#98. Hjólin af stað.......

Ég renndi stuttlega og frekar hratt yfir áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.  Frekar leiðinlegur lestur en reyndi að pikka aðalatriðin út.  Ég kannski skil ekki vandamálið vegna aflandskrónanna til fulls en hér er mín tillaga: 

Notum erlendar eignir lífeyrissjóðanna til að losa aflandskrónurnar úr hagkerfinu. 

Og hvernig gerum við það?

Erlendir aðilar eiga íslenskar krónur innanlands að upphæð 465 milljarðar.  Þetta eru víst þessar svokölluðu aflandskrónur sem bíða eftir að losna úr hagkerfinu.  Af þeim er ca. 185 milljarðar í reiðufé á bankareikningum.  Seðlabankastjóri segir að fara verði hægt í að hleypa þessum aflandskrónum út úr hagkerfinu.  En er það rétt?

Lífeyrissjóðirnir okkar eiga erlendar eignir að upphæð 473 milljarðar, sjá hér.  Ég sé ekki tilgang í að lífeyrissjóðir hangi á þessu erlendum eignum þegar sjóðseigendur berjast í bökkum innanlands með lánin sín.

Í skýrslu sérfræðingahóps vegna skuldavanda heimila kemur fram að í árslok 2009 námu veðskuldir heimila vegna öflunar húsnæðis um 1.200 milljörðum króna skv. skattframtölum.  Þar sem þessar tölur eru teknar af skattframtölum eru þær væntanlega innheimt kröfuvirði, s.s. óniðurfærðar höfuðstólsskuldir.

Verðtryggð húsnæðislán íslenskra heimila stóðu 1. október 2010 í 1.236 milljörðum skv. skýrslunni.  Alls voru fasteignalán metin á 1.392 milljarða króna, þar af voru lán í eigu bankanna metin á 630 milljarða.  Allir stóru bankarnir þrír fengu verulegar niðurfærslur af lánasöfnum gömlu bankanna, sumir allt að 60-65% af kröfuvirði, aðrir minna.  Gefum okkur að meðaltalsvirðið hafi verið 50%.  Þá ætti virði húsnæðislána í eigu bankanna að reiknast 315 milljarðar, skilji ég skýrsluna rétt.  (Marinó G. Njálsson sagði á bloggi sínu 2009 að nýju bankarnir hefðu greitt 345 milljarða vegna skulda gömlu bankanna, þannig að þetta er nokkuð nærri lagi ef rétt er.)

Í ætluninni um afnám gjaldeyrishaftanna segir að krónueign erlendra aðila, sem nemur um 465 ma.kr., er talin gefa góða vísbendingu um umfang aflandskrónueigna.  Þeim má skipta í þrjá megin eignaflokka:

  • Innstæður í fjármálastofnunum nema u.þ.b. 185 ma.kr.  Nær allar innstæður erlendra aðila í íslenskum fjármálafyrirtækjum eru á reikningum í viðskiptabönkunum þremur, NBI, Íslandsbanka og Arion banka.
  • Innstæður í Seðlabanka nema u.þ.b. 60 ma.kr. Þær tengjast uppgjöri erlendra uppgjörsmiðstöðva á íslenskum verðbréfum.
  • Skuldabréf nema u.þ.b. 220 ma.kr. Þar er einkum um að ræða löng ríkisbréf og ríkisvíxla að andvirði u.þ.b. 190 ma.kr. en íbúðabréf nema u.þ.b. 30 ma.kr.
    • Aðeins u.þ.b. þriðjungur krónueignar erlendra aðila, eða 142 ma.kr., eru í langtímaskuldabréfum.

Krónuinnstæður á Vostro‐reikningum erlendra banka nema um 164 ma.kr.  Þær koma ekki við sögu hér.

Segjum sem svo að andvirði erlendra eigna lífeyrissjóðanna, 473 milljarðar, verði notað til þess að kaupa upp aflandskrónurnar óþreyjufullu og hleypa þeim úr landi.  Þar með eru skuldabréf, jöklabréf, reiðufé og hvað þessar eignir nefnast nú allar, að upphæð 465 milljarðar komnar í eigu innlendra aðila, lífeyrissjóðanna, og þeir eiga 8 milljarða afgangs.  Þessar eignir yrðu svo notaðar til að fjármagna húsnæðislánayfirfærslu frá bönkunum til lífeyrissjóðanna með engum tilkostnaði:

465 - 315=150 milljarðar (+8 milljarðar) eru þá afgangs og við þá er margt hægt að gera!

Lífeyrissjóðirnir myndu svo innheimta þessar eignir frá lántakendum á yfirfærsluverði og færa höfuðstólana niður sem samsvarar bókfærðu virði þeirra, en hanga ekki á kröfuvirðinu eins og hundur á fiskroði.  Þannig fá bankarnir fé til að lána fyrirtækjum og almenningur fær höfuðstól sinn niðurfærðan, og þar með bæði greiðslugetu og greiðsluvilja á ný.  Hjólin færu að snúast aftur.


mbl.is 460 milljarða aflandskrónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband