Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

#59. Dreamliner á leið til Keflavíkur

Samkvæmt upplýsingum á flightaware.com er áætlaður komutími Dreamliner til Keflavíkur 6:32UTC. Þar má fylgjast með framgangi flugsins á korti. Takið eftir að síðan reiknar komutímann ranglega þar sem hún gerir ekki ráð fyrir að Ísland sé ávallt á UTC tíma, öðru nafni GMT, heldur gefur staðartíma upp sem UTC+1. Flugleiðin liggur frá Seattle yfir Kanada, um La Ronge, Saskatchewan, áfram yfir Churchill, Manitoba og út yfir Hudsonflóa. Þaðan áleiðis til Syðri-Straumfjarðar og yfir suðurodda Grænlands til Keflavíkur, þar sem lending er áætluð kl. 6:32, 2 mínútum á eftir vél Icelandair frá Boston.

Fyrir flugáhugamenn er flugleiðin samkvæmt flugáætlun svohljóðandi: SEA J505 YVC J540 YYL J539 YYQ NCAE EPMAN SF GANGI PEVAR MASIK DA 6500N 03000W GIMLI 6413N


mbl.is Dreamliner á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#58. Hvaða eignir er um að ræða?

Mig langar að vita hvaða bíl, íbúð og sumarhús í eigu Arion banka, Jóhannes Jónsson hefur haft aðgang að og kosta einungs samanlagt 41 milljón króna!!! Hvers konar kytrur og smábíl er hann að sætta sig við? Væri hægt að fá það upplýst? Og af hverju var þetta ekki auglýst á frjálsum markaði á þessum kjörum?!!
mbl.is Þarf að greiða með peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#57. Helvítis fokking fokk bara.........!!!!!

Væri ekki nær að þessir feðgar yrðu gerðir upp fyrir skuldirnar sem þeir stofnuðu til í Kaupþingi og annars staðar en að leyfa þeim að kaupa út eignir fyrir fé hvers uppruni er vafasamur? Að auki fær hann 12 mánaða starfslokasamning og 90 milljóna króna eingreiðslu frá Arion banka!!! Og ætlar svo að auki að bjóða í félagið í söluferlinu sem fram undan er. Finnst engum hjá Arion banka skrýtið að þessi maður hafi aðgang að peningum? Er ekki eðlilegt að hann hefði notað slíka fjármuni til að styrkja eigið fé fyrirtækja sinna í stað þess að keyra þau í þrot með milljarðatuga tjóni? Siðlausi andskotans lúsablesi!

Ég hvet alla til að sniðganga verlsanir hans!


mbl.is Jóhannes hættir hjá Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#56. Original copies.....

Gæði falsaðra merkjavara eru æði misjöfn og þess vegna er það ekki alltaf neytendum í hag að kaupa slíka vöru.  Rétt er það að verðið er lægra en gæðin eru ekki endilega þau sömu, sérstaklega ef um einhverskonar tækjavöru er að ræða.  Líftíminn getur verið vikur eða nokkrir mánuðir hið mesta.

Það er ekki að ástæðulausu að myndin með fréttinni er af úri.  Úr, sólgleraugu og handtöskur eru sennilega algengasta merkjavaran sem fólk kaupir af götusölum eftir mikið prútt.  Íþróttafatnaður er líka ofarlega á blaði.  Á götumörkuðum í Asíu og Mið-Austurlöndum er krökkt af slíkum götusölum.  „Watches, watches, you want watches?  Rolex, Bleitling, Cartier, Tag Hauar, Omega" eru boðin með sérkennilegum enskum framburði.  Boðin eru endalaus og þegar spurt er hvort þetta sé „original" er svarið iðulega:  „Yes, yes, original copy!"  Eigi þeir ekki vöruna sem spurt er um hlaupa þeir til vinar síns handan við hornið og fá hana hjá honum.

Viðhorf skýrsluhöfundanna er samt athyglisvert þar sem hún er fjármögnuð af Evrópusambandinu.  Það er án vafa rétt að þeir sem kaupa eftirlíkingar munu sennilega ekki kaupa merkjavöruna, nema í algjörum undantekningartilvikum.  Og óneitanlega er slík vara mun ódýrari en merkjavaran.  En munum við sjá búðir í Evrópu selja eftirlíkingar óáreittar við hliðina á merkjavörubúðum?  Og hvernig munu slíkar búðir standa að þjónustu við slíka vöru, sérstaklega ef einhverskonar gangverk er hluti af eiginleikum vörunnar?

Á endanum skal samt hafa í huga að þú færð það sem þú borgar fyrir.


mbl.is Í lagi að kaupa eftirlíkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#55. Hvað með dótturfélagið, SP-Fjármögnun hf.?

Nú þegar bankastjóri og bankaráð Landsbankans hefur sagt öllum framkvæmdastjórum sínum upp störfum, til að sækja sér nýtt og óskorað umboð til áframhaldandi starfa, er eðlilegt að beina sjónum að dótturfélögum Landsbankans, sem sum voru rekin í þrot.  Eitt þeirra er SP-Fjármögnun hf.

Að því ég best veit er stjórnarformaður SP-Fjármögnunar hf. þegar þetta er ritað er fullltrúi Landsbankans Anna Bjarney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Landsbankans.  Ennfremur situr í stjórn SP-Fjármögnunar hf. Jón Þorsteinn Oddleifsson, framkvæmdastóri Fjármálasviðs.  Þetta ágæta fólk þarf nú að sækja sér nýtt umboð til áframhaldandi starfa innan Landsbankans.

En hvað með  dótturfélögin?  Er ekki eðlilegt að spyrja hvort sama eigi ekki að gilda um dótturfélag Landsbankans, SP-Fjármögnun hf.?  Ætti framkvæmdastjóri þess ekki einnig að þurfa sækja sér nýtt og óskorað umboð? Frá stofnun SP-Fjármögnunar hf. árið 1995, hefur setið við stýrið Kjartan Georg Gunnarsson.  Hann hefur á síðustu árum fengið greiddan ágóðahlut af ávinningi félagsins af starfseminni, starfsemi sem hefur að stórum hluta til verið dæmd ólögleg af Hæstarétti.  Er eðlilegt að hann þurfi ekki að sækja sér nýtt umboð eftir að hafa rekið SP-Fjármögnun hf. í þrot með ólöglegri lánastarfsemi eins og dæmi sanna?  Fyrirtæki og einstaklingar hafa verið dregnir fyrir dómstóla og keyrðir í þrot á röngum forsendum.  Fyrirtækið hefur framkvæmt ólöglegar vörslusviptingar, á bifreiðum og vinnuvélum, iðulega í samningi nefndir leigumunir af SP-Fjármögnun, vegna meintra vanskila á ólöglegum lánum vegna slíkra kaupa eða leigu.  Þessar aðfarir hafa yfirleitt verið framkvæmdir án atbeina sýslumanns.  Slíkar vörslusviptingar án dóms og laga eru ólöglegar að mati talsmanns neytenda.  Er ekki eðlilegt að framkvæmdastjórinn verði látinn axla ábyrgð af svona rekstri?

Mér er sagt að framkvæmdastjórinn hafi verið duglegur að bjóða í lax eftir hrun, eins og ekkert hrun hafi orðið.  Ef þetta reynist rétt hvaða leikaraskapur er þarna á ferðinni í fyrirtæki í eigu almennings, í gegnum Landsbankann hinn nýja, sem tapaði 30 milljörðum árið 2008???  Hverjir hafa farið í laxveiðiferðir í boði SP-Fjármögnunar hf. eftir hrun? Og til hvers?  Fyrirtækið var ógjaldfært í árslok 2008 eins og kemur fram í ársreikningi þess fyrir það ár.

Treystir bankastjóri og bankaráð Landsbankans framkvæmdastjóranum Kjartani Georg Gunnarssyni til að stýra dótturfélagi sínu, SP-Fjármögnun hf., áfram óskorað í umboði bankans?


mbl.is Landsbankinn auglýsir eftir framkvæmdastjórum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#54. Bónusgreiðslur framkvæmdastjóra SP

 

Í ársreikningi SP-Fjármögnunar hf. árið 2007 kemur fram að félagið hefur gert samning við framkvæmdastjóra um ágóðahlut sem ávinnst með ákveðnum skilyrðum á tilteknu tímabili.  Ekki kemur fram hvenær samningurinn var gerður en fékk framkvæmdastjóri  fyrirtækisins ágóðahlut sinn greiddan að fullu fyrir það ár.  Námu heildargreiðslur til framkvæmdastjórans árið 2007 36,7 milljónum króna.  Í töflunni hér að neðan hef ég tekið saman sambærilegar upplýsingar úr ársreikningum fyrirtækisins fyrir árin 2001-2008.  Hafa þarf í huga að laun og þóknanir stjórnar og framkvæmdastjóra, sem og skipting launagjalda fyrir árið 2001 er áætluð með hliðsjón af ársreikningi fyrir árið 2002 þar sem samsvarandi upplýsingar var ekki að finna í ársreikningi 2001.

 

Árstekjur frkv.stj

Hlutfall af launagjöldum

Alls laun og þóknanir til stjórnar og frkv.stj

Hlutfall af launagjöldum

Alls laun og launatengd gjöld

2001

11.112.944

14,35%

13.985.483

18,06%

77.439.000

2002

12.042.000

14,35%

15.157.000

18,06%

83.913.000

2003

12.414.000

13,46%

16.374.000

17,76%

92.220.000

2004

13.405.000

12,02%

17.965.000

16,11%

111.494.000

2005

22.650.000

11,93%

27.990.000

14,74%

189.931.000

2006

32.644.000

12,37%

38.044.000

14,42%

263.795.000

2007

36.665.000

11,53%

44.065.000

13,86%

318.006.000

2008

37.524.000

10,92%

45.884.000

13,36%

343.540.000

 

Borið saman við útlánaaukningu fyrir sama árabil sést að greinileg tenging er á milli útlána aukningar og árstekna framkvæmdastjórans.

 

Útlán og kröfur í krónum

Hlutfall einstaklinga af lántakendum

2001

9.419.130.741

42,70%

2002

8.642.725.112

43,50%

2003

10.621.429.401

43,60%

2004

14.231.653.000

51,90%

2005

21.822.288.000

51,60%

2006

37.118.315.000

61,50%

2007

47.682.860.000

49,70%

2008

58.026.832.000

47,80%

Á árinu 2008 tapaði  SP-Fjármögnun hf. 30,1 milljarði króna.  Engu að síður hækka ágóða hlutstengdar tekjur framkvæmdastjórans á milli ára um 900.000 kr.

Kjartan Georg Gunnarsson framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar hf.SP-Fjármögnun hf. er að fullu í eigu Nýja Landsbankans en var við bankahrun að 51% eignarhlut í eigu Landsbankans hins gamla.  Ágóðahlutur framkvæmdastjórans er að hluta til kominn vegna ólöglegra gengistryggðra lána fyrirtækisins.  Er eðlilegt að slíkir samningar standi óhaggaðir?  Er eðlilegt að framkvæmdastjórinn haldi ágóðahlut reiknuðum af ólöglegum samningum? Er slíkur ágóðahlutur réttmætur?

Framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar hf. er Kjartan Georg Gunnarsson. 

 


mbl.is Kaupaukasamningum rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#53. Kristinn H. og gengistryggingin

Enn á ný ritar Kristinn H. Gunnarsson á vef sínum um að sanngjarnt sé að verðtrygging verði reiknuð á áður gengistryggða neytendalánasamninga.  Vísar hann í nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness og telur að almennir lántakendur séu jafnsettir og sveitarfélagið Álftanes, sem atvinnurekandi sem fékk dæmt til að greiða verðbætur á áður óverðtryggðan samning.  Sama eigi að gilda í stöðu almennra lántakenda og lánastofnana að mati Kristinns.

Nú er það svo að 36.gr.samningalaga var breytt 1995 til að vernda neytendur fyrir óréttætum samningsskilmálum, eins og Hæstiréttur dæmdi þ.16.júní um gengistryggingu. Var bætt inn fjórum liðum a-d almennum neytendum til hagsbóta.  Ákvæði 36. gr. a-d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d.  Í c-lið 36. gr. segir að samningur skuli gilda að öru leyti án breytinga að kröfu neytanda, verði hann efndur utan hins óréttmæta skilmála.  Þingmaðurinn fyrrverandi var í hópi þeirra þingmanna sem samþykkti fyrrgreindar  breytingar á lögum um samningsgerð.

Almennir lántakendur eru ekki jafnsettir og atvinnurekendur eða opinberir aðilar.  Atvinnurekendur og opinberir aðilar hafa að öllu jöfnu á sínum snærum sérmenntað fólk til að verja fjárhagslega hagsmuni, sem í flestum tilfellum eru verulegir og með öllu ósambærilegir við hagsmuni neytenda.  Er sérstaklega gert ráð fyrir kostnaði vegna slíkrar ráðgjafar í rekstri þessara aðila.

Hinn almenni lántakandi hefur ekki aðgang að slíkri sérfræðiráðgjöf nema gegn þóknun.  Hún er í flestum tilfellum ekki ódýr.  Í annan stað eru neytendasamningar einhliða samdir af lánveitendum og óumsemjanlegir að öðru leyti en sem nemur lánsfjárupphæð og lengd lánstíma.  Það er skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að í slíkum neytendasamningum séu ekki óréttmætir samningsskilmálar.  Það er sérfræðiráðgjöfin sem neytendur eiga rétt á að kostnaðarlausu.

Kristinn H. Gunnarsson veður villur vegar þegar hann heldur því fram að lántakendur eigi að bera fullu á byrgð á því tjóni sem varð af ólögmætum samningsskilmálum um gengistryggingu.  Það eru stjórnendur lánastofnana sem eiga bera ábyrgð á þeim skaða, ekki neytendur.


#52. Laaangsóóótt túlkun á EES-samningnum.

Stöð 2 skýrði frá því í fréttum í gærkvöld að samkvæmt lögfræðiáliti stórrar lögfræðistofu fyrir fjármögnunarfyrirtæki, sem hvorugt mætti nafngreina, væri bann við gengistryggingu íslenskra lána við erlendar myntir mögulega talið brot á 40.gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.  Vísir.is skýrði svo frá því að um væri að ræða Lögmannstofuna Logos annars vegar og Lýsingu hinsvegar.  Í minnisblaði Logos segir að með túlkun héraðsdóms sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það er greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Því sé í raun verið að leggja kostnað og fyrirhöfn á lántaka fyrir það eitt að taka erlent lán. Með því sé veiting erlendra lána gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og það sé öllum líkindum brot á 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. 

Þessi túlkun á 40.gr. er að mínu mati mjög langsótt, en tek þó fram að ég er ekki löglærður maður. 

EES-samningurinn er að mínu viti fyrst og fremst milliríkjasamningur.  Markmið hans er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist EES.  Ákvæði hans eiga því að tryggja rétt aðila yfir landamæri og samræma löggjöf og framfylgni slíkrar löggjafar á milli aðildarríkja, sem eitt sé. 

40.gr. EES samningsins hljóðar svo: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar."

Takið eftir: Engin höft á milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra eða því hvar féð er notað til fjárfestingar!  Ég tel að átt sé við haftalausa fjármagnsflutninga á milli samningsaðila í aðildarríkjum EB og EFTA!  Ekki á milli samningsaðila innan eins og sama ríkis.  Af hverju ætti líka að vera þörf á höftum á milli samningsaðila innan sama ríkis undir sömu þjóðarlöggjöf?  Þessi túlkun Logos stenst illa skoðun að mínu mati.  Með EES-samningnum er verið að koma í veg fyrir að höft sé á fjármagnsflæði á milli ríkja á EES-svæðinu.   Hér er sem sagt átt við það sem kallast í raun milliríkjaviðskipti með fjármagn og að slík viðskipti eigi að vera haftalaus. 

Hvað téð gengistryggð neytendalán varðar var ekki um flutning fjármagns á milli aðildarríkja að ræða.  Innlendir aðilar lánuðu innlendum aðilum fé vegna bifreiða- eða íbúðakaupa.  Hvar bankarnir fjármögnuðu sig til þessa verkefnis er aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofnunar og neytanda.  Bankarnir fjármögnuðu sig á erlendum markaði að hluta til, einmitt undir formerkjum nefndrar 40.gr. að mínu mati.  Frekar má segja að gjaldeyrishöftin séu brot á 40.gr. samningsins heldur en gengistrygging höfuðstóls og afborgana lána á milli innlendra aðila.

Gengistrygging neytendaláns er ekki lögleg vísitölubinding í lánasamningi milli neytenda og lánastofnunar á Íslandi, og það kemur 40.gr. EES-samningsins ekkert við.


#51. Óásættanleg staða í sjúkraflugi

Það er ekki lengra síðan en vika að ég nefndi í bloggfærslu að það væri bara tímaspursmál hvenær ekki verður hægt að sinna útkalli vegna áhafnaskorts.   Í sömu bloggfærslu nefndi ég að í landinu væru sjálfstæðir þyrlurekendur sem gætu hugsanlega sinnt einhverjum útköllum sem nú er sinnt af Landhelgisgæslunni, þar á meðal sjúkraflugi sem ekki krefst hífingarvinnu. 

Þyrla NorðurflugsNorðurflug hf. er einn slíkur og hefur yfir að ráða þyrlu sömu tegundar og stærðar og var um árabil verið notuð við sjúkraflug og björgunarstörf við Íslandsstrendur. 

Landhelgisgæslan skilaði nýlega leiguþyrlu af sömu gerð til eiganda síns þar sem ekki var til fjárframlag til að framlengja leigusamning hennar.

Á mánudagskvöldið komu 3 útköll og voru veðuraðstæður í Grímsey það slæmar að það þurfti þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að sinna útkallinu.  Nú er auðvelt að vera vitur eftir á en hefði þarna verið möguleiki að senda sjúkraflugvél/þyrlu á Höfn eftir manninum í Öræfunum en þyrluna strax til Grímseyjar?  Veðurskilyrði á Suðurlandi voru mun betri en í Grímsey og því ekki eins takmarkandi fyrir aðra en Landhelgisgæsluna.

Ég tel eðlilegt að í þeim fjárskorti sem nú hrjáir Landhelgisgæsluna að skoðað sé að  gera þjónustusamning við aðra þyrluflugrekendur um einfaldari sjúkraflugsvinnu þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki til staðar.  Þessi staða er með öllu óásættanleg.


mbl.is Slasaður maður var látinn bíða alla nóttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"50. SP-Fjármögnun hf. var gjaldþrota!

Í bloggfærslu þ. 12. ágúst velti ég upp þeirri spurningu hvort dótturfélag Nýja Landsbankans, SP-Fjármögnun, hafi í raun verið gjaldþrota í árslok 2008.  Í dag rakst ég á gamla frétt af mbl.is frá mánudeginum 12. janúar 2009 um fjárkröggur SP, frétt sem líklega fór framhjá mér og hugsanlega fleirum, á sínum tíma.  Alla vega mundi ég ekki eftir að hafa séð hana.  Fréttin staðfestir það sem ég held fram í pistlinum 12.ágúst sl.  

SP-Fjármögnun hf. var í raun gjaldþrota um áramótin 2008-2009 og hefði átt að missa starfsleyfi sitt. 

Í staðinn virðist Fjármálaeftirlitið hafa gefið SP undanþágu frá reglum um eiginfjárhlutfall þangað til Nýji Landsbankinn bætti við hlutafé.  Hlutafé SP-Fjármögnunar hf. var aukið um 1080 milljónir á vordögum 2009, með niðurfellingu Nýja Landsbankans á skuldum fyrirtækisins, og verðið var 330 krónur á hverja krónu nafnverðs.  Fyrirtækið virðist því hafa starfað á undanþágu Fjármálaeftirlitsins fyrstu 3-4 mánuði ársins 2009. 

Á sama tíma og fyrirtækið óskaði eftir undanþágu Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall sitt, til að þurfa ekki tímabundið að fara eftir reglum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis, stundaði það ólögmæta innheimtustarfsemi á lánssamningum viðskiptamanna sinna.   Fyrirtækið fyrirskipaði einnig vörslusviptingar án atbeina sýslumanns og braut þar með lög og reglur um aðför og fullnusturéttarfar.  Stjórnendum SP-Fjármögnunar hf. er, að því er virðist, eðlislægt að brjóta lög og reglur í starfsemi fyrirtækisins. 

Hvað rifti fyrirtækið mörgum gengistryggðum samningum við viðskiptamenn sína á þeim tíma sem það starfaði á undanþágu FME, og vörslusvipti þá bifreiðum, sem samningur var um, án atbeina sýslumanns?  Hver er ábyrgð Fjármálaeftirilitsins á þeim gjörningum?

Ég minni á bloggfærslu mína frá 24.júní sl., um eignaleiguna Lind hf., sem var í eigu Landsbankans, sem svo aftur var í eigu íslenska ríkisins.  Íslenska ríkið á SP-Fjármögnun hf. að fullu í gegnum Nýja Landsbankann. 

Sverrir Hermannsson, þá verandi bankastjóri Landsbankans, sagði í blaðaviðtali við Morgunpóstinn árið 1994 um starfsemi Lindar hf.:  „Lind hefur stórtapað, og bankinn á hundrað prósent í Lind svo tap fyrirtækisins er tap bankans."

Mikið var fjallað um málefni Lindar hf. í bankaráði Landsbankans á þeim tíma til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni.  Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins.   Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýringanna er að leita í þeirri megin hugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins.  Hún var að fjármagna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum.

Aðdragandinn að örlögum Lindar hf. minnir óneitanlega á stöðu SP-Fjármögnunar hf. undanfarin misseri.  Hvað er langt þar til SP fer sömu leið?  Verður það í október, þegar Hæstiréttur dæmir um samningsvexti sbr. frétt Pressunnar?  Og hvað munu margir tapa ofgreiddum greiðslum til fyrirtækisins þegar það gerist?

Ég geri hér orð Sverris Hermannssonar að mínum og segi: SP-Fjármögnun  hf. hefur stórtapað, og Nýji Landsbankinn á hundrað prósent í SP-Fjármögnun hf. svo tap fyrirtækisins er tap bankans".  

Tap bankans er tap eigenda hans, íslensku þjóðarinnar!

 


mbl.is SP vill undanþágu frá reglum um eigið fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband