#94. Hæstiréttur dæmir banka brotlegan.

Í dag féll athyglisverður dómur í 11. Hæstarétti Þýskalands (Bundesgerichtshof) í máli Deutsche Bank og Ille Papier vegna vaxtaskiptasamninga á milli aðila.  Dómurinn er ekki kominn á vef þýska Hæstaréttarins þegar þetta er ritað. 

Ég reyndi þó að rýna í fréttatilkynningu á þýsku til að reyna fræðast meira um niðurstöðurnar með því að snara textanum yfir á ensku með aðstoð Google Translate og ég vona að ekki sé rangur skilningur lagður í dóminn.

Að mínu mati kemst dómurinn m.a. að þeirri niðurstöðu að við samningsgerðina hafi DB ekki sinnt ráðgjafahlutverki sínu með fullnægjandi hætti.  Við gerð samningsins taldist stórkostlegur hagsmunaárekstur hafa verið til staðar lántaka í óhag.  Er það álit 11. Hæstaréttar að banki eigi að spyrja viðskiptavin hvaða ráðgjöf hann hafi fengið þegar um áhættusöm viðskipti er að ræða nema ef viðskipti aðila hafa staðið um langan tíma eða nýleg viðskiptasaga er þekkt.  Einnig telur 11. Hæstiréttur að þrátt fyrir diploma nám í hagfræði taldist viðskiptavinurinn, prókúruhafi fyrirtækisins, ekki hafa haft þekkingu til að meta áhættuna sem í viðskiptunum lá með svo flókna fjármálaafurð eins og vaxtaskiptasamningar eru.  Dómurinn setur ríka kröfu á bankann að veita fullnægjandi ráðgjöf við gerð flókinna og áhættusamra samninga.  Átti því bankinn að veita ráðgjöf áður en samningurinn var undirritaður.  Þá var tjón bankans takmarkað í samningnum en áhætta viðskiptavinarins var ótakmörkuð og hefði getað leitt til greiðsluþrots hans. 

Deutsche Bank var því dæmdur til að greiða Ille Papier-fyrirtækinu 541.074 Evrur auk vaxta.

Spurningin er hvort þessi dómur hafi fordæmisgildi á Íslandi.  Og hvort hægt sé að heimfæra þessa niðurstöðu þýska dómsins upp á þá gengistryggðu lánasamninga sem hér voru framkvæmdir.

Með vísan í mat 11. Hæstaréttarins þýska, um hæfi prókúruhafa Ille Papier með sína hagfræðimenntun, má spyrja sig voru íslenskir neytendur einfaldlega hæfir til að meta áhættu gengistryggðra lánasamninga með fullnægjandi hætti?  Og að sama skapi voru starfsmenn og stjórnendur íslensku fjármálafyrirtækjanna hæfir til að meta áhættu viðskiptavina sinna við gerð slíkra samninga þó löglegir væru? 

Mér er til að mynda til mikilla efa að einhver viðskiptasaga hafi yfirhöfuð verið til staðar til að meta þekkingu viðskiptavinar á slíkum viðskiptum.  Alla vega ekki hvað bílalán varðaði.  Var viðskiptavinum veitt fullnægjandi ráðgjöf vð gerð slíkra samninga?  Ég efa það.  Í mörgum tilvikum var starfsmaðurinn sem rætt var við sennilega ekki með mikla þekkingu umfram viðskiptavininn. 

Sama átti sennilega við vegna húsnæðislána.

Því má líklega með sanni segja að miðað við dóm þýska Hæstaréttarins að skaðabótaskylda liggi hjá öllum íslensku fjármálafyrirtækjunum sem buðu gengistryggða lánasamninga þvert á lög um vexti og verðtryggingu og veittu ónóga ráðgjöf um áhættuna við gerð slíkra samninga.


mbl.is Úrskurður hristir upp í þýska bankakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband