#16. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 11. hluti.

Undanfarnar færslur hafa fjallað um almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar. Höldum nú áfram þar sem frá var horfið í síðustu færslu.  Í lok hennar minntist ég á stjórnarskrárbrot.  Hvað á ég við?

8.gr. fjallar um afnot og fleira, en í 2.mgr. segir eftirfarandi:  „SP, eða þeir sem SP tilnefnir, á að hafa óskoraðan aðgang að starfstöð leigutaka, heimili eða starfssvæði til að skoða bifreiðina."  Hvað er átt við með óskoraðan aðgang? 

Orðið óskoraður er skilgreint svo í tölvutækri orðabók á snara.is:  ó|skoraður L: algjör, óbifanlegur, skilyrðislaus, óskertur;  [Dæmi:] full og óskoruð yfirráð.  Er eðlilegt að fyrirtæki sem bíður upp á neytendalán setji slíkan samningskilmála í samning við neytendur?  Fyrirtæki sem á að hafa sérþekkingu á fjármálaviðskiptum, og hefur lögfræðinga í sinni þjónustu eða starfsliði!  Hvaða hagsmunir kalla á það að hafa óskoraðan aðgang að starfstöð, leigutaka, heimili hans eða starfssvæði?  Væri ekki eðlilegra að það gæti óskað eftir slíkum aðgangi í samráði við leigutaka, og takmarkað þá ósk við aðgang að því svæði eða húsnæði, þar sem bifreðin er geymd, s.s. bílskúr, bílskýli, almennri bílageymslu o.s.frv.?  Hvað með starfssvæði?  Getur leigutaki leyft aðgang að starfssvæði sínu án heimildar atvinnurekanda síns???  Getur SP gengið að leigumun í lokaðri, aðgangstýrðri bílageymslu atvinnurekanda leigutaka?  Dæmi eru um að svo hafi verið gert.  Má vaða inn í lokaðar bílageymslur fólks að næturlagi í þessum tilgangi, eins og gefið er í skyn með ákvæðinu um „óskoraðan aðgang"? 

Í 13. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir:  „Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda."

Að mínu mati, stenst ofangreint  ákvæði bílasamnings ekki stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga um friðhelgi heimilis og einkalífs, sem og persónuvernd, þar sem samningsskilmálinn er settur fram einhliða í stöðluðum samningsskilmálum.  En þó að samið væri sérstaklega um þetta ákvæði í samningi aðila í millum, er það óréttmætur samningsskilmáli engu að síður, því þar er gróflega gengið gegn 71. gr stjórnarskrár sem stendur svo: 

71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.  Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]"

Það að eiga gefa öðrum aðila óskoraðan aðgang að heimili sínu með samningi er gróf skerðing á einkalífi manns.  Ekki einu sinni stjórnvöld mega koma inn á heimili manns nema með samþykki hans eða dómsúrskurði.  Það er því klárlega óhæfilegt að ganga svo gegn hagsmunum neytanda, við samningsgerð með stöðluðum einhliða samningsskilmálum, að þeim beri að semja frá sér stjórnarskrárbundinn réttindi!

Neytendastofa verður að víkja svona samningsskilmála hið fyrsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband