#13. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar – 8. hluti.

Síðasta færsla fjallaði um vafa á túlkun samnings.  Skoðum nú aðeins innheimtu dráttarvaxta á gengistryggðum bílasamningi SP. 

SP heldur því fram við mig (og aðra viðskiptavini sína): „Samningur [nr. samnings] er í erlendri mynt og verður innheimtur sem slíkur......."  Þó hefur sami aðili og sagði þetta, ekki enn getað bent á þá grein samningsins þar sem segir svo, á skýru og skiljanlegu máli eins og samningalög kveða á um að eigi að gera við gerð samnings.  Ok, en standast þessi rök SP ef skoðaðir eru dráttarvextir þeir sem innheimtir eru á gengistryggðum samningum þeirra? 

Ég sendi forstöðumanni innheimtusviðs SP eftirfarandi fyrirspurn 12. mars, um hversu háir dráttarvextir eru innheimtir af gengistryggðum samningi, sem þeir kalla samning í erlendri mynt: „Eru dráttarvextir á bílasamningi mínum í dag sem sagt 16,5%?"  Svar forstöðumannsins var eftirfarandi:  „Já, dráttarvextir í dag eru 16,5%."

Skv. töflu yfir dráttarvexti frá Seðlabanka Íslands kemur fram að frá og með 1. júlí 2006 hætti Seðlabankinn að birta dráttarvexti af lánssamningum í erlendri mynt, gerðum fyrir gildistöku laga nr. 38/2001. Eftir það gilda vextir sem birtir voru 26. maí 2006

Í tilkynningu Seðlabankans frá 31.maí 2006 um dráttarvexti og vexti af peningakröfum er í III-lið gefnir upp dráttarvextir af peningakröfum í JPY og CHF, 5%.  Í tilkynningunni er undirmálsgrein nr. 6 þar sem ákvörðun dráttarvaxta af peningakröfum í erlendri mynt eru útskýrð.  Þar segir:  "Í bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 38/2001 segir: „Nú segir í lánssamningi í erlendum gjaldmiðli, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 11. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir þessir vera ákvarðaðir með sama hætti næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara, en að þeim tíma loknum skulu þeir vera jafnháir þeim dráttarvöxtum í hlutaðeigandi gjaldmiðli sem síðast voru auglýstir af Seðlabankanum í Lögbirtingablaði fimm árum eftir gildistöku laganna".  Dráttarvextir fyrir lánssamning í erlendri mynt voru síðast birtir 26. maí 2006, eins og áður sagði.  Hvaða dráttarvextir eiga þá að gilda um samninga í „erlendri mynt," (eins og SP heldur fram að minn samningur sé) og gerðir eru eftir gildistöku laga nr. 38/2001?  Er ástæða þess að slíkir dráttarvextir eru ekki lengur birtir, að Seðlabankinn gerði ekki ráð fyrir að hægt væri að gera slíka samninga eftir gildistöku laganna og þar með sé enginn þörf á að birta dráttarvexti fyrir slíka samninga?  Hér er tilkynning frá Seðlabankanum um vexti og dráttarvexti frá 23. mars 2010.  Þar er ekkert rætt um peningakröfur í erlendri mynt, bara í krónum.

Eins og ég minntist á fyrr þá staðfesti fulltrúi SP, (reyndar 2 fulltrúar), í tölvupósti þ. 12. mars [......] að dráttarvextir af lánssamningi mínum séu reiknaðir 16,5%.  Þetta sannar að SP lítur á bílasamninginn sem peningakröfu í íslenskum krónum ef dráttur er á greiðslu, en peningakröfu í erlendri mynt þegar greiðsluseðlar eru myndaðir.  Ef SP ætlaði að vera samkvæmt sjálfu sér myndu dráttarvextir fyrir peningakröfu í erlendri mynt, væntanlega eiga vera 5%, eins og síðast var kynnt af Seðlabanka Íslands þ. 26. maí 2006, eða hvað?.

Forstöðumaður innheimtusviðs SP sagði eitt sinn við mig á skrifstofu sinni eitthvað á þá leið: „Sko, þú getur ekki bara tekið allt það besta sem þér finnst og sett það fram sem þín rök!"  Halló!  Erum við ekki á sömu pláhnetu hér?  Hvað er SP að gera annað en nákvæmlega það sem forstöðumaðurinn sagði að ég mætti ekki gera?  Hvenær ætlar FME og Neytendastofa að grípa í taumana????  Hvað þarf eiginlega til?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sendi einmitt fyrirspurn til Seðalabankans um þetta fyrir stuttu og fékk mjög stutt og einkennilegt svar, skal leita að því. Einmitt,  erlend lán með íslenskum dráttarvöxtum og jú ég man að strákur sem ég talaði fyrst við hjá Seðalab. sagði: Segir það okkur ekki bara að lánin séu í ISK?  Hann bað mig svo um að senda skriflega fyrirspurn og þá fékk ég e-ð mjög fátæklegt svar.
En þetta er aldeilis flottar greiningar og í dómnum 3.des samþykkir dómari dráttarvexti í ISK ofan á lán í erl. mynt.  Er næstum viss að eftir eitt ár eða svo munum við líta til baka og vita fyrir víst að þetta voru all svakalegar svikamyllur, þar sem fjármálafyrirtæki smáþjóðar blekktu og sviku samlanda sína með aðstoð eða sofandahætti eftirlitsaðila.

Þórdís (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 20:34

2 identicon

Þessi færsla er snilld. Þetta vissi ég ekki!

Sófus (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband