#15. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar – 10. hluti.

Lánssamningar frá atvinnurekanda til neytenda eru neytendalán, eins og segir í 1. gr. laga um neytendalán, á skýru og skiljanlegu máli eins og skrifa á samninga á: „Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.”

Í d-lið 2.gr. laganna er tekið fram að eignarleigusamningar eru ekki undanskildir lögunum með þessum orðum: „ 2. gr. Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:………..d. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, ………”

En áfram með samningsskilmála bílasamnings SP.

2. gr tekur á leigugjaldi, greiðslum , sköttum, gjöldum, o.fl.

Þar er fyrst rætt um leigugjald í íslenskum krónum, svo leigugjald sem er verðtryggt og svo að lokum leigugjald sem er gengistryggt, sem er náttúrulega ekkert annað en leigugjald í íslenskum krónum.  Það er aldrei talað um leigugjald í erlendri mynt í 2.gr.  En þar segir m.a. að sé leigugjald í lið III gengistryggt að hluta eða öllu leyti er miðað við breytingar á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni á samningstímanum.  „Jafnframt taka leigugreiðslurnar breytingum erlendu gjaldmiðlana á millibankamarkaði í London (LIBOR).  Leigufjárhæðin er hins vegar alltaf innheimt í íslenskum krónum. Við útreikning leigu skal miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli/eða gjaldmiðlum eins og það er á hverjum tíma.“  Þessi samningsskilmáli er gjörsamlega ólöglegur, og í raun dauður og ómerkur að mínu mati, þar sem starfsleyfi SP tekur ekki til viðskipta með erlendan gjaldeyri eða gengisbundin bréf fyrir eigin reikning eða viðskiptamenn.  Hvernig á fyrirtækið að borga „erlend“ lán, fyrir sig eða viðskiptamenn, ef það ekki má eiga viðskipti með gjaldeyri?  Hvorki kaupa eða selja gjaldeyri, það væru jú viðskipti.  Og þar að auki lán sem eru tekin hjá Landsbanka Íslands en finnast ekki í bókum hans!  Ekki verður annað séð en að öll viðskipti sem SP stendur að, verði þar af leiðandi að vera í íslenskum krónum. 

3.gr. fjallar um vanskil.  SP auglýsir ekki á vefsíðu sinni hverjir dráttarvextir eru hverju sinni né vísar á þá heimild sem þessar upplýsingar er að finna.  En skv. tilkynningu Seðlabankans frá 26. maí 2006, eru dráttarvextir mismunandi hvort um er að ræða peningakröfu í erlendri mynt eða íslenskum krónum.  1. júní 2006 lauk skyldu Seðlabankans um tilkynningu dráttarvaxta peningakrafna í erlendri mynt en árréttar í tilkynningu 26. júní 2006, að dráttarvextir fyrir slíkar peningakröfur, séu þær enn í gildi, skuli eftirleiðis vera jafnháir dráttarvöxtum sem síðast voru auglýstir, en það var síðast gert 26. maí 2006 fyrir peningakröfur í erlendri mynt.  SP reiknar dráttarvexti miðað við að samningurinn minn sé í íslenskum krónum.  Ég ræddi ítarlega um innheimtu dráttarvaxta hér og ætla láta það nægja að sinni.  Að síðustu segir í 3.grein að SP megi halda gengistryggingu á gjaldfallinni upphæð.  Eins og ég hef áður sagt er gengistrygging ólögmæt.

4.gr. er stutt og í raun óþarft að minnast á að öðu leiti en því að hún fjallar afhendingu bifreiðar við upphaf samnings, sem og ábyrgð leigutaka vegna skemmda o.þ.h. eftir afhendingu.

5.gr. er að sama skapi stutt og bannar að flytja megi bifreiðina úr landi, sem er ekkert óeðlilegt, SP er jú eigandinn og á hagsmuna að gæta.

6.gr. fjallar um skoðunarskyldu og er skoðunarskyldu velt á leigutaka.  Svolítið sérstakt að fara ekki fram á ítarlega ástandsskoðun á viðurkenndu verkstæði af til þess hæfum mönnum áður en af kaupum verður og treysta á hæfni leigutaka til matsins.  Þarna eru miklir hagsmunir í húfi og SP ætti að setja ástandsskoðun viðurkennds aðila, sem skilyrði báðum aðilum til góða, ef þeir stunduðu góða viðskiptahætti.

7.gr. tekur til vanefnda seljanda við kaupin.  Þetta er ekki SP því það kallast leigusali, en eru í raun að selja mér bílinn með afborgunum engu að síður.  En hér er átt við fyrri eiganda eða söluaðila, umboð eða því um líkt.

Látum þetta duga í bili en næst skoðum við 8. gr. sem hefur að geyma stjórnarskrárbrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband