#135. Skapar 110% leiðin hagnað bankanna?
16.9.2011 | 00:40
Ég las nýlega skjöl frá Íslandsbanka vegna 110% leiðar fyrir skuldara. Áður en ég las þessi skjöl yfir þótti mér einkennilegt hvers vegna bankinn þarf samþykki skuldara til að hann lækki útblásnar eftirstöðvar lánasamninga. En eftir lestur skjalanna vegna umsóknar um 110% leið hjá bankanum þá áttaði ég mig betur á hvað um er að vera. Íslandsbanki er að fara fram á að skuldari gangist við 110% skuldsetningu fasteignar vegna lána sem bankinn fékk á u.þ.b. helmingsafslætti frá Glitni banka, með því að staðfesta og viðurkenna að eftirstöðvarnar 01.01.2011 hafi verið þær sem tilgreindar eru á umsókn um niðurfærslu fasteignaveðláns. Jafnframt segir að skuldari gefi bankanum heimild til að nota þessar upplýsingar nafnlaust til að endurmeta verðmæti lánasafna bankans. M.ö.o. þá er bankinn að fara fram á að skuldarar samþykki að lánin séu meira virði en bankinn er með bókfært í lánasöfnum sínum í dag.
Farið er fram á að skilað sé með umsókn staðfestu afriti síðustu 3 skattframtala. Hvers vegna þarf bankinn að sjá skattframtöl til að lækka skuldir viðkomandi? Er hann að meta greiðslugetu?
Þá er einnig farið fram á staðfestingu á stöðu eftirstöðva 01.01.2011. Sem sagt skuldarinn á að staðfesta að eftirstöðvarnar er þær sem sagt er að þær séu á umsókninni, til þess að Íslandsbanki eigi verðmætara lánasafn.
Í reynd er því um hækkun á lánunum að ræða en ekki lækkun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, um stofnun efnahagsreiknings Nýja Glitnis, nú Íslandsbanka, segir:
Útlán til viðskiptavina önnur en þau sem tilgreind eru hér á eftir eru færð yfir í nýja bankann á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána.
Það er því almenningur sem er að gefa bönkunum heimild til að endurmeta lánasöfnin eftir þeim gögnum sem undirrituð eru við umsókn um 110% leið sem skapar hagnaðinn. Hér er þvílíkt verið að spila með grandvart fólk að annað eins gerist ekki nema í svæsnustu bíómyndum og viðskiptum mafíósa við undirmálsfólk.
Nú er ég enginn sérfræðingur í að greina ársreikninga fjármálafyrirtækja en ég fæ ekki betur séð en virði lána til viðskiptamanna Landsbankanns hafi hækkað um 60 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Hvað mikill hluti þessa hækkunar má rekja til endurmats á lánasöfnum bankans á lánum til einstalinga í kjölfar 110% leiðar? Líklega um 20 ma. króna. (Sjá árshlutauppgjör Landsbankans bls.16)
Íslandsbanki virðist ekki hafa uppfært lánasafn sitt til einstaklinga ennþá þannig að ég yrði ekki hissa á að hagnaður bankans á seinni ársins verði meiri en á fyrri hluta ársins.
Það verður fróðlegt að sjá.
42,7 milljarðar í hagnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.