#27. Hvað á að gera í stað gengistryggingar?

Í raun er það ekki flókið úrlausnarefni því 36.gr. samningalaganna segir í raun hvað eigi að gera.  Neytendur geta gert kröfu til að samningurinn gildi áfram utan gengistryggingarákvæðis.  Hvað á ég við?

Samningalögunum var breytt 1995 með setningu laga nr. 14, til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE um óréttmæta samningsskilmála í neytendassamningum.  Í henni segir berum orðum í fororði: 

„Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar." 

Og ennfremur:

 „Í bandalagsáætlununum tveimur um neytendavernd og miðlun upplýsinga (4 ) var lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja rétt neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum. Þessa vernd þarf að veita með laga- og reglugerðarákvæðum sem eru annaðhvort samræmd á bandalagsvísu eða samþykkt beint af bandalaginu." 

Og síðar: 

Samningar skulu orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli, neytandi skal fá tækifæri til þess að skoða alla skilmála og í vafamálum gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best. 

Aðildarríkin skulu tryggja að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur og ef slíkir skilmálar finnast þrátt fyrir allt, þá séu þeir ekki bindandi fyrir neytendur og samningur verði áfram bindandi fyrir samningsaðila með þessum skilmálum ef hann getur gilt áfram án hinna óréttmætu ákvæða." 

Og þarna komum við því að lykilatriðinu.  Getur lánssamningur, sem upphaflega var gengistryggður, verið efndur að kröfu neytenda, skv. 36.gr. c. samningalaga, án gengistryggingar?  Með öðrum orðum, getur neytandi efnt samninginn án gengistryggingar?  Svarið er einfalt:  Já, neytandi getur efnt samninginn að mínu mati því hann þarf að borga LIBOR vexti eins og um var samið í upphafi, því það má semja um annað vaxtaviðmið en Seðlabanki gefur út.  

En af hverju má ekki setja inn annað vaxtaviðmið sem hefði líklega átt að vera, s.s. verðtrygging eða óverðtryggðir vextir Seðlabanka.  (Þeim sem leiðist lagatextar ættu að staldra við rauðletraða textann hér á eftir.)

Samningalög segja í 36.gr.: „Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c].1) Hið sama á við um aðra löggerninga." 

Skoðum þá c-lið 36.gr.:

36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
 Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist.  Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.  
(Innsk: Sem sagt ekki má reikna annað vaxtastig en samið var um í upphafi ef það sé neytanda í óhag.)
 Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. 

Takið eftir kröfu neytanda, því það er mikilvægt því á þessu tekur c-liður 36.gr. samningalaganna eftir breytinguna sem var gerð 1995 neytendum til hagsbóta.  Ekki atvinnurekendum.

Við samningsgerð var lántakendum afhent fylgiskjal með greiðsluáætlun.  Á greiðsluáætluninni kemur fram árleg hlutfallstala kostnaðar.  Það er lagaleg skylda lánveitanda að upplýsa um þessa hlutfallstölu til þess að lántaki geti borið saman ólíka fjármögnunarkosti.  Lægsta hlutfallstala kostnaðar segir til um hagstæðasta kostinn.

Lög um neytendalán segja skýrt í 14.gr að lánveitanda sé óheimilt að innheimta hærri heildarkostnað láns en kynntur er í upphafi samnings:  Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar." 

Heildarlántökukostnaður má því einungis breytast ef umsamið vaxtastig breytist eða lögmæt verðtrygging.

Að ofangreindu sögðu geta lántakar gengistryggðra lána líklega krafist þess að það vaxtaviðmið gildi, sem um var samið í upphafi.  Neytendur eiga því að gera kröfu til viðkomandi fjármögnunarfyrirtækis, þess efnis að samningurinn eins og hann var framsettur í upphafi með árlegri hlutfallstölu kostnaðar, gildi.  Ekki á að reikna annað vaxtastig í ljósi sanngirniskröfu fjármögnunarfyrirtækjanna.

Fjármálafyrirtækin, sem sérfróðir aðilar um fjármagnsmarkað, áttu að vita betur en bjóða upp á ólöglega gjörninga.  Og þau vissu raunar betur sé tekið mið af bréfi Guðjóns Rúnarssonar framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja til viðskiptanefndar, fyrir setningu laga um vexti og verðtryggingu árið 2001. 

Því er hvorki sanngjarnt né lögmætt að neytendur beri hallann af því að lánveitandi fái að reikna annað vaxtastig, og þar með hærri hlutfallsstölu kostnaðar, en samið var um í upphafi.  Fari svo að lög verði sett til að gefa aðra niðurstöðu en að ofan er greint gætu neytendur átt rétt á bótum frá ríkinu að mínu mati.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband