#42. Lögfræðiálit SP-Fjármögnunar hf. og Lýsingar.......eigum við að ræða það eitthvað?!!!

Enn heldur gengistryggða bullið áfram. Nú ætlar Sjómannafélagið í mál við Arion banka vegna gengistryggðs fasteignaláns sem er upgreitt.  Þetta verður fróðlegt mál.  

Og samkvæmt frétt RUV þ.28.júlí ætla SP-Fjármögnun hf. og Lýsing að innheimta fjármögnunarleigusamninga með óbreyttu sniði vegna þess að þar sé um leigusamninga að ræða en ekki lán.  Þetta sé niðurstaða lögfræðiálits en ekki tilgreint hverjir lögfræðingarnir séu.  Sko, erum við ekki öll búin að kynnast lögfræðikunnáttu þessara fyrirtækja?!!  Hún er minna en engin.

Hæstiréttur úrskurðaði í júní að kaupleigusamningur væri lán, ekki leigusamningur eins og SP reyndi að halda fram.  Mér skilst einnig að einkaleigusamningar SP séu tilgreindir á samningi sem „kaupleigusamningar í eðli sínu".   Nú hef ég ekki kynnt mér innihald þessara einkaleigusamninga sem slíkra.  Ég veit þó að að í einkaleigusamningum SP er samið um kaupverð í lok samningsins.  Alla vega segir auglýsingabæklingur fyrirtækisins það:

ÞÚ LEIGIR BÍLINN AF OKKUR EN NÝTUR UMSAMINNAR ÞJÓNUSTU HJÁ UMBOÐI BÍLSINS SEM KAUPIR HANN SVO AFTUR Í LOK SAMNINGSTÍMANS.

ÞÚ ÁTT EKKERT Í HONUM. HANN Á EKKERT Í ÞÉR.

Og á heimasíðu þess segir þegar þetta er ritað: 

EINKALEIGA

Þú finnur bílinn, við kaupum hann og leigjum þér til allt að þriggja ára. Í lokin kaupir bílaumboðið hann af þér þannig að þú ert laus við alla áhættu af endursölu. 

Já, er það?  Sniðugt!  Hvort er þetta þá lán eða leiga, ef þú átt bílinn í lok samnings?!!!!!!   Einfalt, ef eignarétturinn færist á „leigutaka" í lok samnings er þetta lán.  Ef ekki, þá er þetta leiga.

Leigumun þarf ekki að kaupa af leigutaka af því leigutaki á hann ekki, heldur er leigusalinn eigandinn.  Einnig er leiga almennt ekki innheimt með vöxtum.  Neytendur borga t.d. ekki vexti í húsaleigu.  Þeir borga fasta leigu.  Hún getur verið verðtryggð, ef aðilar semja þannig.  En getur hún verið gengistryggð?  Hugsanlega, en þó varla.  Miðað við nýgengna dóma má álykta að gengistrygging sé ígildi verðtryggingar.  Slík verðtrygging er óheimil í lánssamningi en hvað með leigusamninga við aðila sem hefur af því atvinnu?  Er allt leyfilegt?  Ég segi nei.  Engin sérstök lög virðast vera til á Íslandi um leigusamninga, aðra en húsaleigusamninga.  Og leyfi ég mér því að skoða þau með tilliti til hvað löggjafinn segir um húsaleigusamninga.  Í þeim segir í 11.gr.: 

„Ákvæði í leigumála má meta ógild ef þau mundu leiða til niðurstöðu sem væri bersýnilega ósanngjörn.  Sama gildir ef ákvæði í leigumála brýtur i bága við góðar venjur í húsaleigumálum." 

Þessi grein er algjörlega samhljóma ákvæðum 36.gr. samningalaga hvar víkja má samningi ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Af þessu vil ég því leiða, að eins og gengistrygging er ólögleg í lánssamningi yrði hún talin jafnólögleg í leigusamningi neytanda, vegna einhvers hlutar, við aðila sem hefur af því atvinnu. 

Þar með eru slíkir einkaleigu- og/eða fjármögnunarleigusamningar fjármögnunarfyrirtækjanna við neytendur vegna bifreiða, ólöglegir.

Og hvernig er með riftun einkaleigusamnings?  Hvað ber leigutaka að borga við slíka riftun?  Allan bílinn og meira til?  Ekki veit ég það.  En ef svo er, hallar þar ekki gróflega á neytandann, þar sem leigusali getur alltaf selt bílinn samkvæmt samningi við bílaumboðið, en innheimtir allan samninginn af neytanda og fær þar bílinn borgaðan tvisvar til baka við samningslok/rof, en leggur aðeins einu sinni út fyrir honum? 

Ég hvet alla handhafa einkaleigu- eða fjármögnunarleigusamninga að íhuga vel sína stöðu áður en greitt er af útsendum greiðsluseðlum fjármögnunarfyrirtækjanna þessi mánaðamótin.  Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þessi fyrirtæki fari öll lóðbeint á hausinn á næstu mánuðum, eins og sagði í inngangi svars Seðlabankans til umboðsmanns Alþingis á blaðsíðu 2 varðandi samningsvexti: 

„Samkvæmt upplýsingum sem fyrir lágu þegar tilmælin voru gefin út var ljóst að öll stóru fjármálafyrirtækin myndu verða fyrir svo miklu höggi á eigið fé þeirra að óhjákvæmilegt væri að ríkissjóður legði þeim til nýtt eigið fé. Nokkur smærri fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota."  

Fjármögnunarleigurnar flokkast að mínu mati sem frekar smá fjármálafyrirtæki.  Þegar þau rúlla munu neytendur ekki fá neinar bætur vegna ofgreiðslna af samningum.

En einnig hvet ég lántaka til að stefna stjórnendum þessara fyrirtækja, þegar þau fara á hausinn og í ekkert verður að sækja bætur vegna atferlis þeirra á undanförnum árum.  Þessa menn verður að stoppa og eina leiðin til þess er að þeir finni það á eigin skinni.


mbl.is Krefst endurgreiðslu vegna gengistryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Kristmundsdóttir

Þetta er hárrétt hjá þér, þessir "leigu" samningar eru bara lán í leigubúningi eins og hæstiréttur orðaði það.

Þú talar um lögfræðiálitin sem þeir eru alltaf að básúna, allavega mundi ég ekki vilja vera bendluð við að hafa gefið þeim lögfræðiálit, væri ég löglærð.

Þessi mál eru svo ógeðfelld að það er hrikalegt, fólk hefur tekið eigið líf út af þessum gengistryggða drasli og svo er þetta ólöglegt !!!  Ég get ekki ýmindað mér að hæstráðendur þessara fyrirtækja líti nokkurn tíma í spegil. 

Reyndar held ég að það séu margir margir íslendingar sem geta ekki horft í spegil, (allavega ef þeir hafa snefil af samvisku). 

Sigurbjörg Kristmundsdóttir, 30.7.2010 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband