#8. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 5. hluti

Í síðustu færslu ræddi ég framvirka samninga og skort á heimildum SP Fjármögnunar til viðskipta með slíka samninga. Til að ljúka þessum hugleiðingum um heimildir SP skulum við halda áfram og skoða fyrrnefndan d-lið, gengisbundin bréf.  Með hugtakinu gengisbundin bréf er væntanlega átt við viðskiptabréf, því væntanlega eru ekki nein annars konar bréf gengisbundin.  Vaknar þá sú spurning, er neytendalán í formi bílasamnings ekki hreint og klárt viðskiptabréf? 

En fyrst, hvað er viðskiptabréf?  Sama tölvutæka orðabók Menningarsjóðs og fyrr hefur verið nefnd segir svo:  

Viðskiptabréf: 

1. bréf um viðskiptamál, verslunarbréf;

2. [viðskipti/hagfræði] verðbréf sem ganga manna á meðal í viðskiptum eins og skuldabréf og sérstakar reglur gilda um í sambandi við framsal (t.d. víxlar og tékkar).

Ok, en gröfum aðeins dýpra.  Lögorðabók með skýringum segir svo:  „Viðskiptabréf: Öll þau verðbréf sem ganga manna á milli í viðskiptum og lúta svonefndum viðskiptabréfsreglum. Fyrirmæli um að tiltekin bréf skuli teljast viðskiptabréf geta komið fram í settum lögum með beinum eða óbeinum hætti. Í öðru lagi telst bréf viðskiptabréf ef það hefur að geyma þá eiginleika sem einkenna viðskiptabréf almennt. Í þriðja lagi er unnt að semja um að skjal, sem að öðru jöfnu teldist ekki viðskiptabréf, skuli hlíta viðskiptabréfsreglum.  Viðskiptabréf stofnar rétt eftir hljóðan sinni. Við framsal viðskiptabréfs fær því framsalshafi þann rétt er bréfið segir framseljanda eiga. Framsalshafi þarf aðeins að kynna sér efni bréfsins en þarf ekki að rannsaka þau viðskipti sem á bak við liggja. Þau viðskiptabréf  sem mest eru notuð í viðskiptum nú um stundir eru, víxlar, tékkar, skuldabréf, hlutabréf, farmskírteini og hlutdeildarskírteini. Sjá einnig viðskiptabréfsreglur."

Sama lögorðabók útskýrir viðskiptabréfsreglur svona: "Viðskiptabréfsreglur: Sérreglur um viðskiptabréf sem mæla fyrir um að þess háttar bréf stofni rétt eftir hljóðan sinni. Grandlaus framsalshafi fær almennt þann rétt sem bréf bendir til að framseljandi eigi. Framsalshafi þarf aðeins að kynna sér efni bréfsins en þarf ekki að rannsaka þau viðskipti sem á bak við liggja. Leiðir af þessu að framsalshafi getur öðlast meiri rétt en framseljandi raunverulega átti. Viðskiptabréfsreglur miða að því að gera viðskipti um viðskiptabréf sem öruggust og tryggust."

Sigurður Gizurarsson lögmaður, þá bæjarfógeti á Akranesi, ritaði grein um viðskiptabréf í 1.tbl. Úlfljóts árið 1988.  Þar notar hann skilgreiningu á hugtakinu, viðskiptabréf, úr 965. grein svissnesku kröfuréttarlaganna: "Verðbréf er hvert það skjal, sem þess konar réttur er tengdur, að honum verður ekki framfylgt án skjalsins, né heldur er unnt án skjalsins að framselja hann öðrum."  

Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að SP framfylgir sínum kröfurétti á undirrituðum bílasamningum, sem eru þá viðskiptabréf eða hvað?  Og fyrirtækið má ekki eiga viðskipti með gengisbundin bréf.  Er þá ekki orðið ljóst, eftir skoðun á liðum b.-d. 7 tl. 20.gr laga um fjármálafyrirtæki, og að SP getur ekki átt viðskipti með erlendan gjaldeyri, getur ekki átt viðskipti með framvirka samninga, s.s. gjaldmiðlasamninga, og getur ekki heldur átt viðskipti með gengisbundin bréf, svo sem gengistryggða lánasamninga, þar sem þessir liðir eru ekki hluti af starfsleyfi fyrirtækisins?

Er ekki þar með ljóst að þar með verða allir löggerningar sem SP tengist að vera í íslenskum krónum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband