#2. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 1. hluti
31.3.2010 | 23:52
Þegar bílasamningur SP er krufinn og skoðaður með lagabálkana sér við hlið má sjá ýmsa annmarka sem vekja upp ótal spurningar sem ekkert gengur að fá svör við frá SP-Fjármögnun hf.
SP hefur starfsleyfi skv. lögum númer 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 20.gr.laganna telur upp þá liði sem eftirlitsskyldur aðili þarf að sækja um fyrir sitt starfsleyfi. Skv. upplýsingum FME felur starfsleyfi SP þetta í sér:
Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi í formi skuldaviðurkenninga,sbr.b-liður 1. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, sbr.2. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Eignarleigustarfsemi sem aðalstarfsemi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, annarra en innlána, sbr. 1. tl.1.mgr. 20. gr. fftl.
Útlánastarfsemi, sbr. a-d liður 2. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.
Fjármögnunarleiga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.
Takið eftir að 7. tl. 20. gr. er ekki upptalinn en hann hljóðar svo:
Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
b. erlendan gjaldeyri,
c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
e. verðbréf.
[Viðbót 1.maí] Má SP-Fjármögnun hf. þar með bjóða upp á gengistryggð myntkörfulán? Ég efast um það!
En hvað eru endurgreiðanlegir fjármunir? Ég hef ekki fundið íslenska skilgreiningu á þessu hugtaki, en hollensk skilgreining á endurgreiðanlegum fjármunum hljóðar svo:"repayable funds are funds that must be redeemed at some point, for whatever reason, and regarding which it is clear beforehand which nominal sum should be repaid". Skilgreininguna er að finna á vef De Nederlandsche Bank (DNB): http://www.dnb.nl/openboek/extern/id/en/cl/41-157459.html og er hér vísað í The Financial Supervision Act í Hollandi (Wet op het financieel toezicht / Wft)
Lauslega snarað á ástkæra ylhýra: endurgreiðanlegir fjármunir er fé (fjárkrafa?) sem skal endurheimt á einhverjum tímapunkti, þar sem það er skýrt fyrirfram hvaða nafnvirði (höfuðstól?) skal endurheimta." Ég tel þetta vera rök á móti gengistryggingu höfuðstóls, þar sem að með slíkri gengistryggingu er ekki skýrt í upphafi samnings hvað eigi að borga til baka, og er þar með brot á starfsleyfi sem tekur til móttöku endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
Flokkur: Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 1.5.2010 kl. 15:36 | Facebook
Athugasemdir
Það er bara alveg á hreinu að þegar að á reynir í þessum málum, þá var dæmið í upphafi enganveginn hugsað til enda. Eins og með svo margt í þessu landi. Það er rokið í alls konar nýjungar og teknar upp nýjar leiðir hvort sem það er í fjármögnun eða einhverju öðru og aldrei gert ráð fyrir því hvernig eigi að vinna úr málum ef óvenjulegar aðstæður koma upp. Svo þegar að við búum í svona fámennu landi þá eru breyttar aðstæður i þjóðfélaginu svo fljótar að skila sér í út í þjóðfélagið okkar. Af því að við erum svo fljót að tileinka okkur nýjungar og breytingar. Annað en stóru milljóna þjóða löndunum þar sem bara smá hluti þjóðarinnar tekur þátt. Enda er oft vísað til Íslands í hagfræðinni út í heimi um afleiðingu breyttrar aðstæðna.
Fjármálafyrirtæki VERÐA að vera með höggþétta reglugerð til að geta tæklað venjuleg og óvenjuleg mál sem koma upp. En því miður þá eru nálægð og tengsl manna í þessu litla þjóðfélagi okkar að menn komast upp með ófullkomið kerfi af því að þeir eru kunningjar og innundir hjá réttu mönnunum. Erfitt að ná höggstað eða draga menn til ábyrgðar og saka fyrir ófullnægjandi starfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur gjörsamlega gert í buxurnar svo lengi sem það hefur verið til.
Anna Viðarsdóttir, 1.4.2010 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.