Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

#124. Vafasamt vinnulag?

Ég velti fyrir mér hvort það sé beinlínis löglegt að tala ökumann, erlendan ferðamann sem innlendan, inn á það að greiða sekt á staðnum? Er þetta réttlát málsmeðferð? Stenst þetta ákvæði laga um þrískiptingu valdsins? Eru lögreglumenn ekki þarna í hlutverki rannsakenda, ákærenda og dómara?

Ef maðurinn vill ekki borga við fyrsta boð á lögreglan að setja málið í annan farveg. Þá er málið rannsakað, hugsanlega gefin út ákæra og dæmt í málinu. Nú veit ég ekkert hvort er betra fyrir þann sem er tekinn fyrir hraðaksturinn, að borga eða mótmæla.

En mér finnst þetta svolítið skrýtið framferði.


mbl.is Vildi ekki borga út af Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#123. Athyglisverður dómur

Í dómsúrskurðinum segir Jón Finnbjörnsson héraðsdómari að þar sem nauðasamningar hafi verið staðfestir 18. ágúst 2010, sé gjaldþrotaskiptum hætt.  Stefnandi, Stapi lífeyrissjóður,  eigi því að fá kröfu sína greidda eftir forsendum nauðasamningsins og má þar með segja að klúður lögmannstofunnar sem gleymdi að lýsa kröfunni í búið hafi bjargast fyrir horn.  18. ágúst 2010 er dagurinn sem gefur stefnanda forsendur fyrir að fá kröfu sína viðurkennda og þar með getu til að innheimta hana.  Innheimtan takmarkast þó við skilyrði nauðasamninganna og stefnandi fær ekki dráttarvexti aftur í tímann, þ.e. aftur fyrir staðfestingardag nauðasamninga; s.s. enginn réttur til afturvirkra vaxta sem ekki eru forsendur fyrir.  Reiknaðir eru dráttarvextir frá 18.ágúst 2010 þegar forsendur félagsins breyttust við nauðasamninga.

Sama hlýtur að gilda um vaxtareikninga fjármögnunarsamninga.  Ekki er hægt að reikna vexti aftur fyrir daginn sem forsendur vaxtamiðmiðs samningana breytast.  Hvað gengistryggða lánasamninga varðar er sá dagur 18. desember 2010, þegar ólög Árna Páls nr. 151/2010 voru samþykkt á Alþingi.  Endurreikningar SP-Fjármögnunar hf. á mínum samningi eru hins vegar dagsettir 30. september 2010, rúmum 11 vikum áður en lög nr. 151/2010 voru samþykkt!!  Og gera að sjálfsögðu ráð fyrir afturvirkum vöxtum eins og frægt er orðið.  Stoðir þessarar innheimtu afturvirkra vaxta molna dag frá degi og það er einungis tímaspursmál hvenær ólög nr. 151/2010 verða felld úr gildi.

Hvað uppgjör banka varðar þá er rétt að benda á að meira en 50% af núverandi eigendahópi ALMC áður Straums-Burðaráss, eignaðist sinn hlut eftir 19. mars 2009 þegar bankinn fékk greiðslustöðvun.  Minnihluti eigendahópsins hlýtur þar með að standa saman af eigendum Straums-Burðaráss fyrir aðkomu skilanefndar að starfsemi félagsins með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. mars 2009.

Það sem stendur eftir er að ALMC, áður Straumur-Burðarás, er ekki á leið í gjaldþrot skv. dómi Héraðsdóms.  Það sama tel ég að muna gilda um aðra banka undir stjórnum skilanefnda eða slitastjórna. Þeir munu ekki fara í gjaldþrotaskipti, þ.e. verða slitið að fullu heldur sameinast afkvæmum sínum.  Hlutverk skilanefnda Glitnis, Kaupþings og Landsbankans er jú að vinna að því tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi þessara banka hér á landi.  Það fellur varla í sér að slíta eigi þeim eða fara í gjaldþrotaskipti.


mbl.is Greiði Stapa 5,2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#122. Kostnaður Íslands vegna lánshæfismats er....

.......230 milljónir króna frá árinu 2002!

Mig langaði til að fræðast um kostnað íslenska ríkisins vegna þessara "bráðnauðsynlegu" spádóma þessara fyrirtækja, sem í daglegu tali nefnast lánshæfismat, og beindi því eftirfarandi spurningum til fjármálaraðuneytisins með vísan til 3. og 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996:

1) Hefur ríkissjóður Íslands einhvern tímann á tímabilinu 01.janúar 2001- 5.apríl 2011 greitt lánshæfisfyrirtækjunum Moody´s, Standard & Poors og Fitch Ratings fyrir lánshæfismat og/eða fyrir útgáfu slíks mats. Með Moody´s er bæði átt við fyrirtækin Moody's Analytics og Moody's Investors Service.

2) Reynist svar við spurningu 1 jákvætt er óskað sundurliðunar á greiðslum til þess fyrirtækis, eða eftir atvikum fyrirtækja, sundurliðað eftir árum annars vegar og fyrirtækjum hinsvegar.

3) Reynist svar við spurningu 1 jákvætt er óskað upplýsinga hvaða aðili óskaði eftir slíkri þjónustu eða heimilaði ósk um slíka þjónustu hverju sinni.

4) Reynist svar við spurningu 1 neikvætt er óskað upplýsinga hvort, og þá hvenær, lánshæfistmatsfyrirtækin Moody´s, Standard & Poors og Fitch Rating hafi boðið íslenska ríkinu þjónustu sína og hvort íslenska ríkið hafi einhvern tímann hafnað slíku boði.

5) Ennfremur er óskað upplýsinga um hvort ofangreind fyrirtæki hafi einhvern tímann einhliða sent íslenska ríkinu reikning vegna lánshæfismats og hvort íslenska ríkið hafi hafnað greiðslu slíks einhliða útgefins reiknings.

Svör ráðuneytisins bárust mér í tölvupósti 3.júní sl. og var efni svarsins sem hér segir:

Þrjú matsfyrirtæki meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Það eru fyrirtækin Moody's Investors Service, Standard & Poor's og Fitch Ratings.

Samskipti matsfyrirtækjanna og Ríkissjóðs Íslands hófust árið 1986 þegar Standard & Poor's ákvað að raða nokkrum fjölda landa, sem þá höfðu ekki formlega einkunn, í flokka. Árið 1989 tilkynnti fyrirtækið að það gæfi Ríkissjóði Íslands langtímaeinkunnina „Ai" og skammtímaeinkunnina „A-1". Moody's fylgdi svo í kjölfarið árið 1989 og veitti ríkissjóði einnig óumbeðna einkunn A2, en sú einkunn var hins vegar ekki auðkennd sérstaklega eins og hjá S&P.

Formleg lánshæfissaga ríkissjóðs hófst þegar íslenska ríkið óskaði eftir einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar fyrir víxla ríkissjóðs, sem gefnir voru út í Lundúnum; frá S&P árið 1989 og síðar frá Moody's árið 1990. S&P veitti ríkissjóði einkunnina A-1 og Moody's P-1.

Í tengslum við undirbúning ríkissjóðs á fyrstu opinberu útgáfu skuldabréfa á Bandaríkjamarkaði árið 1994 voru Moody's og S&P formlega beðin um að meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar. Í kjölfarið veitti S&P ríkissjóði einkunnina A fyrir langtímaskuldbindingar, í janúar 1994, og í sama mánuði tilkynnti Moody's að einkunnin yrði A2. Þar með staðfestu matsfyrirtækin fyrri óformlegar einkunnir ríkissjóðs.  Lánhæfisfyrirtækið Fitch bættist í hópinn á árinu 2000 og veitti ríkissjóði þá einkunnina AA-.

Kostnaður við lánshæfiseinkunnir fyrir ríkissjóð á árunum 2002-2010 hefur samtals numið alls um 230 milljónum króna sé miðað við meðalgengi hvers árs fyrir sig.

Þó eilítið vanti upp á svarið, þ.e. greiðslur ársins 2001, sem og sundurliðun eftir fyrirtækjum eisn og ég bað læt ég hér við sitja.

Það er ánægjulegt að ráðamenn Evrópu eru að vakna til lífsins gegn þessum svikamyllum, sem vara alla við að taka mark á áliti sínu, en fá engu að síður greitt offjár fyrir að gefa út ábyrgðarlaust mat.

 


mbl.is Óskiljanleg ákvörðun Moody's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband