#130. Of fáir leita réttar síns

Nýlega átti ég langt samtal við þekktan lögfræðing.  Hann sagðist iðulega fá símtöl frá fólki sem er með áður gengistryggða lánasamninga.  Flest þessara símtala eiga það sammerkt að spurt er hvað sé að gerast í þessu og hinu málinu.  Hvort hann sé ekki að vinna í að redda þessu.  Ég hafði líka staðið í þeirri trú að svo hafi verið.  En við sumum þessara spurninga er því miður bara eitt svar:  Ekkert.  Það er ekkert eða lítið að gerast í sumum málum.  Ástæðan er sú að enginn hefur leitað til lögmannsins, eða annarra, með þess konar mál sem spurt er um.  Enginn!  Og meðan enginn leitar til lögfræðinga mun ekkert gerast.  Vörslusviptingarnar munu halda áfram, án lagastoðar, eins og nýlegar fréttir RUV um aðfarir SP-Fjármögnunar hf. sýna.  Á meðan enginn gerir neitt.

Ég hef dæmi um mál þar sem lántaki lauk við að greiða upphaflegan lántökukostnað bílaláns um miðjan nóvember 2009 en vegna gengistryggingar var innheimtu haldið áfram á útblásnum höfustól.  Tæpu ári síðar fékk viðkomandi endurreikning hvar eftirstöðvar voru sagðar 700 þús kr.  Viðkomandi hefur aldrei nýtt sér frystingu eða önnur úrræði sem boðið var upp á, heldur ávallt greitt útsendan greiðsluseðil, eins og hann var myndaður.  Frá lántökudegi til júníbyrjunar 2010 er þessi aðili einungis með 1.582 kr. í vanskilakostnað vegna tveggja gjaddaga.  Enn er þó verið að greiða af láninu og á greiðslu af því ekki að ljúka fyrr en í mars 2012.  Þá mun viðkomandi hafa greitt rúma 1,1 milljón kr. betur en samið var um í upphafi að hann ætti að greiða. 

Þetta gengur náttúrulega ekki.  Það er ekki eðlilegt að halda megi innheimtu áfram á útblásnum sýndarhöfuðstól.  Fólk sem hefur greitt meira en samið var um í upphafi verður að standa upp og berjast fyrir rétti sínum.

En það er einmitt málið.  Flestir eru dauðhræddir við að höfða mál af ótta við að standa upp íbúðar- eða bíllausir, og með háan málskostnað á bakinu og allskonar óþægindi að auki.  Sömu aðilum er hins vegar að sama skapi meinilla við að halda áfram að borga greiðsluseðlana sem þeim eru sendir.  En gera það samt í þeirri von, eða trú, að fá leiðréttingu sinna mála seinna.  Enn aðrir nenna ekki að berjast; finnast málin of flókin til að setja sig inn í þau og treysta á að Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, Björn Þorri, Marinó G. Njálsson, talsmaður neytenda Gísla Tryggvason, eða bara að tíminn, reddi þessu.  Að auki getur málarekstur fyrir dómstólum kostað mikla peninga, þó að málið vinnist.  Fólk í greiðsluerfiðleikum á ekki slíka peninga.

En á þetta spila fjármálafyrirtækin. 

Og hvað ætlar fólk þá að gera?  Naga neglurnar seinna yfir að hafa ekkert gert til að sækja rétt sinn?  Lögmenn taka ekki upp hjá sjálfum sér að höfða mál.  Til þess þarf skjólstæðing, helst einhvern sem getur borgað á einhverjum tímapunkti, og það allra mikilvægasta; hefur frumkvæði að leita réttar síns þegar á honum er brotið.  Þessi aðili sem ég nefndi hér að framan er nú að íhuga málssókn á hendur því fjármálafyrirtæki sem svona kemur fram. Fleiri þurfa að gera það sama. 

Ögmundur er í raun að segja að fullveldi Íslands var framselt AGS á meðan samstarfinu stóð. Enginn vilji var til að hjálpa heimilum landsins í þessari erfiðu stöðu. Þau verða að hjálpa sér sjálf.  Og það verður fólk að gera.  Taka til málsgögn, heimsækja lögfræðing og sækja rétt sinn, sjálft.


mbl.is Sjóðurinn vildi ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Þetta er eins og að reyna að finna lögfræðing í himnaríki. Þeir sem ekki eru flúnir hafa tekið sér stöðu með hrægömmunum eða andskotanum sjálfum.

Óskar Guðmundsson, 30.8.2011 kl. 21:34

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Glæpsemin er djúpstæð og rótgróin.

Guðmundur Ásgeirsson, 31.8.2011 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband