#92. Álit G.Péturs á skrifum „dvergana sjö“....

G.Pétur Matthíasson skrifar færslu á bloggsíðu sína um skrif sjö lögfræðinga undanfarna daga þar sem hvatt er til höfnunar Icesave laganna.

Í greiningu hans vantar þó aðalatriðið að mínu mati.  Tryggingasjóður innistæðueigenda hefur ekki ríkisábyrgð.  Slíkur sjóður hefur ekki ríkisábyrgð í neinu ESB landi.  Slík ríkisábyrgð er heldur ekki krafa ESB sbr. tilskipanir þess um innistæðutryggingasjóði.  Því spyr ég: Hvers vegna á íslenskur almenningur nú að bera ábyrgð á gjörðum einkabanka? 

Ríkisstjórnin átti aldrei að koma að samningum um endurgreiðslu þessara umframgreiðslna Breta og Hollendinga á innistæðum á Icesave.  Slíkar viðræður áttu að fara fram við stjórn Tryggingasjóð innistæðueigenda því endurgreiðslukrafa Breta og Hollendinga er í raun á Tryggingasjóð innistæðueigenda, ekki ríkissjóð.  Og Tryggingasjóðurinn á bótakröfu á þrotabúa Landsbankans, en ekki ríkissjóð.  Málarekstur Breta og Hollendinga vegna slíkrar bótakröfu á að fara fram fyrir íslenskum dómstólum, ekki erlendum og ekki EFTA dómstól, og þar veltur á sönnunbyrði á vanrækslu Íslands við að koma á fót slíkum tryggingasjóði.  Ég vitna þar til viðtals við ritara EFTA dómstólsins í Silfri Egils sunnudaginn 6.mars.  Ef ESB tekur undir, eða samþykkir, að bótakrafa á ríkissjóð sé réttmæt er hugsanlega verið að gefa út opinn tékka á ríkissjóð heimaríkja allra fjármálastofnana á EES svæðinu sem geta þar af leiðandi hagað sér algjörlega óábyrgt eins og íslensku bankarnir gerðu fyrir hrun, og eru svo sem enn að gera eftir hrun gagnvart neytendum, því reikningurinn vegna innistæðna endi alltaf á ríkissjóði heimaríkisins hvort eð er.  Viljum við það?  Vill ESB það?

Innistæður á íslenskum bankareikningum hafa ekki ríkisábyrgð hvað sem hver segir um neyðarlögin.  Neyðarlögin hafa t.d. ekki enn verið staðfest á Alþingi.

G.Pétur talar um siðferði og vegna þess að eftirlitið var í molum berum við, íslenskur almenningur, okkar ábyrgð á íslenskum banka. Íslenskur almenningur er bara ekki samviska fjárglæframanna og það á ekki að nota ríkissjóð til að bæta misgjörðir þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband