#145. Þó fyrr hefði verið?

Eftir rúmlega 20 ára veru standa þeir bræður Kjartan Georg og Pétur Gunnarssynir upp úr stólum sínum hjá SP-Fjármögnun hf.  Ja...farið hefur fé betra þó fyrr hefði verið segi ég nú bara. 

Kjartan Georg hefur stýrt starfsemi SP-Fjármögnunar frá upphafi.  Hann tók þátt í að byggja upp félagið frá stofnun þess 1995, og lék því lykilhlutverk þegar fyrirtækið hóf að bjóða lán með ólöglegum gengistryggingarskilmálum; samninga sem ég tel í raun vera fjársvik.  Kjartan gerði samning við stjórn SP-Fjármögnunar hf. um árangurstengdan hlut í ágóða í starfsemi fyrirtækisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum yfir tiltekið tímabil.  Samanber upplýsingar úr ársreikningum félagsins stóðu þessar bónusagreiðslur yfir á árunum 2005-2009.  Áætla ég þessar greiðslur um 63 milljónir króna.  Þar er innifalin greiðsla fyrir árið 2008, þegar SP var í raun gjaldþrota, sem ég áætla upp á liðlega 20 milljónir króna sé tekið mið af árstekjum framkvæmdastjórans árin á undan.  Hann hafði því ríka ástæðu til að halda svikamyllu gengistryggðra lána gangandi og tryggja sér fjárhagslegan ávinning af innheimtu slíkra lána.

Þar sem ársreikningi fyrir árið 2010 hefur ekki verið skilað er ekki hægt að skoða hvort greiddar voru bónusagreiðslur fyrir það ár.

Kjartan Georg hefur náð að komast undan sjónvarpsviðtölum allan þann tíma sem umræða um ólögmæti gengistryggðra lánasamninga félagsins stóð.  Hann hefur aldrei þurft að standa fyrir svörum frammi fyrir alþjóð hvers vegna stunduð var ólögleg starfsemi í starfrækslu félagsins, sem hann bar þó ábyrgð á.

Við breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2002 bar fjármálafyrirtækjum að tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsheimildir fyrirtækið nýtti við gildistöku laganna.  Var þeim óheimilt að stunda eða hefja aðra starfsemi en þar var tiltekin án leyfis FME.  Fjármálaeftirlitið útbjó sérstök eyðublöð sem nota átti við slíkar tilkynningar.  Á árabilinu 2003-2006 sendi SP 5 tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins um hvaða starfsheimildir væru nýttar.  Undir tilkynningarnar ritar bróðir Kjartans, Pétur Gunnarsson, fyrir hönd SP.  Á engum þessara tilkynninga kemur fram að fyrirtækið stundi viðskipti með erlendan gjaldeyri.  Engu að síður kemur fram í ársreikningum sömu ára að hluti starfseminnar er reiknaður í erlendri mynt. 

Það er hvoru tveggja refsivert, að stunda leyfisskylda starfsemi án starfsleyfis, eða gefa stjórnvaldi upp rangar upplýsingar.  Ég læt lesendur sjálfa um að dæma hvort Pétur Gunnarsson og SP, undir stjórn Kjartans Georgs, hafi framið refsivert athæfi vegna þessara tilkynninga.

Ég sendi Fjármálaeftirlitinu ítarlegt bréf á vordögum 2010 þar sem ég vakti athygli á meintu broti á starfsleyfi SP vegna meintra gjaldeyrisviðskipta, en FME sinnti þessari tilkynningu lítið þrátt fyrir eftirgang af minni hálfu.  Umboðsmaður Alþingis metur nú hvort FME hafi staðið rétt að svörum til mín vegna þessa bréfs.

Það vekur athygli þegar 3 menn, sem stýrt hafa umdeildu fjármálafyrirtæki, hætta á sama tíma.  Ekki síður vekur það athygli mína að Landsbankinn sér ekki ástæðu til, þegar tilkynnt er um starfslok þeirra, að þakka þessum 3 mönnum, Kjartani Georg, Pétri bróður hans, og Herberti Arnarsyni, opinberlega fyrir vel unnin störf.  Í tilfelli Kjartans er það kannski skiljanlegt, enda erfitt að mæra störf manns sem stýrði fyrirtækinu í þrot, og skuldum upp á 36 milljarða var á vordögum 2009 breytt í hlutafé til að halda félaginu gangandi.


mbl.is Hættir hjá Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband