#132. Fastur við sinn keip....

Enn á ný fer sá mæti maður, formaður Lögmannafélagsins, fram á ritvöllinn um heimildir fjármögnunarfyrirtækja til einhliða vörslusviptinga; í þetta sinn þar sem hann útskýrir ástæðu pistils síns frá síðustu viku um þetta efni.  Aftur bendir hann á ákvæði í samningi, einhliða samið af öðrum aðilanum, þar sem heimild er veitt til vörslusviptingar ef neytandinn stendur ekki við skyldur sínar samkvæmt samningi.  Því megi lánveitandi (stundum nefndur leigusali í samningi) sækja viðkomandi hlut án íhlutunar stjórnvalds.  Viðbót og breyting 5/9 kl 22:45:  Lögmaðurinn minnist í þessu sambandi á samningafrelsið og að um þetta atriði hafi verið samið.  Þetta er því miður rangt hjá lögmanninum að mínu mati því hér er um staðlaða samningsskilmála að ræða sem ekki gefst kostur á að semja um; það er annað hvort að taka þeim eða fara annað með viðskiptin.

Að mínu mati er svona samningsskilmáli því óréttmætur enda gengur hann á lögvarinn rétt neytenda þegar um neytendalán er að ræða.  Ótvírætt er að slíkir samningar eru lánssamningar en ekki leigusamningar sbr. dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á vörslusviptingum, sem framkvæmdar voru vegna ólöglega útblásins höfuðstóls gengistryggðra lána, fyrir uppkvaðningu þessara dóma, þar sem fjármögnunarfyrirtækin óðu um allt land á hvaða tíma sólarhrings sem var, á grundvelli þessa óréttmæta samningsskilmála og hirtu samningshluti án þess að neytendur fengu að taka sína persónulegu muni úr bílnum. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á því hvernig þessi háttsemi fellur að ákvæði 19.gr. laga um fjármálafyritæki, þar sem kveðið er á um að fjármálafyrirtæki stundi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á nauðsyn þess að fjármögnunarfyrirtæki setji í samningsskilmála að lánveitandi, eða þeir sem hann tilnefnir, eigi óskoraðan aðgang að heimili neytandans. 

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins hvers vegna fjármögnunarfyrirtæki er heimilt að innheimta hærri heildarlántökukostnað en samið var um í upphafi, þvert á 2.mgr, 14.gr. laga um neytendalán

Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins hvernig íslensk löggjöf tryggir neytanda þann rétt sem tilgreindur er í 1.mgr. 7.gr. Evróputilskipunar 87/102/EB þar sem segir:

„Þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa skulu aðildarríki kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess.  Þau skulu enn fremur tryggja að þegar lánveitandi tekur vörurnar aftur til sinnar eignar, séu reikningar aðila gerðir upp á þann hátt að endurheimting eignar hafi ekki í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun."

Þar með væri fróðlegt að fá álit lögmannsins á hvernig það er ekki ólögmæt auðgun fjármögnunarfyrirtækisins þegar það einhliða lækkar matsverð bifreiðar um 15% við riftun samnings (NB: samkvæmt skilyrðum einhliða samins samningsákvæðis) til að mæta föstum áætluðum kostnaði, en þarf aldrei að sýna fram á hver sá kostnaður er, en nefnd 15% bætast þar með við skuld neytandans því söluverð bifreiðarinnar hefur þar með lækkað um 15%.  Það er ansi mikill munur á 15% af bifreið sem er 2 milljóna virði eða annari sem er 5 milljóna virði, þó má áætla að kostnaður sé svipaður við báðar bifreiðar.  Eftirstöðvarnar bólgna því áfram út en neytandinn er að sjálfsögðu krafinn um greiðslu fullra eftirstöðva, þ.m.t. framangreindra 15% fastra affalla en fær ekki að njóta andlagsins.  Hann þarf sem sagt að borga hvort sem hann getur eða ekki, hvort sem hann nýtur andlagsins eða ekki, og þar að auki þarf hann að borga meira ef samningi er rift heldur en ef hann strögglar áfram.  Fróðlegt væri að vita álit lögmannsins á því hvers vegna fjármögnunarfyrirtæki er heimilt að halda innheimtu samnings áfram, eftir að andlag hans hefur verið einhliða tekið af neytanda vegna meintra vanskila.

Hægt væri að nefna fleiri atriði en læt þetta gott heita að sinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband