#191. Lýsing hf. ætlar ekki að eiga frumkvæði að leiðréttingum.

Ég birti hér á blogginu þ.22.ágúst grein sem að birtist í Morgunblaðinu þann sama dag um rétt viðskiptavina Lýsingar í kjölfar Hrd. 672/2012.

Þennan sama dag var Lýsingu sent erindi sem ég samdi fyrir viðskiptavin Lýsingar vegna bréfs sem Lýsing sendi viðskiptavinum sínum í kjölfar ofangreinds dóms þar sem Lýsing biður þá viðskiptavini sem töldu sig hafa samið um betri lánskjör en buðust á markaði að senda skriflega athugasemd fyrir 1.september. Í bréfinu sem Lýsing fékk var sjónarmið viðkomandi viðskiptavinar tilgreint ásamt útreiknaðri endurgreiðslukröfu sem Lýsingu var gefin kostur að greiða ekki síðar en 1.september ella yrði hún send til innheimtu.

Lýsing svaraði bréfinu með eftirfarandi tölvupósti, (allar feitletranir eru mínar):

Ágæti viðskiptavinur.

Lýsing hf. hefur móttekið umsókn þína um leiðréttingu bílasamnings.

Lýsing hefur vakið athygli viðskiptavina sinna á dómi Hæstaréttar í máli nr. 672/2012 vegna samnings sem var að hluta gengistryggður og að hluta í íslenskum krónum. Þar kom fram að ákvæði samningsins um lánakjör væru ekki nógu skýr gegn mótmælum lántaka.  Þar sem samskipta- og greiðslusaga viðskiptavina, auk breytingar á skilmálum með nýjum samningsskilmálum, benda til að atvik geti verið mismunandi hefur Lýsing vakið athygli viðskiptavina á framangreindu og beint til þeirra að óska eftir leiðréttingu telji þeir tilefni til.

Til að umsókn um leiðréttingu á grundvelli áðurnefnds dóms geti talist fullnægjandi þarf að koma fram skýr yfirlýsing viðskiptavinar þess eðlis að hann telji sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamningsins, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum.

Vinsamlegast staðfestu með svarpósti að ofangreint sé skilningur þinn, en í framhaldinu mun Lýsing skoða athugasemd þína með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og gildandi lögum.   

Með kveðju,


Þjónustuver Lýsingar hf
Ármúla 3, 108 Reykjavík
Sími: 540 1540 / fax 1505

www.lysing.is
thjonustuver@lysing.is

Af ofangreindu verður ekki annað ráðið en Lýsing muni ekki leiðrétta lánasamninga hjá viðskiptavinum sem ekki senda inn skriflega athugasemd, og þá því aðeins ef sömu viðskiptavinir lýsa því yfir að þeir hafi samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem var í íslenskum krónum. Hver tilgangur þessa er óskiljanlegur þegar samningurinn var einhliða að fullu og öllu leyti saminn af starfsfólki Lýsingar sem á að búa yfir sérþekkingu á fjármálagjörningum. Lýsingu ber skilyrðislaust að skila ofteknum greiðslum sem ranglega hafa verið hafðar af viðskiptavinum, eins og fyrirtækið hefur verið dæmt til að gera í Hrd. 672/2012.

Þá er einnig óskiljanlegt hvers vegna eftirlitsaðilar grípa ekki inn í og stöðva framferði Lýsingar og gera þeim skylt að fara eftir dómafordæmum og landslögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Því er hér við að bæta að með því að skilyrða svar viðskiptavina við orðalag feitletraða hluta svarsins í pistlinum er Lýsing í raun einhliða að semja svar viðskiptavina ef þeir hyggjast ætla fá leiðréttingu. Ef orðalagið er ekki Lýsingu að skapi mun staða viðskiptavina ekki verða skoðuð.

Erlingur Alfreð Jónsson, 24.8.2013 kl. 05:22

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvers virði er dómskerfið ef hægt er að komast framhjá fulnustu dóms með útúrsnúningum? Hver á að sjá til þess að dómar séu fullnustaðir?

Er kannski kominn tími til að leggja fram kæru til saksóknara, kæru á hendur stjórnendur þessa fyrirtækis fyrir að fara ekki að dómi Hæstaréttar?

Það er til lítils að sækja fyrirtækið sjálft til saka, einungis ákæra á stjórnendur þess gæti hugsanlega skilað árangri.

Gunnar Heiðarsson, 24.8.2013 kl. 07:30

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er hárrétt Gunnar. Hver ber ábyrgðina? Mitt mat er að það sé FME, sem eftirlitsaðili með fjármálafyrirtækjum.

Ég prófaði að kæra fyrrum stjórnendur SP-Fjármögnunar til sérstaks saksóknara en fékk frávísun á þeim forsendum að saksóknarfulltrúinn sem "skoðaði" kæruna taldi "hæpið að huglæg afstaða kærðu hafi verið með þeim hætti við og í kjölfar samningsgerðar, að uppfyllt geti kröfur um saknæmi við meðferð refsimáls og ásetning til brota."

Sérstakur saksóknari sagði sem sagt að af því að ólöglegur samningur var líklega gerður óvart væri ekki hægt að refsa. Mér vitanlega var enginn kallaður til skýrslutöku vegna kæru minnar, hvorki ég né aðrir. Ríkissaksóknari staðfesti úrskurð sérstaks þegar ég kærði ákvörðunina þangað. 

Ég ætla nota þessa afsökun ef ég verð tekinn fyrir of hraðan akstur einhvern tímann. Huglæg afstaða mín var ekki ásetningur til hraðaksturs. Hlýt að sleppa.

Erlingur Alfreð Jónsson, 24.8.2013 kl. 10:18

4 identicon

Sæll Erlingur Alfreð Jónsson.

Hvernig svaraðir þú þessari fyrirspurn lýsingar og hver var niðurstaðan?

Nú spyr ég þar sem ég veit um aðila sem fékk sambærilegt bréf.

Maður er alltaf hræddur að svara bréfi sem þessu "vitlaust".

Einar Hallsson (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 22:06

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Einar,

Þar sem ég er ekki viðskiptavinur Lýsingar og ekki aðili að málinu er ákvörðunarvaldið ekki í mínum höndum í því máli. Ég hef hins vegar ráðlagt viðkomandi aðila að leita álits lögfræðings og hefja sem fyrst innheimtu kröfunnar sem send var 1.september. 

Varðandi þína stöðu ráðlegg ég þér taka saman allar greiðslur þínar til Lýsingar, draga frá dráttarvexti (og innheimtukostnað ef einhver er), og bera þá samtölu saman við heildarlántökukostnað sem væntanlega er birtur á greiðsluáætlun sem fylgdi samningnum í upphafi. Ef heildargreiðslur þínar eru hærri en uppgefinn heildarlántökukostnaður er það mitt álit að þú eigir kröfu á Lýsingu sem því nemur að viðbættum dráttarvöxtum. Ég byggi þetta mat á ákvæðum laga um neytendalán þar sem tilgreint er að ekki megi innheimta lántökukostnað sem ekki var upplýst um í upphafi samnings.  Á þetta álit mitt hefur ekki reynt fyrir dómi svo ég viti nema að hluta í Hrd.672/2012 þar sem Hæstiréttur segir í dómsorði:

Þá segir í 14. gr. laganna að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi sé lánveitanda eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Af  framangreindu er ljóst að lögin gera ríkar kröfur til skýrleika lánssaminga af þeim toga sem hér um ræðir."

Í þessu máli var verðtrygging íslensks hluta gengistryggðs samnings dæmd ólögmæt vegna þess að ekki var upplýst við samningsgerð að sá hluti sem teldist vera í íslenskum krónum væri verðtryggður né hver grunnvísitala samningsins var.

Því segi ég að sú samtala á greiðsluáætlun samnings sem tilgreinir heildarlántökukostnað sé takmarkandi við innheimtu hans, ef ekki er tilgreint að breytingar á einstaka greiðslum geti leitt til breytinga á heildarlántökukostnaði. 

Lýsing mun ekki samþykkja kröfu þina og því er best að taka ákvörðun sem fyrst hvort þú leitar aðstoðar lögfræðings eða t.d. Procura vegna kröfugerðar og innheimtu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.3.2014 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband