessara dóma, þar sem fjármögnunarfyrirtækin óðu um allt land á hvaða tíma sólarhrings sem var, á grundvelli þessa óréttmæta samningsskilmála og hirtu samningshluti án þess að neytendur fengu að taka sína persónulegu muni úr bílnum. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á því hvernig þessi háttsemi fellur að ákvæði 19.gr. laga um fjármálafyritæki, þar sem kveðið er á um að fjármálafyrirtæki stundi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á nauðsyn þess að fjármögnunarfyrirtæki setji í samningsskilmála að lánveitandi, eða þeir sem hann tilnefnir, eigi óskoraðan aðgang að heimili neytandans. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins hvers vegna fjármögnunarfyrirtæki er heimilt að innheimta hærri heildarlántökukostnað en samið var um í upphafi, þvert á 2.mgr, 14.gr. laga um neytendalán

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins hvernig íslensk löggjöf tryggir neytanda þann rétt sem tilgreindur er í 1.mgr. 7.gr. Evróputilskipunar 87/102/EB þar sem segir:

„Þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa skulu aðildarríki kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess.  Þau skulu enn fremur tryggja að þegar lánveitandi tekur vörurnar aftur til sinnar eignar, séu reikningar aðila gerðir upp á þann hátt að endurheimting eignar hafi ekki í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun."

Þar með væri fróðlegt að fá álit lögmannsins á hvernig það er ekki ólögmæt auðgun fjármögnunarfyrirtækisins þegar það einhliða lækkar matsverð bifreiðar um 15% við riftun samnings (NB: samkvæmt skilyrðum einhliða samins samningsákvæðis) til að mæta föstum áætluðum kostnaði, en þarf aldrei að sýna fram á hver sá kostnaður er, en nefnd 15% bætast þar með við skuld neytandans því söluverð bifreiðarinnar hefur þar með lækkað um 15%.  Það er ansi mikill munur á 15% af bifreið sem er 2 milljóna virði eða annari sem er 5 milljóna virði, þó má áætla að kostnaður sé svipaður við báðar bifreiðar.  Eftirstöðvarnar bólgna því áfram út en neytandinn er að sjálfsögðu krafinn um greiðslu fullra eftirstöðva, þ.m.t. framangreindra 15% fastra affalla en fær ekki að njóta andlagsins.  Hann þarf sem sagt að borga hvort sem hann getur eða ekki, hvort sem hann nýtur andlagsins eða ekki, og þar að auki þarf hann að borga meira ef samningi er rift heldur en ef hann strögglar áfram.  Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á því hvers vegna fjármögnunarfyrirtæki er heimilt að halda innheimtu samnings áfram, eftir að andlag hans hefur verið einhliða tekið af neytanda vegna meintra vanskila.

Hægt væri að nefna fleiri atriði en læt þetta gott heita að sinni.

 


#131. Óðs manns æði?

Því má kannski líkja við óðs manns æði fyrir ólöglærðan mann að ætla bera á móti lagatúlkunum virts hæstaréttarlögmanns sem jafnframt er formaður Lögmannafélagsins.  En ég get haft skoðun á þeim, og birt þá skoðun hér, enda er dagljóst hverra erinda lögmaðurinn gengur í sínum túlkunum.  Guðmundur Andri Skúlason hefur líka svarað túlkunum lögmannsins á vefsíðu Samtaka lánþega.  Mér finnst líka alveg merkilegt hversu ósammála reyndir lögmenn geta verið um túlkun lagagreina.  Það er eins og þeir hafi ekki lært sömu lögfræðina.

Lögmaðurinn umræddi, Brynjar Níelsson, fer fram í Pressupistli sínum í gær og gagnrýnir fréttaflutning RUV um vörslusviptingar fjármögnunarfyrirtækjanna; segir þær eiga fullan rétt á sér ef að samningsskilmálar á milli aðila heimila slíkt framferði.  Lögmaðurinn nefnir hins vegar ekki að samningsskilmálarnir voru einhliða samdir af öðrum aðilanum, fjármögnunarfyrirtækinu, sem ber að stunda eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á fjármagnsmarkaði skv. lögum.  Neytandinn hafði enga möguleika að breyta skilmálunum við samningsgerð.  Hann nefnir ekki heldur ákvæði Evróputilskipunar frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, nr. 87/102/EBE, sem Íslandi ber að uppfylla, en í henni segir 7.gr.:

„Þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa skulu aðildarríki kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess. Þau skulu enn fremur tryggja að þegar lánveitandi tekur vörurnar aftur til sinnar eignar, séu reikningar aðila gerðir upp á þann hátt að endurheimting eignar hafi ekki í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun." 

Upphaflegt frumvarp til laga um neytendalán til að uppfylla þess tilskipun fól í sér eftirfarandi grein í VII. KAFLA:

„Endurheimt eignarréttar.

23. gr.

Lánveitandi getur endurheimt hlut á grundvelli kaupsamnings með atbeina sýslumanns ef kaupsamningurinn uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1 . Kaupsamningurinn skal vera undirritaður af lántakanda og honum hefur verið afhent eintak af samningnum.

2 . Kaupsamningurinn verður að kveða á um eignarréttarfyrirvara. Þrátt fyrir samþykki lántakanda er ekki heimilt að endurheimta hlut ef hann er undanþeginn aðför að lögum."

Þannig að upphaflega var gert ráð fyrir að lánveitandi leitaði til sýslumanns þegar endurheimta átti vörur.  Í meðförum þingsins var þessu ákvæði breytt á eftirfarandi hátt af Vilhjálmi Egilssyni og félögum í efnahags- og viðskiptanefnd:

„Lagt er til að VI. og VII. kafli verði sameinaðir og 22. og 24.--29. gr. falli niður þannig að tvær greinar verði í kaflanum. Er þetta gert til þess að einfalda reglurnar, auk þess sem það þykir óþarft að hafa sérstakar reglur um lágmarksverð vöru, staðgreiðsluhlutfall, tilkynningar um innheimtu eða sérstakar aðfararreglur."

Greininni var því breytt og endaði sem hér segir:

„21. Við 23. gr. (er verði 19. gr.). Greinin orðist svo:

  • Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt hlutinn á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtunnar er að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
  • Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
  • Ef andvirði söluhlutar er meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
  • Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort slit og rýrnun söluhlutar er eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.
  • Komi upp ágreiningur um hvað sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð tveggja dómkvaddra og óhlutdrægra manna. Matsmenn skulu ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið."

Þetta ákvæði stendur óbreytt sem 19.gr. laga um neytendalán í dag.

Þá vísar lögmaðurinn í pistli sínum til frægra Hæstaréttarmála sem samstarfsaðili hans, Sigurmar K. Albertsson, sótti fyrir hönd Lýsingar og SP-Fjármögnunar hf., bæði í héraði og Hæstarétti, og nefnir að þar hafi einungis einu samningsákvæði verið vikið sem ólögmætu, nefnilega gengistryggingu.  Annað standi óbreytt.  Ekki má heldur gleyma því að eiginkona Brynjars er Arnfríður Einarsdóttir sem dæmdi Lýsingu og Sigurmar í vil um lögmæti afturvirkra vaxta í Héraðsdómi.  Brynjar nefnir ekki að Hæstiréttur taldi í dómi 92/2010 að neytandinn hefði valið bifreið þá er um ræddi og samið um kaup hennar án þess að SP-Fjármögnun hf. kæmi þar nærri.  Þar með leit rétturinn svo á að SP-Fjármögnun hf. hefði veitt Ó lán en fært lánsamning í orði kveðnu í búning leigusamnings.  Brynjar segir einnig að fjármögnunarfyrirtækin séu skráðir eigendur bifreiðanna sem um ræðir, og beri þar með sem eigendur ábyrgð á henni lögum samkvæmt þ.á m. skaðabótaábyrgð vegna tjóns á hagsmunum þriðja aðila og ábyrgð á sköttum og gjöldum sem á bifreiðina eru lögð.  Þetta er einungis rétt að nafninu til því svo háttar nefnilega að það eru umráðamenn bifreiðanna sem ber að tryggja þær skv. samningi og fá senda greiðsluseðla vegna bifreiðagjalda, bera allan rekstrarkostnað, viðhald og viðgerðir.  Einungis kemur til ábyrgðar fjármögnunarfyrirtækjanna ef umráðamaðurinn greiðir ekki þessi gjöld; að öðru leyti liggur ábyrgðin hjá umráðamanni.  Þá hafa fjármögnunarfyrirtækin rukkað allan kostnað sem þau hafa orðið fyrir vegna riftunar samnigs og vörslusviptingar þannig að tjón þeirra er ekkert.  Þegar haldið er síðan áfram að innheimta eftirstöðvar samnings án þess að neytandinn njóti afnota af andlaginu, bifreiðinni, myndast ólögmæt auðgun.

Þá er einnig rétt að benda á að mér er til efs að í nokkrum tilfellum hafi starfsmaður fjármögnunarfyrirtækis undirritað kaupsamning og afsal vegna bifreiðar við upphaf samnings.  Slíkt var einungis á herðum þess aðila er síðar varð skráður umráðamaður bifreiðar.  Skráning bifreiðar á fjármögnunarfyrirtæki þvert á kaupsamning er því ólögmæt.

Þrátt fyrir túlkun Hæstaréttar sem nefnt er að ofan er eitt stærsta ágreiningsmálið einmitt þetta: Eru þessi samningar lánssamningar eða leigusamningar?

Eignaréttarákvæði fjármögnunarsamnings, og tilvísanir í samningsskilmálum um leigu, leigutaka, leigumun og leigusala, eru að mínu mati einungis settar inn til að opna fjármögnunarfyrirtækjunum leið til að ganga framhjá neytendarétti, eins og hann er lögvarinn í lögum um neytendalán, t.a.m. 19.gr.  Öll umsýsla samninganna er með þeim hætti að um lán sé að ræða.  Settir eru fyrirvarar í samningsskilmála um að leigutaki gerir sér grein fyrir að lántaka í erlendri mynt sé áhættusamari en í íslenskri krónu, og reiknaðar eru afborganir og vextir af höfuðstól, sem og árleg hlutfallstala kostnaðar er kynnt.  Slíkt er alla jafna ekki gert í leigusamningum.  Þá er leigugjald venjulega fast í leigusamningum og samið sérstaklega um hækkun þess. 

Í þessu sambandi er því áhugavert að athuga hvort til séu sérstök lög um venjulega leigusamninga.  Mér vitanlega eru engin slík lög til önnur en samningalögin nr. 7 frá 1936 með síðari breytingum.  Þó eru til lög um húsaleigusamninga nr. 36 frá 1994.  Í þeim er upptalin réttindi og skyldur hvors samningsaðila um sig og þar sem engin önnur lög eru til að mínu viti um leigusamninga vil ég horfa til ákvæða húsaleigulaga ef úrskurða á fjármögnunarsamninga um bifreiðar sem leigusamninga.  Slíkt heitir líklega lögjöfnun á lagamáli og er beitt ef ekki er að finna sérstök lagaákvæði um ágreiningsefni. Er þá litið til annarra lagaákvæða um sambærilegt efni.

Sem dæmi er í húsaleigulögum sagt í 37.gr. að aðilum er frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Leigufjárhæðin skal þó jafnan vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila.

Um aðgang leigusala að leigðu húsnæði segir í 41. gr.:

Leigusali á rétt á aðgangi að hinu leigða húsnæði með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigjanda þannig að hvorki fari í bága við hagsmuni hans né leigjanda til að láta framkvæma úrbætur á hinu leigða og til eftirlits með ástandi þess og meðferð. Leigusala er þó aldrei heimill aðgangur að hinu leigða húsnæði þegar leigjandi eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur, nema að fengnu samþykki leigjanda."

SP-Fjármögnun hf. sá ástæðu til að hafa eftirfarandi ákvæði í 8.gr. sinna samningsskilmála: „SP, eða þeir sem SP tilnefnir, skal jafnan eiga óskoraðan aðgang að starfsstöð leigutaka, heimili, eða starfssvæði til að skoða bifreiðina."

Þannig að húsaleigulög girða fyrir slíkan rétt þinglýsts eiganda leiguhúsnæðis.

Um riftun leigjanda á leigusamningi í 60.gr. húsaleigulaga vil ég nefna þessi dæmi:

Leigjanda er heimilt að rifta samningi í eftirtöldum tilvikum:

„5. Ef réttur leigjanda er verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla eða vegna þess að hann fer í bága við kvaðir sem á eigninni hvíla. Leigusali ber og bótaábyrgð á beinu tjóni leigjanda af völdum slíkrar skerðingar ef hann vissi eða mátti um hana vita við gerð leigusamnings og lét hjá líða að gera leigjanda viðvart."  Hvað með afturvirkan vaxtareikning?  Mundi hann teljast réttarskerðing vegna laga eða opinberra fyrirmæla?

"7. Ef leigusali brýtur ítrekað eða verulega gegn rétti leigjanda til að hafa umsamin óskoruð umráð og afnot hins leigða, svo sem með því að hindra eða takmarka afnotin eða með óheimilum aðgangi og umgangi um hið leigða eða ef leigusali gerist sekur um refsivert athæfi gagnvart leigjanda eða fjölskyldu hans."  Ólögleg gengistrygging, afturvirkur vaxtareikningur og innheimta hans hafin fyrir gildistöku laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu?  Refisvert athæfi gagnvart leigjanda?  Eigum við að ræða það eitthvað?

"8. Ef leigusali vanefnir frekar skyldur sínar samkvæmt leigusamningi eða lögum þessum á svo verulegan eða sviksamlegan hátt að riftun af hálfu leigjanda sé eðlileg eða nauðsynleg."

Ekki ætla ég að telja upp fleiri dæmi en tel rétt að velta þessu sjónarmiði upp þó að mínu mati dagljóst sé hvers eðlis þessir fjármögnunarsamningar eru, nefnilega lánasamningar þar sem neytandi valdi bifreiðina hverrar fjármögnun styrinn stendur um.

PS: Allar feitletranir í tilvísunum í lagagreinar eru mínar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband