#14. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 9. hluti.

Byrjum nú að fara yfir almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.  Því miður er það svo að við lestur og greiningu þeirra vakna ansi margar spurningar um tilgang þeirra og réttmæti.

Almennir samningsskilmálar eru taldir upp á bakhlið samningsins í 19 greinum og hefjast á þessum orðum:  „Aðilar samnings þessa, sem er í eðli sínu kaupleigusamningur, eru leigutaki og SP-Fjármögnun hf. sem leigusali......."  Hér skal haft í huga að í samningnum er samið um kaupverð í lok samnings.  Þannig, að þrátt fyrir að talað sé um leigumun í samningi, gengur samningurinn út á kaup á bifreið með eignarréttarákvæði leigusala, þar til upphaflegt kaupverð ásamt vöxtum, hefur verið greitt honum með afborgunum á samningstíma.  Afborganirnar nefnast leiga í samningi og eiga fela í sér allan kostnað leigusala á samningstíma og skulu kynntar leigutaka við samningsgerð.  Hér er því í reynd um afborgunarkaup að ræða. 

1. gr. samningsskilmálanna kveður á um eignarétt, upphaf og lok samnings.  Þar segir að eignaréttur haldist hjá SP á gildistíma samnings og samningurinn sé óuppsegjanlegur af hálfu leigutaka.

F-liður 4.gr. laga um neytendalán útskýrir eignaréttarákvæði: „f. Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum."  SP hefur þar með öll spil á hendi um ráðstöfun leigumunar og er ekki ástæða til að efa þann rétt í ljósi aðstæðna, þeir eru jú lánveitandi fyrir leigumun.  Hins vegar er erfitt að sjá að fyrirtækið þurfi að vernda hagsmuni sína frekar en með nefndu eignaréttarákvæði.  Frekari féinnheimta vegna uppgjörs samnings, væri neytendum til tjóns og freklega í óhag, því lögin segja að komi til endurheimt leigumunar skuli uppgjör leiða til þess að aðilar standi eftir, sem næst því að enginn samningur hafi verið til staðar.  Sjónarmið SP virðist vera, að það sé sanngjarnt og réttmætt að neytendur eigi að standa eftir með skuld vegna leigumunar, sem jafnvel er hærri en virði hans, hvort sem um mat SP eða markaðsverð er að ræða, en í leiðinni án hans.  Í tilskipun Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE, kynnt í Stjórnartíðindum þ. 21. apríl 1993, er viðauki með óréttmætum samningsskilmálum.  Listinn er leiðbeinandi og alls ekki tæmandi, en þar segir í „e) [samningsskilmáli sé óréttmætur ef lánveitandi megi] krefjast ótilhlýðilega hárra bóta af neytanda sem stendur ekki við skuldbindingar sínar."   Sem sagt gjaldfella samning, hirða leigumun, draga frá óeðlilega háan viðgerðarkostnað og rukka samninginn að fullu með dráttarvöxtum og uppgreiðslugjaldi????  Óréttmætt?  Erum við eitthvað að grínast?  Ég mundi segja svo væri.

Þar segir einnig  í l-lið l) að gera ráð fyrir að vöruverð sé ákveðið við afhendingu eða heimila seljanda vöru eða veitanda þjónustu að hækka verðið án þess, í báðum tilvikum, að veita neytandanum tilsvarandi rétt til að ógilda samning ef endanlegt verð er of hátt samanborið við umsamið verð við gerð samnings." Munið að samkvæmt 1.gr. er samningurinn óuppsegjanlegur af hálfu leigutaka.  Hækka leiguverð með gengistryggingu????  Óréttmætt?!!  Og að síðustu í o-lið o) að skylda neytanda til að standa við skuldbindingar sínar enda þótt seljandi eða veitandi standi ekki við sínar."  SP tekur bílinn vegna meintra vanskila, en neytandi á að borga að fullu, jafnvel meira en virði bílsins, en fær ekki kost á að kaupa bílinn með öðrum hætti á matsverði SP????  Óréttmætt?  Standa aðilar eftir við riftun, sem næst því að viðskiptin hafi ekki átt sér stað?  Dæmi hver fyrir sig.

Því miður eru dæmi um, að við mat á bifreiðum vegna uppgjörs samnings, hafi SP metið virði bifreiðar óeðlilega lágt og viðgerðarkostnað úr hófi fram.  Dæmi eru um að bifreið hafi verið endurseld á hærra verði en matsverð SP var, án þess að fékrafa á fyrri umráðaaðila hafi verið lækkuð, jafnvel án þess SP léti  gera við bifreiðina fyrir sölu, eins og metið hafði verið við uppgjör að þörf væri á. 

Og við erum rétt að byrja.  Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband