#29. Man einhver eftir eignaleigunni Lind hf?
24.6.2010 | 16:44
Eignarleigan Lind hf. var stofnuð árið 1986 og voru stofnendur félagsins Banque Indosuez (40%), Samvinnubanki Íslands (30%) og Samvinnusjóður Íslands (30%). Við kaup Landsbankans á Samvinnubankanum í upphafi árs 1990 eignaðist bankinn 30% eignarhlut í Lind hf. Í lok sama árs keypti bankinn 40% eignarhlut Banque Indosuez í Lind hf. Á árinu 1992 keypti Landsbankinn eignarhlut Samvinnusjóðs Íslands í Lind hf. og varð bankinn eftir það eini eigandi félagsins.
Um mitt árið 1990 var svo komið fyrir Lind að félagið uppfyllti þá ekki skilyrði laga um eigið fé. Félagið hafði verið rekið á sérstakri undanþágu viðskiptaráðuneytisins, skv. heimild til bráðabirgða í lögum nr. 19/1989. Sú heimild rann út hinn 4. október 1990, og þar með starfsleyfi félagsins, án þess að bætt hefði verið úr eiginfjárvöntuninni. Eigið fé félagsins var síðan aukið um 115 millj. kr. í lok desember 1990 og komu 80,5 m.kr. í hlut Landsbankans. Uppfyllti félagið þar með lágmarkshlutfall eigin fjár skv. lögum nr. 19/1989 og staðfesti viðskiptaráðuneytið í framhaldi af því að starfsleyfi félagsins væri í gildi, með bréfi dags. 23. janúar 1991.
Sverrir Hermannsson sagði í blaðaviðtali við Morgunpóstinn árið 1994: Lind hefur stórtapað, og bankinn á hundrað prósent í Lind svo tap fyrirtækisins er tap bankans."
Mikið var fjallað um málefni fyrirtækisins í bankaráði Landsbankans á þeim tíma til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni. Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins.
Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýringanna er að leita í þeirri megin hugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins. Hún var að fjármagna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum. Þegar félagið hóf rekstur var mikil uppsveifla í efnahagslífinu og vextir á eignarleigusamningum voru mjög háir. Hugmyndin virtist þannig ganga vel upp.
Rekstrarhugmynd sú sem félagið byggði á gerði miklar kröfur til framkvæmdastjóra félagsins. Jafnframt er slíkur áhætturekstur mjög viðkvæmur fyrir áhrifum efnahagssveiflna. Í skýrslu Löggiltra endurskoðenda hf. frá 7. febrúar 1995 segir að þótt vinnubrögð við lánveitingar hafi breyst mikið til batnaðar á sl. tveimur árum, beri tölur með sér að alvarlegir misbrestir hafa verið í útlánaferli og eftirfylgni félagsins með útlánum um langt skeið. Verulegan hluta af ábyrgðinni höfðu skýrsluhöfundar getað rakið til ákvarðana fyrrum framkvæmdastjóra félagsins.
Þó er rétt að geta þess að Lind hf. var að stórum hluta í eigu Samvinnubankans og Samvinnusjóðsins, og tók það þátt í fjármögnun á tólum og tækjum í eigu Sambandsins, þar á meðal t.d. öllum innréttingum Miklagarðs. Þesar innréttingar voru seldar fyrir slikk við fall Sambandsins. Þannig að ekki var öll starfsemin eingöngu tengd bílalánum og vinnuvélum. Áætlað tap Lindar hf. vegna falls Sambandsins var á tveimur árum 215 milljónir króna. Stórir peningar fyrir 20 árum en smámunir í dag. Hvað segir það okkur um krónuna okkar?
Féfang hf. var annað eignaleigufyrirtæki, stofnað í lok árs 1986 af Fjárfestingarfélaginu sem hafði verið brautryðjandi í gerð kaupleigusamninga hér á landi en félagið hafði boðið upp á þá allt frá árinu 1972. Fjárfestingarfélagið átti meirihluta í Féfangi, eða 67% en Lífeyrissjóður verslunarmanna, Tryggingarmiðstöðin og Verslunarbankinn áttu um tíu prósent hver auk Sparisjóðs vélstjóra sem átti um eitt prósent. Þegar Skandia keypti Verðbréfamarkað Fjárfestingarfélagsins 1994 var Féfang selt til Íslandsbanka og í febrúar 1995 voru Glitnir og Féfang sameinuð undir nafni Glitnis.
Á síðustu árum hefur SP-Fjármögnun verið rekið með umtalsverðum hagnaði, alla vega miðað við bækur félagsins. Heiðurinn af þessum hagnaði á framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi, Kjartan Georg Gunnarsson, sem áður stýrði fyrrnefndu Féfangi hf. Hagnaðurinn er hins vegar að mestu tilkominn með ólöglegri starfsemi, veitingu gengistryggðra lána. Gerir það framkvæmdastjórann og stjórnarmenn að glæpamönnum? Þeir báru ábyrgðina á að starfsemi félagsins væri lögum samkvæmt. Stjórnarformaður um langt skeið var Þorgeir Baldursson, fyrrum aðalpeningasafnari Sjálfstæðisflokksins, og eigandi Kvosar hf. sem á m.a. fjölskyldufyrirtæki Þorgeirs, Prentsmiðjuna Odda. SP-Fjármögnun hf. hefur einnig stundað umtalsverð viðskipti með framvirka gjaldmiðlasamninga til að verja sig gengisáhættu í rekstri þess, gengisáhættu sem þó var nánast öll á viðskiptamönnum þess þar til Hæstiréttur felldi sinn dóm um lögmæti þessara lána. Telst það eðlilegur hluti af eignaleigustarfsemi að sýsla í stórum stíl með gjaldeyri (ef það þá gerðist) og framvirka gjaldeyrissamninga, og taka þar með stöðu gegn hagsmunum viðskiptamanna sinna, hvort sem um gengistryggð eða verðtryggð lán var að ræða?
Hver er þá framtíð SP-Fjámögnunar hf.?
Framburður framkvæmdastjóra og ársskýrslur fyrirtækisins segja að útlán félagsins hafi verið fjármögnuð með lánum frá móðurfélaginu, Landsbankanum, (nú nefndur NBI). Skv. ársreikningi fyrir 2007 nam eiginfjárhlutfall 11,3% í árslok 2007. Lögbundið hlutfall er 8% af áhættugrunni lesi ég 84.gr. laga um fjármálafyrirtæki rétt.
Hvernig er þá staða SP í dag?
Alveg eins og tap Lindar hf. á sínum tíma var tap Landsbankans, var gróði SP-Fjármögnunar hf. gróði eigenda hans, Landsbankans. Gróði þessi, 960 milljónir árið 2007 og 803 milljónir 2006, varð að til með ólöglegum lánagjörningum, gengistryggðum lánum sem voru 80-90% af viðskiptum félagsins. Lánagjörningar sem voru samsettir, eða hið minnsta samþykktir, af stjórn SP-Fjármögnunar hf., hvar í sátu föngulegur hópur fólks, m.a.fulltrúar Landsbankans, þ.á.m. Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir, fyrrum bankastjórar hans og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrum sparisjóðstjóri BYRs hf.
Við dóm Hæstaréttar tapaði fyrirtækið líklega um 50% af bókfærðu virði eignasafns síns, eignasafns sem væntanlega var veð lánardrottna þess við lánum fyrirtækisins. Er eigið fé SP þar með nægjanlegt eftir slíkt tap til að fullnægja lögbundnu eiginfjárhlutfalli? Ég leyfi mér að stórefast um það en tek þó fram að ég er hvorki lögfræði- né viðskiptafræðimenntaður maður. Skv. lögunum er það skylda stjórnenda að tilkynna FME þegar í stað ef ástæða er til að ætla að lögbundnu hlutfalli sé ekki fullnægt í rekstri fjármálafyrirtækis. Sama tilkynningarskylda hvílir á endurskoðanda fjármálafyrirtækis. Einnig getur FME kallað eftir reikningsuppgjöri fjármálafyrirtækis og óskað eftir að slíkt uppgjör sé áritað af endurskoðanda þess. Fréttir herma að FME sé að skoða eiginfjárhlutfall fjármögnunarfyrirtækjanna. Eigendur Lýsingar, Exista, hafa tæpast neina möguleika á að bjarga því fyrirtæki með hlutafjáraukningu reynist þörf á því.
Endurtekur sagan sig?
Eru það örlög SP-Fjármögnunar að renna inn í NBI, á komandi mánuðum, alveg eins og örlög Lindar hf. voru árið 1994 með samruna þess við Landsbankann? Mun NBI/Landsbankinn þar með ganga í gegnum annað eignaleiguævintýri, eignast allt lánasafn SP-Fjármögnunar hf. og senda skattborgurum reikninginn? Og er þar með sagan öll?
Hagkerfið þolir ekki samningsvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð grein hjá þér. Sagan virðist endurtaka sig hér á landi, aftur og aftur.
Sumarliði Einar Daðason, 24.6.2010 kl. 16:52
Nei sagan er þar með ekki öll.
SP Fjármögnun hafði hvorki starfsleyfi til viðskipta með gjaldeyri, framvirka samninga, né gengistryggð verðbréf. Í bókhaldið vantar þar að auki mikið magn vsk. reikninga vegna sölu á bifreiðum gegn kaupleigusamningi, og leikur því vafi á hvort rétt hafi verið skilað til skatts. Fyrirtækið hefur gerst brotlegt við lög um fullnustuaðgerðir með vörslusviptingum án opinbers úrskurðar þar að lútandi, og svona mætti lengi telja. Þegar öll brotin eru upp talin verða þau líklega efni í heila bók. Hvort sem fyrirtækið fer á hausinn eða ekki þarf að senda þangað inn lögreglulið til að handtaka forsprakkana og loka sjoppunni, helst sem fyrst! Hvergi nema í banalýðveldi myndu þessir menn halda störfum sínum á meðan fullt af heiðvirðu og vel gefnu fólki gengur atvinnulaust.
Frábær grein Erlingur, takk fyrir að rifja þetta upp fyrir okkur sem erum of ung til að muna svona langt aftur. ;)
Guðmundur Ásgeirsson, 25.6.2010 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.