#21. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 16. hluti.

Þá eigum við aðeins eftir 3 greinar af þeim 19 sem mynda almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf. 

17.gr. fjallar um lok samningstímans og að greiðsla umsamins lokaverðs taki breytingum skv. 2.gr., sem sagt lokaverðið er gengistryggt líka.

18.gr. tilgreinir varnarþing vegna ágreinings vera í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Og að síðustu, 19.gr. segir SP-Fjármögnun hf. hafa heimild til að framselja samning að hluta eða öllu leyti, en leigutaki hefur ekki slíkan rétt nema með samþykki SP-Fjármögnunar hf.  Eftir því sem ég kemst næst er það almennt svo í íslenskum rétti að svona sé réttur kröfuhafa og því ekkert yfir því að kvarta.

Að síðustu er ónúmeraður feitletraður texti þar sem með undirritun staðfesti leigutaki að hann sé samþykkur ofangreindum greinum, sem sumar eru tilgreindar sérstaklega, og hafi engar athugasemdir við ákvæðin.  (Hér ber að hafa í huga að allir staðlaðir samningsskilmálar sem settir eru einhliða fram af öðrum aðila fyrirfram, og valda umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns, teljast óréttmætir skv. 1.tl. 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins, nr. 13/93/EBE um neytendavernd.  Krækja á afrit tilskipunarinnar er að finna undir Tenglar>Skjöl hægra megin á síðunni.  Um undirbúning og gerð samnings sá löggiltur bílasali og aldrei í því ferli átti ég samskipti við starfsmann SP-Fjármögnunar hf. til að semja sérstaklega um samningsskilmálana.  Er/var þetta algengt fyrirkomulag við gerð slíkra samninga um bílaviðskipti.)

Þá er loks minnst á að leigutaki gefi SP-Fjármögnun heimild til að tilkynna Lánstrausti hf. um öll vanskil sem tengjast samningnum og til að spyrjast fyrir um bankaviðskipti hans í skuldastöðukerfi Lánstrausts hf.  Allt venjulegir skilmálar frá kröfuhafa við samningsgerð að því ég best veit.

Afrit af þessum skilmálum sem hér hefur verið fjallað um, er að finna undir Tenglar>Skjöl hér til hliðar.  Því miður er afritið óskýrt en ef ég kemst yfir betra eintak mun ég reyna skipta því út.

Með þessari færslu lýkur umfjöllun minni um almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.  Tekið skal fram að þessir skilmálar sem fjallað hefur verið um, fylgja lánssamningi með höfuðstól gengistryggðum í myntkörfunni BL2, myntkörfu, sem hefur ekkert auglýst gengi á vefsíðu SP-Fjármögnunar hf. og hefur aldrei haft að mér skilst.  Þetta þýðir þó ekki að ég sé endilega hættur að ræða lánastarfsemi SP-Fjármögnunar hf.  Það leynist ýmislegt þar sem hefur vakið fleiri spurningar en svör.

Að gefnu tilefni ber að geta, að SP-Fjármögnun hf. hefur ítrekað neitað að svara efnislega fyrirspurnum mínum sendum í tölvupósti, eða bréflega, enda sé það stefna fyrirtækisins að gera slíkt ekki á þeim vettvangi.  Framkvæmdastjóri þess hefur ekki svarað fyrirspurnum mínum settum fram í lok mars sl., um hvort sú stefna sé mörkuð af stjórn eða honum.  Þetta hefur valdið því, að allt sem ég hef að undanförnu sagt um almenna samningsskilmála bílasamnings míns, eru einhliða hugleiðingar mínar um efnið eftir þeim gögnum sem ég hef aflað mér, og ályktunum dregnum af þeim athugunum.  Mér hefur ekki gefist kostur á að meta efnisleg rök SP-Fjármögnunar hf. þar sem fyrirtækið lætur þau ekki frá sér.  Ég hvet alla sem hafa eitthvað við efni þessara hugleiðinga að athuga að setja inn athugasemdir við færslurnar.  Öðruvísi get ég ekki leiðrétt ef ég fer með rangt mál.  Það er ekki vani minn eða ásetningur að rægja fólk eða lögaðila.  Ég er einfaldlega leikmaður, ólöglærður, og reyni að byggja málflutning á staðreyndum eins og þær blasa við mér, en blöskrar hins vegar framganga fjármögnunarfyrirtækjanna vegna bílalánasamninga, og máttleysi stjórnvalda og eftirlitsaðila til að stemma stigu við henni.  Því miður eru dæmi um að einstaklingur hafi tekið eigið líf vegna framgöngunnar, en það virðist ekki hægja á innheimtuaðgerðum eða aukið virðingu fyrir neytendarétti.  Hvað eiga margir að þurfa um sárt að binda áður en að stjórnendur fyrirtækjanna eru stöðvaðir??  Munum það, að þó fyrirtækin loki leita stjórnendur þess á ný mið, hugsanlega innan fjármálageirans.  Ef þeim er ekki sýnt hvernig á að koma fram við neytendur verður engin breyting á þó núverandi fyrirtæki loki.

Það starfsfólk SP-Fjármögnunar hf., sem ég hef rætt við hefur flest verið kurteist í viðmóti og tilbúið að hlusta á mínar röksemdir.  Heimildir þess takmarkast þó að einhverju leyti af framsettri stefnu fyrirtækisins og við erum sammála um að vera ósammála.  Það er þó mín skoðun að starfsfólkið sé ekki undanskilið gagnrýnni hugsun á starfsemi vinnuveitanda síns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband