Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
#2. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 1. hluti
31.3.2010 | 23:52
Þegar bílasamningur SP er krufinn og skoðaður með lagabálkana sér við hlið má sjá ýmsa annmarka sem vekja upp ótal spurningar sem ekkert gengur að fá svör við frá SP-Fjármögnun hf.
SP hefur starfsleyfi skv. lögum númer 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 20.gr.laganna telur upp þá liði sem eftirlitsskyldur aðili þarf að sækja um fyrir sitt starfsleyfi. Skv. upplýsingum FME felur starfsleyfi SP þetta í sér:
Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi í formi skuldaviðurkenninga,sbr.b-liður 1. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, sbr.2. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Eignarleigustarfsemi sem aðalstarfsemi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.
Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, annarra en innlána, sbr. 1. tl.1.mgr. 20. gr. fftl.
Útlánastarfsemi, sbr. a-d liður 2. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.
Fjármögnunarleiga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.
Takið eftir að 7. tl. 20. gr. er ekki upptalinn en hann hljóðar svo:
Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
b. erlendan gjaldeyri,
c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
e. verðbréf.
[Viðbót 1.maí] Má SP-Fjármögnun hf. þar með bjóða upp á gengistryggð myntkörfulán? Ég efast um það!
En hvað eru endurgreiðanlegir fjármunir? Ég hef ekki fundið íslenska skilgreiningu á þessu hugtaki, en hollensk skilgreining á endurgreiðanlegum fjármunum hljóðar svo:"repayable funds are funds that must be redeemed at some point, for whatever reason, and regarding which it is clear beforehand which nominal sum should be repaid". Skilgreininguna er að finna á vef De Nederlandsche Bank (DNB): http://www.dnb.nl/openboek/extern/id/en/cl/41-157459.html og er hér vísað í The Financial Supervision Act í Hollandi (Wet op het financieel toezicht / Wft)
Lauslega snarað á ástkæra ylhýra: endurgreiðanlegir fjármunir er fé (fjárkrafa?) sem skal endurheimt á einhverjum tímapunkti, þar sem það er skýrt fyrirfram hvaða nafnvirði (höfuðstól?) skal endurheimta." Ég tel þetta vera rök á móti gengistryggingu höfuðstóls, þar sem að með slíkri gengistryggingu er ekki skýrt í upphafi samnings hvað eigi að borga til baka, og er þar með brot á starfsleyfi sem tekur til móttöku endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 1.5.2010 kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#1. Kynning
30.3.2010 | 23:16
Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt og ritað um gengistryggingu lána, lögmæti eða ólögmæti hennar. Þegar ég sem leikmaður, fór að kynna mér málið sem lántakandi, var fyrst eins og ókleifur múrinn stæði rennisléttur fyrir mér og uppgangan vonlaus. Í hugann komu hugsanir eins og: "Þeir hljóta jú að vita hvað þeir eru að gera þessir menn. Hvað þeir mega og eiga að gera og hvað má og ekki má." En er það svo? Vita þeir eitthvað hvað þeir eru að gera? Smám saman fóru að birtast nibbur og sprungur sem mér fannst að athuga mætti betur.
Með þessu bloggi ætla ég mér að benda á nokkur atriði sem ekki hafa farið hátt í umræðunni en vert er að hafa í huga þegar málið er skoðað. Þetta eru atriði sem ég hef leitt hugann að þegar ég hef verið að lesa mér til um málið og haldið til haga fyrir mig. Sum eru jafnvel vanhugsuð, jafnvel röng en ef ég finn þeim ekki farveg í lögum og reglum minnist ég ekki á þau. Vonandi munu þessar hugleiðingar nýtast einhverjum til að halda fram rétti sínum, eða alla vega vekja einhverja til umhugsunar um hver rétturinn sé og sækja sér fróðleik um hann.
Bloggar | Breytt 3.4.2010 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)