#135. Skapar 110% leiðin hagnað bankanna?

Ég las nýlega skjöl frá Íslandsbanka vegna 110% leiðar fyrir skuldara. Áður en ég las þessi skjöl yfir þótti mér einkennilegt hvers vegna bankinn þarf samþykki skuldara til að hann lækki útblásnar eftirstöðvar lánasamninga. En eftir lestur skjalanna vegna umsóknar um 110% leið hjá bankanum þá áttaði ég mig betur á hvað um er að vera. Íslandsbanki er að fara fram á að skuldari gangist við 110% skuldsetningu fasteignar vegna lána sem bankinn fékk á u.þ.b. helmingsafslætti frá Glitni banka, með því að staðfesta og viðurkenna að eftirstöðvarnar 01.01.2011 hafi verið þær sem tilgreindar eru á umsókn um niðurfærslu fasteignaveðláns. Jafnframt segir að skuldari gefi bankanum heimild til að nota þessar upplýsingar nafnlaust til að endurmeta verðmæti lánasafna bankans. M.ö.o. þá er bankinn að fara fram á að skuldarar samþykki að lánin séu meira virði en bankinn er með bókfært í lánasöfnum sínum í dag.

Farið er fram á að skilað sé með umsókn staðfestu afriti síðustu 3 skattframtala. Hvers vegna þarf bankinn að sjá skattframtöl til að lækka skuldir viðkomandi? Er hann að meta greiðslugetu?
Þá er einnig farið fram á staðfestingu á stöðu eftirstöðva 01.01.2011. Sem sagt skuldarinn á að staðfesta að eftirstöðvarnar er þær sem sagt er að þær séu á umsókninni, til þess að Íslandsbanki eigi verðmætara lánasafn.

Í reynd er því um hækkun á lánunum að ræða en ekki lækkun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, um stofnun efnahagsreiknings Nýja Glitnis, nú Íslandsbanka, segir:

“Útlán til viðskiptavina önnur en þau sem tilgreind eru hér á eftir eru færð yfir í nýja bankann á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána.”

Það er því almenningur sem er að gefa bönkunum heimild til að endurmeta lánasöfnin eftir þeim gögnum sem undirrituð eru við umsókn um 110% leið sem skapar hagnaðinn. Hér er þvílíkt verið að spila með grandvart fólk að annað eins gerist ekki nema í svæsnustu bíómyndum og viðskiptum mafíósa við undirmálsfólk.

Nú er ég enginn sérfræðingur í að greina ársreikninga fjármálafyrirtækja en ég fæ ekki betur séð en virði lána til viðskiptamanna Landsbankanns hafi hækkað um 60 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Hvað mikill hluti þessa hækkunar má rekja til endurmats á lánasöfnum bankans á lánum til einstalinga í kjölfar 110% leiðar? Líklega um 20 ma. króna. (Sjá árshlutauppgjör Landsbankans bls.16)

Íslandsbanki virðist ekki hafa uppfært lánasafn sitt til einstaklinga ennþá þannig að ég yrði ekki hissa á að hagnaður bankans á seinni ársins verði meiri en á fyrri hluta ársins.

Það verður fróðlegt að sjá.


mbl.is 42,7 milljarðar í hagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#134. Brotið er fjárdráttur....

Ég held að í þessu máli hafi Íslandsbanki réttinn sín megin.  Málssókn á hendur Íslandsbanka mun ekki skila neinum árangri, því allt eins getur maðurinn árangurslaust stefnt Arion banka, eða Landsbankanum.  Þeir aðilar komu ekkert nærri þessum gjörningi frekar en Íslandsbanki, því miður.  Viðskiptin voru uppgerð áður en Íslandsbanki varð til og tók við skuldbindingum Glitnis hins gamla með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Samningurinn var því ekki lengur til staðar ólíkt þeim lánasamningum sem voru gagngert færðir til hins nýja banka við bankahrunið. 

Líklega er eina leiðin fyrir manninn að kæra stjórnendur gamla Glitnis, þ.e. stjórn bankans og bankastjóra, fyrir fjársvik og fjárdrátt.  Mér skilst að skilyrði fyrir slíku er að hinum brotlega, hér stjórnendum Glitnis, mátti vera ljóst að gengistrygging lána væri ólögmæt aðferð við verðtryggingu lána í íslenskum krónum.  Bankinn, og stjórnendur hans, hafi vakið villu hjá neytenda við samningsgerð, hvort sem það var viljandi eða óviljandi.  Samningur með slíku ákvæði er þess vegna fjársvik því vakin var villa hjá brotaþola, neytandanum, að samningurinn hafi verið löglegur.  Forsendur lögbrotsins er að villa hafi verið að vera til staðar hjá brotaþola, sbr. 248.gr. hegningarlaga:

" 248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum."

Þegar svo hinn brotlegi tekur við greiðslum á grundvelli slíks samnings, en má vera ljóst að greiðslan er á misskilningi byggð, ber honum að leiðrétta mistökin, ella gerist hann sekur um fjárdrátt.

Glitnir hinn gamli hefði því í fyrsta lagi aldrei átt að krefjast, eða taka við greiðslunni, og í öðru lagi hefði átt að skila greiðslunni, eða leiðrétta, þegar hún var móttekin.

Uppgjörið eins og það var framkvæmt var því fjárdráttur.  Á slíkum gjörningi bera fyrrum stjórnendur bankans ábyrgð, og þá á að kæra til sérstaks saksóknara fyrir fjársvik og fjárdrátt.


mbl.is Fær ekki leiðréttingu mála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#133. Fraktflugvélar orðnar að einkaþotum?

Fyrirsögn og niðurlag þessarar fréttar er ansi broslegt fyrir þá sem þekkja til. Orðið risaþota er að öllu jöfnu notað yfir mjög stórar þotur eins og Boeing 747 eða 777, og Airbus 330, 340 eða 380. Enginn íslenskur auðmaður hafði aðgang að svoleiðis vél í einkaþágu að mínu viti. Vélarnar sem Darling var bent á í Luxembourg sem íslenskar voru líklega vélar frá Air Atlanta í reglubundnu viðhaldi hjá Cargolux eða í leiguverkefnum fyrir Cargolux. Þá er venjulega aðeins ein flugvél á flugbraut hverju sinni. Sé þetta bein þýðing á textanum í bók Darlings er greinilegt að hann eða ráðgjfafi hans veit ekki mikið um flugvélar eða flugrekstur. Orðræða hans um íslenksar risaþotur sem einkaþotur er því villandi svo ekki sé meira sagt.
mbl.is Ríkir Íslendingar og risaþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband