#159. Efnahags- og viðskiptanefnd bætir fyrir 20 ára gamalt klúður.

Árið 1992 var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um neytendalán.  Frumvarpið hafði þann tilgang að fullnægja skilyrðum EB-tilskipana nr. 87/102 EBE og nr. 90/88 EBE með íslenskri löggjöf.  Við undirbúning frumvarpsins var nokkuð litið til danskra og sænskra frumvarpa um lánssamninga. Meginatriði í tilskipun nr. 87/102 EBE er að neytandinn fái upplýsingar um lántökukostnað í prósentum samkvæmt árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Þó er tilgreint í 7. gr. tilskipunarinnar að:

Þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa skulu aðildarríki kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess."

Til að uppfylla ofangreint atriði var í frumvarpinu að finna eftirfarandi texta í VII. kafla frumvarpsins, nánar í 23.gr.:

„Lánveitandi getur endurheimt hlut á grundvelli kaupsamnings með atbeina sýslumanns ef kaupsamningurinn uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1 . Kaupsamningurinn skal vera undirritaður af lántakanda og honum hefur verið afhent eintak af samningnum.

2 . Kaupsamningurinn verður að kveða á um eignarréttarfyrirvara. Þrátt fyrir samþykki lántakanda er ekki heimilt að endurheimta hlut ef hann er undanþeginn aðför að lögum."

Í umsögn með frumvarpinu sagði um VII. kafla:

Með ákvæðum í þessum kafla er verið að fullnægja 7. gr. framangreindrar tilskipunarþ.e. 87/102/EBE. Samkvæmt henni verður að kveða á um skilyrði fyrir endurheimt eignarréttar. Einnig verður að tryggja samkvæmt tilskipuninni að endurheimt hafi eigi í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun.

Og í nefndri 23 gr. sagði:

Í greininni koma fram skilyrði fyrir að endurheimta hluti. Skal það gert með atbeina sýslumanns. Skilyrði eru tilgreind í 1. og 2. tölul. og skýra sig sjálf.

Í meðförum nefndarinnar voru nokkrar greinar felldar út og var ofangreindri 23.gr. breytt verulega, t.a.m. var talið óþarft að tilgreina sérstakar aðfararreglur, þ.e. að atbeina sýslumanns þyrfti við endurheimt eignarréttar. Var það gert að tillögu Verslunarráðs Íslands sem sendi inn umsögn um frumvarpið. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar á þeim tíma  var Vilhjálmur Egilsson, en hann var þá einnig framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, og sat því í raun beggja megin borðsins. Umsögnin var hinsvegar undirrituð af lögfræðingi hjá Verslunarráði, Jónasi Fr. Jónssyni, sem síðar varð forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fyrrgreind 23.gr. varð sem sagt að 19.gr. laganna og stendur enn í dag þegar þetta er skrifað á þann hátt sem henni var breytt í meðförum 116. löggjafarþings.  Það skal tekið fram að í upphaflegri umsögn frumvarpsins frá 1992 kom skýrt fram að það taki jafnt til lánssamninga sem einstaklingur gerir og lögaðili.  Skilgreiningin „neytandi" átti þá jafnt við um lögaðila sem einstaklinga, og einnig hópa slíkra aðila.  Þessi skilgreining var svo þrengd í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar og átti þá einungis við um einstaklinga.

Lög um neytendalán urðu svo að lögum 1. október 1993, en voru endurútgefin innan við ári síðar.

Í lok mars sl. mælti efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrir nýjum lögum um neytendalán, sem fylgja ákvæðum tilskipunar nr. 2008/48/EB að mestu leyti.  Því miður er ekki tekið á hvernig haga eigi endurheimt eignarréttar í þessu frumvarpi. (Þess má geta að þessi sami maður sat í efnahags- og viðskiptanefnd árið 1993 og átti þátt í því að breyta upphaflega frumvarpinu sem að ofan hefur verið greint.)  Það vekur m.a. áhyggjur mínar að skilgreining á eignarréttarfyrirvara á að vera óbreytt í nýjum lögum, þ.e.: „Eignarréttarfyrirvari: Þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum."  Eðlilegt væri að breyta „lánveitandi" í „seljandi" og undanskilja þannig rétt fjármögnunarfyrirtækja til að vera eigendur tækja sem neytendur velja frá þriðja aðila og fjármögnunarfyrirtæki koma eingöngu að fjármögnunarhliðinni.  Þar með væri lokað á vörslusviptingarrétt fyrirtækjanna strax í neytendalánalögum.

En nú stendur sem sagt til að breyta innheimtulögum í staðinn til að lagfæra klúður efnahags- og viðskiptanefndar frá árinu 1993, sem kostað hefur margan neytandann bifreiðar, mótorhjól og ferðahýsi sín, sem „tekin voru að leigu skv. kaupleigusamningum," en síðan vörslusvipt einhliða af fjármögnunarfyrirtækjum sem voru skráðir eigendur viðkomandi hluta, þó skýrt hafi verið kveðið á í samningum að neytandi ætti að greiða lokagreiðslu í lok samnings og mundi við það eignast tækið.  Neytandinn gat ekki skorast undan slíkri greiðslu og var miskunnarlaust innheimtur gjaldfallinn lántökukostnaður þó neytandi fengi ekki á sama tíma notið andlagsins á móti.  Að mínu mati var slík innheimta ótilhlýðileg auðgun og brot gegn ákvæðum tilskipunarinnar um að við endurheimt eignarréttar mætti ekki eiga sér stað ótilhlýðileg auðgun.

Þó virðingarvert sé að Alþingi bregðist við þessari stöðu sem uppi hefur verðið varðandi vörslusviptingar og setji í lög ákvæði sem koma eiga í veg fyrir endurheimt eignarréttar án samþykkis neytandans, er það gagnslaus ráðstöfun ef ákvæðum laganna er ekki fylgt eftir af eftirlitsaðilum. Ég hef því miður séð of mörg dæmi þess að eftirlitsaðilar virða ákvæði laga að vettugi og neyði neytandann til að taka órétti fyrir dómstóla á eigin kostnað.  Þá er ákveðið áhyggjuefni hvernig lögaðilar eru undanskildir rétti í lögum um neytandalán, en þó má líklega segja að breyting á innheimtulögum loki fyrir það misræmi.


mbl.is Ekki vörslusvipt gegn mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband