#181. Vestrænir andófsmenn
30.7.2013 | 20:12
Þegar ég var yngri, töluvert yngri en ég er í dag, á tímum þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og löngu fyrir tíma internetsins, voru iðulega sagðar fréttir af mönnum eins og Andrei Sakharov. Hann var í fréttum sagður vera sovéskur andófsmaður. Ég minnist þess hve manni þóttu sovésk stjórnvöld miskunnarlaus á þessu tíma. Að halda manni nauðugum vegna skoðana sinna.
Hann var menntaður kjarneðlisfræðingur, sem tók að efast um stefnu Sovétríkjanna á 6. áratugnum og byrjaði á að vekja athygli sovéskra stjórnvalda á sjónarmiðum sínum, m.a. annars á útbreiðslu kjarnorku og prófun kjarnorkuvopna í andrúmsloftinu.
Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1975 fyrir baráttu sína og lýsti Norska nóbelsverðlauna nefndin honum sem talsmanni samvisku mannkynsins" ("a spokesman for the conscience of mankind"). Hann fékk ekki að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna og síðar var honum haldið í útlegð í borginni Gorki, sem nú kallast Nizhny Novgorod, frá árinu 1980 til 1986. Hann fékk hjartaáfall og lést árið 1989, 68 ára að aldri.
Annar maður var Aleksandr Solzhenitsyn. Solzhenitsyn var rithöfundur og sagnfræðingur sem upplýsti umheiminn um sovéska Gulagið og vinnubúðakerfið, þar sem hann dvaldi sjálfur eftir að hafa verið dæmdur til vistar þar árið 1945.
Solzhenitsyn var rekinn frá Sovétrikjunum árið 1974 og sviptur ríkisborgararétti fyrir skrif sín um Gulagið og vistina þar. Hann dvaldi næstu 20 árin í Þýskalandi og Sviss en þó mest í Bandaríkjunum, eða 17 ár, þar til hann sneri aftur til föðurlandsins árið 1994, nokkru eftir fall kommúnsimans.
Hann dó árið 2008 níræður að aldri.
Óþarft er að nefna Nelson Mandela en hann var fangelsaður fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda, og sat í fangelsi í 27 ár vegna þess.
Eftir uppljóstranir Snowden og Manning hefur Bandaríkjastjórn staðið fyrir linnulausum áróðri gegn þeim og kært þá fyrir njósnir, en í dag sýknaði dómstóll Bradley Manning af ásökunum um að hafa aðstoðað óvininn. Voru Sakharov og Solzhenitsyn, og reyndar margir aðrir ónefndir samviskufangar, eitthvað öðruvísi en Snowden og Manning? Er staða Snowden og Manning í grunninn eitthvað frábrugðin stöðunni sem þessir menn voru í? Þeir hafa báðir staðið upp frá störfum sínum, vegna þess að þeim þóttu þeirra stjórnvöld ekki vera að gera rétta hluti, og ráðast m.a. gegn friðhelgi einkalífsins sem svo sterklega er haldið á lofti í heimalandi þeirra. Og er eitthvað rangt við það? Voru Sakharov og Solzhenitsyn ekki líka að vinna gegn óréttlæti sinna stjórnvalda? Er einhver munur á gjörðum þessara manna?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.