#152. Fyrrverandi forsvarsmenn SP-Fjármögnunar hf. kærðir til sérstaks saksóknara!

2. desember sl. afhenti ég sérstökum saksóknara kæru á 17 nafngreinda forsvarsmenn SP-Fjármögnunar hf. frá 2007, fyrir hlutdeild í fjársvikum (248.gr.), umboðssvikum (249.gr), fjárdrætti (247.gr.) og tilraun til fjárdráttar, við umsýslu gengistryggðs lánasamnings, en við þessum brotum liggur allt að 6 ára fangelsi.  Einnig kærði ég fyrir brot gegn 156. og 158.gr. almennra hegningarlaga, þ.e. fyrir blekkingu í lögskiptum (allt að 8 ára fangelsi) og að nota skjal með ófalsaðri undirritun í öðrum tilgangi en það var ætlað til (allt að 3 ára fangelsi).  Til vara kærði ég fyrir brot gegn 261.gr. sem getur varðað fangelsi allt að 1 ári.

Þá kærði ég valda aðila fyrir að uppfylla ekki skyldur sínar sbr. lög um hlutafélög (68. og 76.gr.), þ.e. fyrir að hafa ekki uppfyllt eftirlitsskyldur sínar með starfsemi félagsins og að hafa framfylgt ólöglegum ákvörðunum stjórnaraðila. 

Tveir starfsmenn voru kærðir fyrir brot gegn 264.gr.alm.hegningarlaga fyrir að tryggja ávinning af ólögmætu athæfi með framferði sínu í starfi.

Með þessari leið vil ég reyna að fá á hreint hvaða ábyrgð stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, og reyndar fleiri starfsmenn, bera þegar viðhöfð eru ólögmæt athæfi í viðskiptum eftirlitsskyldra aðila við almenning.  Og sérstaklega þegar hægt er að sýna fram á að fulltrúum eftirlitsskylda aðilans hafi verið bent á hina ólögmætu gjörninga.  Þeir fengu jú greitt fyrir að bera ábyrgð á starfsemi fyrirtækisins og sjá til þess að hún væri lögum samkvæmt á hverjum tíma. 

Kæran var með rökstuðningi alls 26 blaðsíður, og að auki rúmlega 130 blaðsíður af fylgigögnum, alls 170 blaðsíður af gögnum.   Ég hafði unnið að henni frá því í byrjun þessa árs með hléum.  Kæruna vann ég einn, og án allrar aðstoðar lögfræðings, sem skýrir að nokkru langan vinnslutíma hennar.  Allar ályktanir í henni eru því mínar sem leikmanns. 

Ég bíð nú einungis eftir að sérstakur saksóknari láti mig vita um afstöðu sína til kærunnar og þá kemur væntanlega í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér í kæruatriðum mínum, þ.e. hvort formleg ákæra verður gefin út í málinu.  Sú bið mun líklega taka nokkrar vikur eða mánuði, enda er álagið mikið á þeim bænum.  Þá býst ég við að þurfa mæta til skýrslutöku hjá sérstökum hvort sem úr ákæru verður eða ekki.

Fólk sem hefur greitt umfram upphaflegan heildarlántökukostnaði hefur, að mínu mati, orðið fórnarlamb fjárdráttar og á að kæra slíkt framferði til sérstaks saksóknara.  Kæra á forsvarsmenn lánastofnunar frá þeim tíma sem upphaflegum heildarlántökukostnaði er náð til þess dags sem uppgjör er gefið út, eða til dagsins í dag standi greiðslur enn yfir, fyrir fjárdrátt. 

Að sama skapi var gerð gengistryggðs lánasamnings að mínu mati fjársvik.  Kæra á alla forsvarsmenn lánastofnunar frá þeim degi sem samningur var gerður til þess dags sem honum lýkur sé honum yfir höfuð lokið, fyrir fjársvik.

Það er ekkert gamanmál að fara þessa leið en ég er fyrir löngu orðinn úrkula vonar um að á þessu málum verði tekið að frumkvæði yfirvalda, hver sem þau eru.  Ég hvet fleiri til að íhuga slíkar kærur og bendi áhugasömum á að kynna sér m.a. eftirfarandi B.A. ritgerðir háskólanema á vef skemmunar, www.skemman.is:

En fólk verður að gera sér grein fyrir því, að það verður sjálft að sækja rétt sinn!  Enginn mun gera slíkt fyrir það!


mbl.is Vinnuvélar streyma úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lang flottastur!

Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 11:19

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Takk Arnór. Það vantar bara að fleiri fari í sams konar vegferð og kæri fólkið sem stýrir fjármálafyrirtækjunum. Það ber ábyrgðina á þessum gjörningum og þeirra er skömmin.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 12:27

3 identicon

Það lyggur fyrir í skjölum með frumvarpi til Laga um vexti og vertryggingu, Lög 38/2001 að Samtök fjármálafyrirtækja,vildu ná fram, breytingu á 13.-14.gr.á þann hátt að heimilt yrði að gengistryggja lán sem veitt voru í Íslenskum krónum, en varð ekki að ósk sinni, þannig að samtökum fjármálafyrirtækja, var full kunnugt um allt frá árinu 2001 að gengistrygging íslenskra krónulána væri ólögleg,og ef þetta er ekki saknæmt, þá veit ég ekki hvað er saknæmt, og öðrum nefndarmönnum var sömuleiðis fullkunnugt um ólögmæti þessara lána, þar á meðal Seðlabanka Íslands sem átti nefndarmenn í þessari nefnd,og stýrðu nefndarstarfinu.

Og spurningin er því hvort ekki ætti að lögsækja Seðlabnkann og samtök fjármálafyrirtækja,fyrir aðild sína að þessum ólögmætu lánum sem eru búin að leggja allt í rúst bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum.

Síðan ættu menn að kynna sér rán um hábjartan dag.

Raunveruleiki með réttri verðtryggingu.

gudbjornj.blog.is

Halldór Björn (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 14:46

4 identicon

Flott hjá þér.

Persónulega finnst mér alltaf 253 gr nr. 19 vanmetin í þessum málum en þú greinilega tiltekur fleiri en eina grein og rökstyður. Okkar mjög svo sérstaki ætti að draga lærdóm af því.

Því fleiri sem fara sömu leið og þú því auðsýnna er fyrir dómsstóla hvernig lögin eru metin og túlkuð í þjóðfélaginu. Því meiri viðbrögð verða ef ekki er dæmt samkvæmt réttarvitund þjóðarinnar.

Viðbragðaleysið vegna sýknudóms héraðsdóms varðandi sönnunarbyrði o.s.f. sýndu hversu illa stödd við erum.

Vandamálið er og var að framkvæmdarvaldið hefur alltaf haft ansi sérstæða túlkun varðandi svona mál og ábyrgð stjórnanda og sú hliðraða sýn hefur valdið því að dómsstólar taka bara afstöðu til valdra greina sem stefnt er eftir ... sem veldur því að Alþingi hefur setið á rassinum í stað þess að brýna kutann.

Nú silagangurinn og vísvitandi seinagangur hefur teygt málartilbúnað í áraraðir eftir áraraða hunsun á fyrirtekt og síðan fer árarraða málsmeðferð.

Við vitum öll hvert þetta stefnir og sú staðreynd að "sérstakur" hefur ekki hafið rannsókn á öllum þeim málum sem snertu hrunið eða fyrir hrun er bara staðfesting á því að þau skal svæfa.

Svo ... flott framtak hjá þér ... vonandi sem flestir sem gera þetta . Því það er grátlegt að sjá að einu tiltektirnar og viðbrögðin virðast komin af völdum athafna einstaklinga .... ekki framkvæmdarvaldsins.

Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 14:58

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þakka innlitið Halldór Björn. Þessi greinargerð SFF (sem hét þá SBV) frá 2001 var hluti af fylgigögnunum með kærunni. Í ársskýrslu SBV frá 2002, fyrir starfsárið 2001-2002, kemur fram að SBV áttu fulltrúa í nefndinni sem vann að breytingu á vaxtalögum og eitt aðalmálið sem SBV lagið áherslu á starfinu var að ná fram frelsi í dráttarvöxtum. SBV starfrækti (og gerir enn)lagahóp sem var skipaður yfirlögfræðingum aðildarfyrirtækjanna og var starfi hópsins stýrt af framkvæmdastjóra SBV, Guðjóni Rúnarssyni (sem situr enn sem frkv.stj. SFF). Það er því dagljóst að forsvarsmönnum aðildarfyrirtækjanna mátti vera ljóst að gengistrygging lána var ólögmæt. Og það er enginn afsökun gegn glæp að reyna halda því fram að hafa ekki vitað betur. Lögin voru mjög skýr um þetta atriði.

Á þetta er ég að láta reyna.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 15:08

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Alveg rétt hjá þér Hlynur.  253.gr. kom sannarlega til greina  en ég ákvað að byggja ekki á henni.  Raunar ætti sérstakur saksóknari að meta hvaða lagagreinar ættu við og alls ekki einskorða sig við að meta málið út frá þeim sem ég nefni.

Ég bendi einnig á ábyrgð lægra settra starfsmanna, s.s. innheimtustjóra, vegna 264.gr., sem ég nefndi í kærunni:   

"Hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögum þessum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skal sæta fangelsi allt að 6 árum."

Sumir framkvæmdastjórar fengu ávinning af "góðri" afkomu félagsins sem þeir voru í forsvari fyrir.  Framkvæmdastjóri SP var einn þeirra sem fengu slíkan bónus, oftar en einu sinni, alls ca. 60-70 milljónir króna.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 15:23

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Glæsilegt Erlingur.

Nú þarf Óli spes að passa sig að brjóta ekki almenn hegningarlög:

130. gr. Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.
Hafi verknaðurinn haft eða verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann, þá skal refsingin vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.12.2011 kl. 16:40

8 identicon

Frábært framtak hjá þér Erlingur.

Ég veit að sá sérstaki er búinn að fá nokkrar ábendingar um mögulega saknæmt atferli í tengslum við gengistryggða lánastarfsemi.  Ég vona að hann nái með þau mál á kærustig áður en langt um líður en það er ekki gott að segja hvar þau mál standa eða þá hvort að hann er yfir höfuð að skoða þetta. Hugsanlega eru vel unnar ákærur eins og þú hefur lagt fram líklegri til árangurs en ábendingar.

Það sem mig hefur alltaf langað að vita er hvort eftirlitsaðilar hafi allan tímann vitað af ólögmæti gengistryggingar en hafi séð í gegnum fingur sér með þetta athæfi vegna þess að þetta var talin vera hluti af lausn á vanda bankanna. Tregða stjórnvalda eftir hrun við að rannsaka þetta bendir til þess að menn þar á bæ hafi eitthvað að fela.

Ég vona að við fáum ný stjórnvöld fljótlega og að þeirra fyrsta verk verði að birta samningana um enddurreisn nýju bankana og fundargerðir af fundum stjórnvalda, Deutsche Bank og Icesave kröfuhafa frá í febrúar eða mars 2009.  Ég held að í þessum gögnum geti legið svör við mörgum spurningum.

Seiken (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 16:59

9 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þakka Guðmundur.  Við skulum vona að Ólafur og hans standi sig betur en FME Gunnars Andersen.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 17:55

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þakka þér líka Seiken. 

Ég talaði við fulltrúa hjá Sérstökum saksóknara í sumar og sú sagði mér að því meiri upplýsingar sem bærust því betra væri fyrir þau að skoða málið.  Þá var ég reyndar búinn að rita kæruna að mestu en vantaði að útfæra nokkur atriði svo ég væri sáttur við. 

Ég er nokkuð viss að eftirlitsaðilar vissu að þessi lán voru ólögleg, spurningin er hvers vegna ekki var tekið á þeim.  Of oft er fólk tilbúið að láta lögfræðina lönd og leið ef hagnaðarvonin er til staðar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 18:00

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Seiken, það þarf að fara fram rannsókn á reglum Seðlabanka Íslands um reikningsskil fjármálafyrirtækja, sem kveða á um:

  • Bókfærslu krónulána sem gjaldeyriseigna (gjaldeyrisfölsun)
  • Tvífærslu verðbóta, fyrst sem eignir og svo sem tekjur (bókhaldssvik)

Ég hef lengi haldið því fram að það fyrrnefnda sé stærsti glæpurinn á bak við íslenska flugeldahagkerfið. Þá kenningu hefur enginn reynt að hrekja.

Seinna atriðið samræmist þeim ummælum annars bankastjóra KB Banka fyrir hrun, að verðtryggingin væri besta tekjulind íslenskra banka. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að verðtryggingin felur í raun í sér bókhaldssvik?

Með því að veita falskar upplýsingar um raunverulega afkomu sína og stöðu voru bankarnir allir brotlegir við lög um fjármálafyrirtæki, verðbréfaviðskipti og marga fleiri lagabálka sem gerir að verkum að nánast allur rekstur þeirra hefur verið ólöglegur, alltaf og óslitið frá einkavæðingu og jafnvel lengur til dagsins í dag og heldur áfram! Nýju bankarnir eru grófari í þessu ef eitthvað er og eru þess vegna jafn ólöglegir og jafn gjaldþrota og þeir gömlu í raun og veru.

Það er ekki um neina endurreisn að ræða í fjármálakerfi Íslands. Það er einungis falsmynd sem er haldið uppi með ólögmætinu einu saman, svo grófu að það jafngildir aðför að heilbrigðri skynsemi og góðu siðferði.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.12.2011 kl. 18:21

12 identicon

Ef ég man rétt þá fékk Gylfi álit Seðlabankans, um að hugsanlega væru þessi lán ólögleg, en álitið fór víst ofan í skúffu hjá viðskiptaráðuneytinu, og Gylfi þóttist ekkert vita af þessu áliti Seðlabankans.

Það væri fróðlegt að vita hvað mikið af þessum ólöglegu lánum fóru út á markaðinn eftir þetta álit Seðlabankanns, því ef það hefur verið umtalsvert, þá eru Viðskiptaráðuneytið og Seðlabankinn í slæmum málum.

Það var víst lögmannstofan Lex sem vann þetta álit fyrir Seðlabankann, og álitið var, að þessi lán voru talin

ótvírætt ólögleg. Þá er bara spurningin hvað fór mikið út af þessum lánum, eftir þetta álit frá Lex lögmönnum.

Jón Sig. (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 19:57

13 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Svo segir í lögum um hlutafélög:

..........

68. gr. Félagsstjórn fer með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn félagsins.
 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
 Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
 Einungis félagsstjórn getur veitt prókúruumboð.

.........

76. gr. Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem …1) eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.
 Félagsstjórn og framkvæmdastjóri mega ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.

[Leturbreytingar og áherslur eru mínar.]

Var samningur við framkvæmdastjóra um ágóðahlut af afkomu félagsins í samræmi við ákvæði 1.mgr. 76.gr.?

Ég vil fá að vita hver bar ábyrgð á að halda gengistryggðum lánum gangandi þegar ljóst var að þau brutu í bága við lög.  Fór virkilega engin umræða fram í stjórnum félaganna um þetta atriði og vildi enginn stjórnarmanna gæta hófs í innheimtu lánanna?  Braut slíkt framferði ekki gegn 3.mgr. 76.gr.?

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.12.2011 kl. 20:13

14 identicon

Það eru lögfræðisvið Bankanna sem áttu að sjá til þess, að farið væri eftir lögum, í umboði bankastjórnar,þannig að yfirlögfræðingur ber mikla ábyrð, ef ekki er farið eftir lögum.

Eftir að þetta álit barst frá Lex lögmönnum, um að þessi lán væru ótvírætt ólögleg,bar bæði Seðlabanka og Viðskiptaráðuneytinu að gera eithvað í málinu,t.d. að biðja um flýtimeðferð fyrir Hæstarétti til að komast að hinu sanna.Spurningin er hvað fór mikið út af þessum lánum eftir álitið frá Lex lögmönnum.

Gengistryggt lán Sjómannafélagsdins og Arion banka átti að fara fyrir Hæstarétt 5.des en því var á síðustu stundu kipt út úr Hæstarétti, og engin veit af hverju.

Gengistrygt lán mál 62/2011 sem fór fyrir Hæstarétt í síðustu viku, því var að því er virðist, hafa verið klúðrarð af Íslandsbanka af ásettu ráði, til að niðurstaða fengist ekki, þannig að það virðast einhverjir vera ornir hræddir.

Jón Sig. (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 20:57

15 identicon

Jón Sig.  Síðan hvenær er þetta álit Lex? Var það ekki gefið út í tíð Gylfa í viðskiptaráðuneytinu, ég meina eftir að bankarnir voru löngu hættir að veita þessi lán?

Seiken (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 21:08

16 identicon

Seiken.

Held að ég fari rétt með, að það var í tíð Gylfa í Viðskiparáðuneytinu,það er það sem ég veit ekki hvenær bankarnir hættu að veita þessi lán, en eitt er alveg víst að þegar Gylfi fékk þetta álit í hendur, átti hann að óska eftir flytimeðferð fyrir Hæstarétti fyrir svona lán, þá væri fyrir löngu komin niðurstaða, og margir þeirra sem eru búnir að missa fyrirtæki sín, og heimili, væru í altannari og betri stöðu ídag.

Því en í dag er algjör óvissa í þessu málum.

Ég er þeirrar skoðunar að Árni Páll eigi eftir að fá afturvirku lögin sín í hausin aftur,því greidd krafa er dauð krafa,og ekkert sem getur breytt því nema um saknæmt athæfi er að ræða, ef ekki, má afnema lög nr.7/1936 lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Jón Sig. (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 21:43

17 identicon

Ok. skil þig Jón Sig.

Ég hef haldið tveimur kenningum á lofti varðandi þennan þykistuleik Gylfa en það er varla nokkur maður fyrir utan stöku sauð í Undralandi, sem trúir því að Gylfi hafi ekki vitað allt um stöðuna á þessum lánum þegar hann var að vefja sig inn í slímugan vefinn, er hann svaraði fyrirspurn Ragnheiðar Ríkarðs um lögmæti lánanna í þinginu.

A) Stjórnvöld voru allan tímann meðvituð um að lánin væru ólögleg enda hluti af "björgunnarplani" yfirvalda að skipta sér ekki af þessari lánastarfsemi.  Ef Gunnar Tómasson hefur rétt fyrir sér þá var með gengistryggingunni verið að búa til pseudo gjaldeyri í íslenska fjármálakerfinu upp á 2300 milljarða. Gylfi hefur hugsanlega séð fram á að íslensk stjórnvöld hefðu sokkið upp að hálsi í skaðabótakröfum ef þau hefðu viðurkennt opinberlega að hafa verið meðvituð um og horft framhjá ólöglegri lánastarfsemi, sem var til þess fallin að valda lánveitendum bankanna skaða.

B) Nýji Landsbankinn gaf út 250-300 milljarða skuldabréf til gamla bankans (þrotabúsins) í erlendum myntum.  Bréfið er greiðsla fyrir yfirtöku á lánasöfnum en það er erfitt að sjá fyrir sér að nýji bankinn hafi tekið yfir raunveruleg erlend lánasöfn upp á slíkar upphæðir. Ég held að eina leiðin til þess að halda því fram sé að telja ólögleg gengistryggð lán verandi eign í erlendri mynt. Fyrir mér lítur þetta út sem gjafagerningur til Icesave kröfuhafanna sem áttu með réttu að fá þessa upphæð í íslenskum krónum úr þrotabúinu en ekki í gjaldeyri.

Þessar kenningar geta auðvitað verið rangar en ég á bágt með að trúa því að það hafi verið tilviljun að gengsitryggð lán voru allt í einu boðin almenningi af rænulausri áfergju árið 2006 og fram að hruni.  Árið 2006 magnast þessi lánastarfsemi um allan helming en það er sama árið og erlendir aðilar byrjað að efast um að allt sé með felldu í íslenskum bönkum smbr. gangrýni Lars Christensen hjá Danske Bank um starfsemi þeirra. 

Seiken (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 22:34

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

A) Er kenning sem ég hef haldið á lofti lengi og víða, en enginn einasti maður hefur gert tilraun til að hrekja. Þegar enginn reynir að hrekja kenningu koma tvær skýringar til greina: kenningin er rökrétt og skýr, eða þá að hún er svo fjarstæðukennd að fólk hunsar hana, svona eins og sögur um geimverur, og ég þið og Gunnar Tómasson og fullt af öðru vel gefnu fólki væri þá úti á túni.

B) Er eitthvað sem þarf að rannsaka. Samkvæmt fréttaflutningi af NBI bréfinu sem stendur núna í rúmum 300 milljörðum, þá er um að ræða myntkörfulán. Nú er ekkert sem bannar banka að gera slíkan afleiðusamning við annan banka þar sem báðir eru fagfjárfestar. En þar sem það liggur fyrir að NBI á engar erlendar eignir þá væri athugunarvert hvort gjaldeyrisjöfnuður hans er ekki í raun réttri langt undir þeim mörkum sem þarf svo hann teljist gjaldfær. Ég meina þetta er um þriðjungur af efnahagsreikningi bankans, og það liggja fyrir fréttir um að hann á ekki svo mikinn gjaldeyri. Ég skil í rauninni ekki hvernig íslensk stjórnvöld ætla að verða sér úti um allan þann gjaldeyri sem þau hafa með einum og öðrum hætti lofað útlendum aðilum.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.12.2011 kl. 23:46

19 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég tel það öruggt að eftir 6.október 2008 hafi ekkert gengistryggt lán verið veitt.

Bendi á að SP hóf fyrst að veita gengistryggð lán 1998 með myntkörfunni SP1.  Pétur Gunnarsson fjármálastjóri, bróðir Kjartans framkvæmdastjóra, sendi 5 tilkynningar til FME á árunum 2003-2006 þar sem hann sagði fyrirtækið ekki stunda viðskipti með erlendan gjaldeyri fyrir eigin reikning eða viðskiptamenn sína.  Það merkilega við þetta er að þessar tilkynningar voru sendar FME, á þar til gerðu eyðublaði útgefnu af FME, til að uppfylla bráðabrigðaákvæði I. í lögum nr. 161/2002, lög um fjármálafyrirtæki.  Starfsheimildir fjármálafyrirtækis átti síðan að takmarka við þá starfsemi sem tilgreint var að fyrirtækið stundaði við gildistöku fyrrgreindra laga.  Engu að síður eru allir ársreikningar SP fyrir sama tímabil stútfullir af upplýsingum um viðskipti í erlendri mynt, jafnt útlán sem lántöku.  En samt gerði FME Jónasar Jónssonar enga athugasemd! 

Ég benti FME á þessa staðreynd með bréfi í fyrravor en fékk litlar undirtektir og enga útskýringu hvers vegna á þessu hafi staðið.  Einn lögfræðingur FME fullyrti við mig að félagið mætti kaupa og selja gjaldeyri eins og hvað annað fyrirtæki, t.d. útgerðarfyrirtæki.  Ég benti hinum sama snarlega á að um útgerðafyrirtæki giltu ekki lög um fjármálafyrirtæki og þessi samlíking væri ekki við hæfi.  Þá taldi hann að fyrirtækið hefði hugsanlega geta nýtt starfsleyfi móðurfyrirtækis fyrir þessa gjörninga.  Ég spurði þá hvers vegna SP þyrfti sér starfsleyfi ef það væri að nota starfsleyfi móðurfyrirtækis þegar það hentaði.  Það varð fátt um svör.  Ég fékk loks svar frá FME eftir að hafa sent bréf á stjórn þess þar sem ég kvartaði yfir að fá ekki svör.  Svarið var efnislega stutt: 

"Við nánari skoðun Fjármálaeftirlitsins á ábendingu yðar, sem vísað er til hér að framan, þótti ekki tilefni til þess að aðhafast frekar á grundvelli hennar."

Þessi meðferð FME hefur nú verið til rannsóknar hjá Umboðsmanni Alþingis síðan um miðjan september, en starfsmaður hans sagði mér sl. mánudag að þau væru ekki búinn að taka afstöðu til hvernig þau tækju á málinu.  Venjulega er sent bréf til viðkomandi stofnunar innan 4-6 vikna þar sem skýringa er óskað.  Veit ekki hvort þessi langi tími segir eitthvað til um efni málsins eða mikla verkefnastöðu UA.

Ég læt ykkur eftir pælingarnar um NBI og gjaldeyrisstöðu hans en hendi í staðinn hér inn nokkrum tölum um útlánaþróun SP frá 2002:

ÁrAlls virði útlána í krónum
20028.642.725.112
200310.621.429.401
200414.231.653.000
200521.822.288.000
200637.118.315.000
200747.682.860.000
200858.206.832.000
200944.394.592.000
2010Ársr. var skilað 2/11/11

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.12.2011 kl. 00:20

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hefurðu fengið eintök af nýjustu ársreikningunum?

Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2011 kl. 00:31

21 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Nei, ég sá bara í gærkvöldi að þeim hafði verið skilað 2. nóvember, nokkrum dögum áður en Kjartan og félagar hættu (voru reknir?).  Ég efast um að það sé tilviljun. 

Ég hef sent RSK beiðni um að fá afrit af ársreikningnum í PDF.

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.12.2011 kl. 10:37

22 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það væri gaman að fá afrit þegar það berst þér.

Hugheilar baráttukveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2011 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband