#17. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 12. hluti.

Við erum rétt hálfnuð í yfirferð okkar um almenna skilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.

9.gr.  fjallar um meðferð bifreiðar.  Þar er í raun ekkert athugavert að sjá sem mætti teljast óeðlileg krafa.  En stöldrum þó aðeins við 6.mgr.  Þar segir: „Honum [s.s. leigutaka] ber að fylgja öllum fyrirmælum stjórnvalda og öðrum þeim reglum sem gilda um bifreiðar og notkun þeirra á hverjum tíma."  Þessi skilmáli er grátbroslegur þegar litið er til framkomu og hegðunar SP-Fjármögnunar í garð neytenda og viðskiptamanna sinna við umsýslu bílalána.  Gengistrygging, stjórnarskrárbrot, óhóflegur viðgerðarkostnaður, óréttmætir viðskiptahættir, efnislegri umræðu hafnað, erindum ekki svarað, o.s.frv., o.s.frv., svo dæmi séu tekin.  Allt hugtök sem viðskiptavinir þess þekkja af biturri reynslu en eiga engu að síður að vera varin fyrir í lögum, sem SP-Fjármögnun hf. ber að fara eftir og fylgja án þess að stjórnvöld standi yfir þeim á degi hverjum og leiðbeini um framkvæmd hverrar athafnar fyrirtækisins fyrir sig.  En þeir hafa þennan rétt neytenda að engu.

10. gr. tekur til tjóns á bifreiðinni.  Allt tjón skal bæta á meðan lántaki hefur bifreið í vörslu sinni og skal tilkynna SP slíkt tjón.  En í 2.mgr. segir: „Undanþegið er þó eðlilegt slit á bifreiðinni."  Hvað skyldi mikið af metnum viðgerðum á vörslusviptum bifreiðum hafa í raun verið eðlilegt slit, en engu að síður innheimt sem viðgerðarkostnaður?  Hér er umfjöllun um stúlku sem átti í viðskiptum við Avant, fór með bílinn í lögbundna skoðun, fékk engar athugasemdir, en mánuði síðar var bíllin tekinn og mat Aðalskoðunar var að skipta þurfi um eða gera skuli við rúðuupphalara, útvarp, stöðuljós, númersljós, stýrisenda, stýrisvél, hjólbarða, höggdeyfa, hemlarör, klossa og tímareim auk þess sem bíllinn þarfnist þrifa og smurningar. Þá þurfi að sprauta bílinn fyrir liðlega 230 þúsund krónur. Allt sem að ofan er nefnt getur vel verið dæmi um eðlilegt slit á 12-13 ára gömlum bíl eins og tilfellið er hér.  Ég hef ekki skoðað samningsskilmála Avant en ef þetta væri SP, væri þetta óhóflegt og gengi gegn hagsmunum neytenda.  Ekki verður séð að önnur rök ættu að gilda um Avant í þessu sambandi.

Viðskiptavinir SP-Fjármögnunar (og eftir atvikum annarra eignaleigufyrirtækja) eiga ekki að borga fyrir eðlilegt slit!  Allir sem í því hafa lent ættu að íhuga að sækja til baka innheimtan viðgerðarkostnað fyrir endurheimtan/vörslusviptan leigumun, sýnist þeim sem frekar sé um eðlilegt slit að ræða en tjón!!  Slíkan kostnað á SP að endurgreiða lántaka með vöxtum!!  Mjög líklega myndi málskostnaður vegna slíks máls falla á eignaleigufyrirtækið!

11.gr. tekur á vátryggingum og skaðabótaábyrgð, lántaki skal tryggja bifreiðina skv. því sem þar er fyrirmælt og vera ábyrgur fyrir tjóni sem notkun bifreiðar getur valdið með beinum eða óbeinum hætti.  4.mgr. segir að ef lántaki [tryggi] ekki sé SP heimilt, en þó ekki skylt, að greiða vátrygginguna fyrir hönd leigutaka, og endurkrefja hann um kostnað sem af þessu hlýst auk álags skv. gjaldskrá SP eins og hún er hverju sinni.  Hér skal haft í huga að í nýlegu dómsmáli sem SP höfðaði gegn viðskiptamanni, féll SP frá kröfu vegna tryggingar frá Sjóvá, vörslusviptingarkostnaðar, viðgerðarkostnaðar, stöðumælasektar og mats á viðgerðarkostnaði.  Nam lækkun krafna 747.049 krónum og munar um minna.  Þessu máli var vísað frá Héraðsdómi og var frávísunin síðar staðfest í Hæstarétti, eftir áfrýjun SP.  Málsnúmer er E-4577/2009 og var málinu vísað frá Héraðsdómi þ. 9. mars 2010 og má finna dómsorð hér.  Umfjöllun um rétt neytenda þessu máli tengdu má finna á vef Talsmanns neytenda, hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband