#84. Heimsókn á skrifstofu SP-Fjármögnunar 4. febrúar

Föstudaginn 4. febrúar heimsótti ég skrifstofur SP-Fjármögunar hf. vegna skorts á svörum lögfræðings þess við fyrirspurnum mínum.  Ég hef áður lýst viðskiptum mínum við lögfræðinginn þegar hann hótaði að henda mér út af skrifstofum SP og svari hans á gamlársdag við fyrirspurn minni frá 29. október.

Lögfræðingurinn var örugglega eitthvað illa fyrirkallaður þennan dag eins og við fyrri heimsókn.  Jafnvel eitthvað verri ef eitthvað.  Alla vega var þolinmæðisþráðurinn ansi stuttur.  Fyrst þurfti ég að bíða í afgreiðslunni í 15-20 mínútur eftir því að hann kláraði annan fund, sem var ekkert mál af minni hálfu.  Þegar hann loksins kom var hann stuttur í spuna og bauð mér inn í fundarherbergi (ekki inn á skrifstofu sína) og sagðist hafa 2 mínútur aflögu fyrir mig.  Ég innti hann ástæðu þess að svar hans við minni fyrirspurn var ófullkomið og fékk venjulegu ræðuna um vinnuálag, og að hann hefði ekki tíma til að sinna mér því að stærri hagsmunir gengju fyrir.  Ég sagði honum að þetta væru ekki ný sannindi en rýrði þó ekki rétt minn til svara frá fyrirtækinu.  Hann tjáði mér þá að þessi leið mín að koma á skrifstofuna og hóta setuverkfalli, sem ég var þó ekki búinn að hóta í þessari heimsókn, til að knýja á um svör væri ekki sú rétta, heldur ætti ég að senda tölvupósta eða hringja til að reka á eftir svari.  Ég benti honum á að það hefði ég gert ítrekað en eina leiðin sem virkaði væri að koma í eigin persónu eins og hann vissi.  Eftir mjög stutt samtal gekk lögfræðingurinn á dyr án þess að kveðja.  Ég elti hann inn ganginn til að ljúka samtalinu.  Þegar ég spurði hann á ganginum hvað svona framkoma ætti að þýða bauð hann mér inn á skrifstofu sína og sagðist eiga hálfa mínútu aflögu.  Þegar inn var komið var greinilegt að verulega hafði reynt á þolinmæði hans og hann var tilbúinn að hringja á lögregluna til að láta fjarlægja mig.  Á endanum settist hann við tölvuna sína og prentaði út tölvupóst minn hvar ég óskaði svara við þeim atriðum sem hann sleppti í svari sínu á gamlársdag.  Sagðist hann lofa svari í byrjun þar næstu viku, sem er mánudagurinn 14. febrúar.  Við skulum sjá til hvort að ég verð honum ofarlega í huga á Valentínusardaginn eða helgina þar á undan þannig að svar berist eins og lofað var.

Þó ég hafi verið tilbúinn að setjast niður á skrifstofu hans þennan dag og taka því sem að höndum bæri ákvað ég að sleppa því.  Ástæðan var sú að mér var boðið í 40 ára afmæli um kvöldið og nennti ekki að fara standa í einhverju stappi einmitt þennan dag.  Verði dráttur á svari lögfræðingsins fram yfir 14. febrúar má hann hins vegar búast við þaulsetinni heimsókn fljótlega þar á eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband