Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

#207. Friðargæslulið á slysstað.

Öllum er ljóst hversu mikilvægt það er að rannsakendur fái aðgang að slysstað til að rannsaka tildrög flugslysa. Heft aðgengi bendir til að verið sé að hylma yfir hvað raunverulega gerðist. Fréttamönnum hafa verið rétt skilríki, veski og aðrir persónulegir munir farþeganna, því enginn virðist vita hvað geri eigi við þá, og hvernig eigi að halda utan um slysstaðinn. Á svæðinu virðist því ríkja lítil stjórn.

Búið er að flytja líkamsleifar sumra fórnarlamba um borð í lestarvagna, en samkvæmt fréttum BBC eru þeir ekki kældir, og ennfremur eru þeir enn á slysstað en ekki á leið með líkamsleifarnar í kæligeymslur, og lítil merki um að það sé að breytast. Nú, 4 dögum eftir að vélin fór niður, töldu fréttamenn BBC alla vega 27 lík sem ekki höfðu verið sótt í flakið og flutt um borð í vagnana. Það verður líklega meiri háttar mál að bera kennsl á líkin og koma þeim til ættingja til greftrunar.

Um leið og eftirlitsmönnum ÖSE var vísað af slysstað hefði líklega átti að senda inn friðargæsluliða SÞ til að tryggja vettvang. En þar sem slíkt þarf að fara fyrir öryggisráð SÞ eru sennilega litlar líkur á að það hefði gengið eftir með Rússa í ráðinu og neitunarvald þeirra.


mbl.is Reyna að bera kennsl á líkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#206. Eins og karlinn sagði......

Ég hef lengi bent hér á blogginu á ákvæði 14. gr. neytendalánalaga frá 1994 um árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað sem segir að lánveitanda sé óheimilt að krefja neytanda um greiðslu vaxta eða annars lántökukostnaðar ef þeir eru ekki tilgreindir í lánasamningi og hef bent lögfræðingum á þetta ákvæði vegna gengistryggðra lánasamninga en talað fyrir daufum eyrum til þessa. Það er gott ef lagaspekingar eru nú farnir að líta til þessarar lagagreinar vegna innheimtu neytendalána. Ég hef þá kannski haft nokkuð til míns máls í allan þennan tíma.

Hafi árleg hlutfallstala kostnaðar verið kynnt við lántöku, sem og heildarlántökukostnaður lánsins, tel ég að það sé takmarkandi við innheimtu sama samnings, hvort sem hann er verðtryggður eða gengistryggður. Þess vegna eigi aldrei að endurreikna gengistryggða lánasamninga heldur greiða þá heildarendurgreiðslu sem kynnt er í greiðsluáætlun sem fylgdi lánssamningi.

Ég tel það vera einkennilega röksemd að Hæstiréttur eigi undankomuleið í þriðju málsgrein sömu lagareinar ef sýna má fram á að ef neytanda hafi verið ljóst hver lántökukostnaður átti að vera megi rukka hann um verðtryggingu. Til að slík röksemd gangi upp þarf að sýna að neytandi hafi fengið upplýsingar um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar, sem lagðar voru fram í greiðsluáætlun og oftast byggði á 0% verðbólgu! Þannig að ekki var gert ráð fyrir henni við samningsgerð, og því ekki hægt að innheimta hana að mínu mati.

En tel hins vegar að undankomuleiðin, ef hún þá er til staðar, geti frekar legið í 12.gr. sem segir að ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Þar með hefði þannig ávallt átt að miða við þáverandi verðbólgu við lántöku, en ekki 0% verðbólgu. En þar sem oftast var miðað við 0% verðbólgu er sú undankoma líklega heldur ekki til staðar.

En eins og karlinn sagði um árið: "You aint seen nothing yet!"


mbl.is Í andstöðu við hagsmuni stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#205. Synd

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst mikil synd að horfa á eftir þessu skipi til Danmerkur í brotajárn eftir svo langa sögu í mínum fæðingarbæ. Nú má vel vera að reynt hafi verið að fá HB Granda til að halda skipinu í bænum, þ.e. gefa það á Byggðasafnið, um það veit ég ekki.  En mér finnst að það hefði átt að varðveita það og sögu þess í bænum, og ég velti fyrir mér hvort upphafsmaður Byggðasafnsins í Görðum, sr. Jón M. Guðjónsson, hefði leyst landfestar eftir þennan tíma. Það er lítið eftir af útgerðarsögu stálskipa í landinu, þ.e. gömlum skipum eins og Víkingi, þó reynt sé að halda upp á gamla og fúna trébáta með æði misjöfnum árangri. Stálskipaútgerðinn er ekki síður merkileg og ber að varðveita líka.

En svo má líka velta því fyrir sér hvort Skagamenn hafi eitthvað með svona skip að gera til varðveislu, miðað við hvernig farið hefur fyrir Kútter Sigurfara, sem er að hruni kominn við Byggðasafnið.


mbl.is Farinn til Danmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#204. Hraðlestardraumar

Mér hefur alltaf óað hugmyndum um hraðlest á milli FLE og Reykjavíkur, og hvað þá að slík framkvæmd yrði fjármögnuð með íslenskum Matadorkrónum. Tel að Íslendingar hafi engan veginn efni á slíku mannvirki. Ef hins vegar erlendir aðilar eru tilbúnir að fjármagna, eiga og reka slíkt fyrirbæri hef ég ekki á móti því, enda þarf erlendan gjaldeyri til að fjármagna tæplega helming framkvæmdarinnar að minnsta kosti, og því kjörið að það fjármagn komi annars staðar en frá innlendum aðilum í gegnum gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ég hendi hér fram nokkrum pælingum sem komu í hugann þegar ég renndi yfir skýrsluna. 

Kostnaður vegna aðfanga og búnaðar í erlendum gjaldeyri er áætlaður 46 milljarðar, en ég giska á að hann gæti mögulega verið hærri sem nemur kostnaði við gangnagerðina, eða alls um 61 milljarður í erlendum gjaldeyri sem þyrfti til verksins. Og er þá miðað við gengi Seðlabankans sem er verulega hærra en gengi krónunnar á erlendum mörkuðum og vafalaust ómögulegt að erlendir fjárfestar fengjust til að fjármagna svona stórt verkefni á slíku gengi. Fjárfestar myndu væntanlega heimta lægra gengi en opinbert gengi Seðlabankans við slíka fjármögnun á sama hátt og Seðlabankinn hefur reynt að lokka erlent fjármagn til landsins með gjaldeyrisútboðum. Kostnaður vegna lægra gengis gæti orðið 20% hærri en reiknað er með í forsendum ef tekið er mið af nýlegu útboði Seðlabankans sem keypti Evrur á genginu 186 kr., á meðan opinbert gengi er hærra eða um 154 kr.

Í skýrslunni kemur fram að sambærilegar framkvæmdir í Noregi og Svíþjóð voru gerðar í samvinnu við ríki í formi styrkja og ábyrgða. Þó er ekki gert ráð fyrir aðkomu ríki eða sveitarfélaga vegna þessa verkefnis!  Hvers vegna yrði það öðru vísi hér, sérstaklega sé tekið tillit til hversu mikil þörf er á erlendum gjaldeyri til verksins? Ég tel ekki ólíklegt að erlendir aðilar færu fram á ríkisábyrgð vegna erlendrar lántöku miðað við þau gjaldeyrishöft sem við búum við vegna svona verkefnis.

Í skýrslunni er vísað til talna vegna notkunar farþega á lestarferðum til London city flugvallar þar sem notkunarhlutfall farþega á lest til og frá flugvelli er um 55%. En hvernig er notkunarhlutfall lesta frá London Gatwick eða London Heathrow inn í miðborgina? Báðir flugvellir eru miklu stærri en London city og sennilega hlutfallslega sambærilegri við Keflavíkurflugvöll hvað hlutverk varðar, og hugsanlega eðlilegra að miða við þá. Á hinn bóginn er eðlilegt að líta til þess að að farþegar sem fara um bæði Gatwick og Heathrow koma úr fleiri áttum en bara úr miðborg London sem getur haft áhrif á notkun lesta en jafnframt fara margar lestar ekki beint á flugvellina og farþegar þurfa að skipta inn í London til að komast út á flugvöll. Þriðjungur farþega um London city fer til 3 af um 20 flugvöllum sem flogið er til frá vellinum, og fimmtungur ferðast innan Stóra-Bretlands, á milli Skotlands og London.

Í forsendum er miðað við 50 ára afskriftarkostnað á teinum og stöðvum, en hver er endurnýjunarþörf (líftími) teina á svona leið?

Þá munu farþegar þurfa að mestu að notast við almenningssamgöngur til og frá lestarstöð, og þá oft leigubíla þar sem strætó hefur ekki hafið akstur á þeim tíma sem lestin á að fara fyrstu ferð. Slíkt gæti þó vissulega breyst ef af verkefninu verður. Ekki gat ég þó séð í fljótu bragði að þessi liður væri tekin með inn í kostnað í samanburði við notkun einkabíls/leigubíls til að komast til Keflavíkur. En yrði hagkvæmt fyrir fjölskyldu að fara á lestarstöð með leigubíl og þaðan til Keflavíkur í stað þess að aka sjálf eða taka leigubíl? Verð fyrir staka lestarferð er áætlað um 3800 kr.! Fyrir 4 manna fjölskyldu gerir það um 15.000 kr. aðra leiðina, eða 30.000 kr. báðar leiðir og er þá ótalinn kostnaður að koma sér til og frá lestarstöð, sem getur auðveldlega hlaupið á 6-10.000 kr. eða meira aðra leiðina og þar með allt að 40-50.000 kr. Stök rútuferð frá BSÍ til Keflavíkur kostar nú 1950 kr. Líklega yrði ódýrara fyrir fjölskyldu að fara með rútu í stað lestar, en líklega ódýrast að fara bara á bílnum beint til Keflavíkur og leggja í langtímastæði. Bílastæðagjald fyrir 14 daga er 9.800 kr. og fyrir 21 dag 12.600 kr., eða mun ódýrara en að fara með lest aðra leiðina! Eldsneytiskostnaður fram og til baka gæti verið um 5.000 kr.

Í skýrslunni er einnig nefndur mögulegur sparnaður flugfélaga við ferðalög flugáhafna til Keflavíkur með lest. Af reynslu þá finnst mér ekki mjög líklegt að áhafnir muni notast við almennningslestir í tengslum við ferðir til og frá vinnu, jafnvel þó að vinnuveitandi mundi bera slíkan kostnað!

Sjáfur hefði ég áhuga á að sjá kostnaðaráætlun við lagningu raflína fyrir ofan Reykjanesbrautina og nýta hana þar með betur með notkun rafvagna. Ég tel það ekki síðri kost heldur en lest þó ferðatími yrði lengri en lestar vegna minni hraða. En líklega mun ódýrara verkefni en þessi hraðlestardraumar.

 


mbl.is Stofnkostnaður hraðlestar 100 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#203. Hræðsluáróður

En gerir Lýsing lítið úr niðurstöðum dómstóla og telur fordæmisgildi héraðsdóms í síðustu viku lítið. Gamli fréttamaðurinn og spunameistari Lýsingar, Þór Jónsson, bendir á að Lýsing hafi unnið fimmtán gengistryggingarmál fyrir Hæstarétti frá 2012. Stutt leit á vef Hæstaréttar fyrir tímabilið 1.janúar 2012 til dagsins í dag, 7. júlí, gaf hins vegar einungis 5 mál vegna gengistryggingar þar sem Lýsing var málsaðili, þarf af 4 gegn lögaðilum. Vel má vera að þau séu fleiri en ég nennti ekki að eyða tíma í að leita nánar, satt að segja. 

Ég hef nokkrum sinnum bent á hér á blogginu að ég telji neytendur eiga betri rétt en lögaðilar vegna bíla-og tækjafjármögnunarsamninga vegna ákvæða neytendalánalaga og ætla ekki að rekja það aftur hér. Er búinn að fá algert ógeð á þessu fyrirtæki, og er ekki einu sinni viðskiptavinur! Lauk mínum viðskiptum við það árið 2002 ef ég man rétt, og er ekki á leiðinni til þeirra aftur þó að þau viðskipti hafi verið snurðulaus á sínum tíma.

Dómari í málunum í síðustu viku var Skúli Magnússon, fyrrum ritari við EFTA dómstólinn. Í niðurstöðu sinni bendir hann á að þegar neytendur greiða samning upp fyrir lok samningstíma eiga þeir rétt á lækkun lántökukostnaðar, sbr. ákvæði neytendalánalaga nr. 121/1994, sjá 16.gr. sömu laga. Líklega á þetta ákvæði við mikinn fjölda lánasamninga Lýsingar við venjulega neytendur.

Þess vegna ætti fólk að vera alveg óhrætt að hjóla í Lýsingu vegna lánasamninga og því fyrr því betra, því ég er undrandi á að fyrirtækið sé hreinlega rekstrarhæft, hvað þá að það verði að þegar öllum þessum málum verður lokið. Fyrstir koma fyrstir fá!


mbl.is Krefja Lýsingu um neikvæða vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#202. Til hamingju, en....?

Um leið og ástæða er til að óska starfsfólki Gengislána og skjólstæðingum þeirra til hamingju með niðurstöðuna furða ég mig á því hvers vegna ákvæði laga um neytendalán eru ekki notuð í málatilbúnaði. 

Ég er að sjálfsögðu að tala um ákvæði um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem ég er nokkrum sinnum búinn að benda á hér á blogginu og í athugasemdum annars staðar að mögulega eigi að byggja á í málatilbúnaði vegna gengistryggðra lána, sérstaklega vegna bíla-og tækjafjármögnunarsamninga almennra neytenda.

Fyrir þá sem vita ekki hvað ég er að tala um á ég við ákvæði 14.gr. laga um neytendalán nr. 121 frá 1994, en í þar var sagt að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Þetta ákvæði hefur nú verið tekið út úr núverandi lögum um neytendalán. Hins vegar ber að líta til þess að ákvæðið var gilt þegar neytendur gerðu sína gengistryggðu samninga við Lýsingu, Avant, SP-Fjármögnun og fleiri aðila, og ætti þess vegna að vera takmarkandi við innheimtu þessara samninga að mínu mati. 

Neytendum var kynnt við samningsgerð upphæð sem átti að vera heildarlántökukostnaður samningsins ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar svo hægt væri að bera saman ólíka fjármögnunarkosti. Bæði þessi atriði máttu ekki hækka samkvæmt þáverandi ákvæðum laganna nema forsendur breytinganna væru kynntar í samningi og tilgreint að breytingarnar gætu haft áhrif á heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ég leyfi mér að fullyrða að möguleg áhrif breytinga á þessi tvö atriði hafi aldrei verið tilgreind, og ég tel þar með óheimilt að innheimta eina krónu umfram það sem tilgreint var við samningsgerð, hvað sem endurreikningi líður. Endurreikningur hefur alltaf verið óþarfur að mínu mati vegna þessara ákvæða.

Við úrlausn þessara tveggja mála lítur dómurinn til ákvæða fyrrgreindra laga og tiltekur að sbr. ákvæði 1.mgr. 16.gr. laga nr. 121/1994, þá á neytandi sem greiðir upp lán fyrir umsamdan lánstíma rétt á lækkun heildarlántökukostnaðar sem annars hefði verið innheimtur eftir greiðsludagsetningu. En hvers vegna dómarinn lítur ekki til ákvæða 14.gr. sömu laga, og ég tilgreindi hér að ofan, er mér ókunnugt en mögulega var dómnum ekki kynntur upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar, og þess vegna er ekki tekin afstaða til þess hvort þær uplýsingar takmarki innheimtu samnings. Ég tel að þessi tvö atriði, upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar sé takmarkandi við innheimtu þessara lána, sbr. fyrrgreind lagaákvæði. Það á þó eftir að koma í ljós.

Mér hefur alltaf fundist einkennilegt að neytendur eigi að sætta sig endurreikning samnings þar sem þeim er gert að greiða hærri heildarlántökukostnað en samið var um í upphafi.  Ég tel það fullkomlega ólöglegt og hef skorað á lögmenn að láta reyna á þessi ákvæði í málatilbúnaði.

mbl.is Lýsing tapaði tveimur málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband