#64. Svikin staðfest
16.9.2010 | 21:15
Þar er sagt frá manni sem var stöðvaður af lögreglunni á Selfossi. Við nánari skoðun kom í ljós að maðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og mun hann verða kærður fyrir ölvunarakstur, akstur sviptur ökurétti og hegningarlagabrot með því að hafa notað ófalsað skjal í blekkingarskyni.
Þarna er eitt af brotum mannsins að hafa notað ófalsað skjal í blekkingarskyni! Nákvæmlega þetta hafa íslenskar fjármálastofnanir gert á undanförnum árum og framið hegningarlagabrot með hliðsjón af ofangreindri frétt.
Ófölsuð greiðsluáætlun er notuð í blekkingarskyni í samningum við neytendur, þeim gerð grein fyrir lánakjörum sem stóðust ekki lög, lánasamningar voru ólöglegir og villandi, og nú hefur Hæstiréttur leyft að slíkum lánakjörum sé breytt eftir á neytendum í óhag, þvert ofan í c-lið 36.gr.samningalaga.
Við samningsgerð var neytendum afhent greiðsluáætlun enda er það skylda lánveitanda að afhenda slíka áætlun við samningsgerð um neytendalán, til að neytendur geti borið saman mismunandi lánasamninga. Lánveitanda er óheimilt að innheimta vexti eða lánakostnað sem ekki er tilgreindur í samningi, sbr. 14.gr. laga um neytendalán. Miðað við dóm Hæstaréttar er þetta skjal, greiðsluáætlun, algjörlega marklaust og hefur ekkert gildi. Fjármálafyrirtækin mega greinilega bara setja fram einhverja þvættingsáætlun, byggða á ólöglegum forsendum, en þurfa ekki að standa við hana að öðru leyti, frekar en hún væri notaður klósettpappír. Hver er þá tilgangurinn með slíku skjali? Tilgangur ESB var alla vega neytendavernd en það skilar sér ekki í framkvæmd slíkra laga á Íslandi.
Þegar viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna gengu til samninga um gengistryggð lán voru þeir blekktir. Viljandi eða óviljandi, það sem stendur upp úr er að neytendur voru blekktir til ólöglegra viðskipta! Viðskipta, sem nú hafa fengið nýja og allt aðra og óhagstæðari stöðu en samið var um. Stöðu, sem neytendur hefðu hugsanlega aldrei haft vilja til að koma sér í ef ekki hefði verið haft rangt við í upphafi. En nú situr almennur neytandi uppi með svikin staðfest af Hæstarétti. Fjármálafyrirtækin hafa algjörlega frítt spil. Mega greinilega gefa út hvaða vitleysu sem er, enda sérfróður aðili, en bera á henni enga ábyrgð því dómsvaldið leysir þá úr snörunni. Snöru sem þeir nú setja á neytendur.
Þetta er ótrúlegt staða. Neytendaverndartilskipun Evrópusambandsins, nr. 93/13/EBE, innleidd með breytingu á 36.gr. laga um samningsgerð frá 1936, hefur ekkert að segja í Hæstarétti! Dómur dagsins bætir ekki siðferði í íslensku fjármálakerfi.
En er ríkið að einhverju leyti bótaskylt? Í tilskipuninni segir að aðildarríki eigi að sjá til þess að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur og ef slíkir skilmálar finnast þrátt fyrir allt, þá séu þeir ekki bindandi fyrir neytendur og samningur verði áfram bindandi fyrir samningsaðila með þessum skilmálum ef hann getur gilt áfram án hinna óréttmætu ákvæða. Íslenska ríkið stóð ekki við skyldu sína og kom ekki í veg fyrir óréttmætir samningsskilmálar væru settir í neytendasamninga. Raunar brást ríkið ekki við á neinn hátt þrátt fyrir að bent væri á slíka óréttmæta skilmála! Er það þá þar með orðið bótaskylt?
Staðfesti dóm héraðsdóms | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En er ríkið að einhverju leyti bótaskylt? Í tilskipuninni segir að aðildarríki eigi að sjá til þess að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur
Lastu skýrslu Bifrestingana sem sögðu að Neytendastofa gæti vissulega verið skaðbótaskyld vegna þessara lána (sem gæti einnig útskýrt vandræðagang embættisins í úrskurðum of.l.). Spurning um að nota nýju hópmálsóknarlögin og fara í mál við Neytendastofu.
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 16.9.2010 kl. 21:53
Hér er hún.
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 16.9.2010 kl. 21:54
Ég linkaði á þig í þessari færslu.
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 16.9.2010 kl. 21:55
Hver er sekur? Seljandi og útgefandi gallaðs skuldabréfs (lántaki) eða kaupandi (fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, félög, fyrirtæki og einstaklingar)? Sá sem selur og fær greitt í topp eða kaupandinn sem fær ekki greitt samkvæmt samningnum sem hann keypti? Hver ber ábyrgð á galla söluvöru? Hvenær er seljandi neytandi?
Greiðsluáætlanir eru með fyrirvörum og miðast bara við forsendur eins og þær eru á þeim degi. Greiðsluáætlanir hafa sama gildi og veðurspár. Þú átt ekki kröfu á veðurstofuna þó það rigni óvænt á grillsteikina.
sigkja (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 12:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.