Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

#23. Álit lögfræðings SP-Fjármögnunar hf.

Lögfræðingur SP staðfesti í símtali við mig í dag, (26. maí kl 10:25) að fólk myndi ekki fyrirgera rétti sínum til hagstæðari niðurstöðu ef Hæstiréttur dæmir gengistryggingu lána ólögmæta. Hans álit var, að ef að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu ólögmæta væri lánið þar með óverðtryggt og yrði endurreiknað. Þá myndu vextir taka mið af óverðtryggðum vöxtum á lánstímanum og þar með fengist niðurstaða sem væri nálægt þeirri leið sem SP er að kynna í dag. Ég hef ekki reiknað dæmið né séð slíkan útreikning þessu til staðfestingar.

Ég vek athygli fólks á því, að ef Hæstiréttur úrskurðar gengistrygginguna ólögmæta en segir ekkert til um vextina annað en það sem kemur fram í samningi aðila, á stór hluti lántakenda líklega inneign hjá SP. Mitt álit er það, að allar upphæðir sem greiddar hafi verið umfram greiðsluáætlun beri eftir atvikum að greiða út, eða reikna inn á höfuðstól, með dráttarvöxtum eins og þeir voru á hverjum tíma. T.d. sá sem hefur greitt 400.000 kr. meira en greiðsluáætlun sagði til um, síðan haustið 2007, ætti þar með kröfu á SP að upphæð ca. 1,5 millj. kr með áföllnum dráttarvöxtum.

Ég held að fólk ætti bara bíða rólegt eftir niðurstöðu Hæstaréttar í stað þess að ganga til samninga núna korter í dómsúrskurð.


mbl.is SP ríður á vaðið með lækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#22. Dómur Héraðsdóms í vörslusviptingarmáli.

Í dag féll dómur, í máli Lýsingar gegn viðskiptamanni sínum, Lýsingu í vil...... eða gerði hann það?  Málið er aðfararbeiðni vegna vörslusviptingar bifreiðar með aðfarargerð þar sem lántaki hafi ekki skilað bifreið vegna riftunar Lýsingar á samningi, þeirra í millum.  Lýsingu er gert heimilt að endurheimta bifreiðina en innsetningu gerðarinnar er frestað þar til æðra dómstig hefur fjallað um hana verði úrskurði héraðsdóms áfrýjað.  Það þarf varla að hafa mörg orð um það hvort þessu verið áfrýjað.

Þetta er áfangasigur okkar sem höfum barist fyrir að neytendaréttur sé virtur og að yfirgangur eignaleigufyrirtækjanna við harkalega framgöngu gegn viðskiptamönum sínum, verði brotinn á bak aftur.

Dómurinn tekur ekki afstöðu til raka varnaraðilans um ólögmæti gengistryggingarákvæðis samningsins, og er það miður, en stutt er í dómtöku og niðurstöðu Hæstaréttar í samskonar máli.

Það sem mér finnst vanta í málflutning varnaraðila er vísun í 14.gr. laga um neytendalán þar sem kemur fram að lánveitanda er óheimilt að innheimta frekari lántökukostnað en kynntur er í upphafi samnings, sbr. 6.gr. laganna og þá sérstaklega 4. tl.

"6. gr. Við gerð lánssamnings skal lánveitandi gefa neytanda upplýsingar um: 4. Heildarlántökukostnað í krónum, reiknaðan út skv. 7. gr."  Þetta er náttúrulega gert með greiðsluáætlun.

Ennfremur segir í 14.gr. "Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Innheimtur stökkbreyttra afborgana á grundvelli gengistryggingar höfuðstóls í íslenskum krónum gefa klárlega mun hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar en kynnt var í upphafi samnings, og eru en ein rökin gegn innheimtu þessara stökkbreyttu afborgana.

Í frumvarpi til laga um neytendalán árið 1993 var eftirfarandi ákvæði í 23. gr.:

Lánveitandi getur endurheimt hlut á grundvelli kaupsamnings með atbeina sýslumanns ef kaupsamningurinn uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1 . Kaupsamningurinn skal vera undirritaður af lántakanda og honum hefur verið afhent eintak af samningnum.

2 . Kaupsamningurinn verður að kveða á um eignarréttarfyrirvara. Þrátt fyrir samþykki lán takanda er ekki heimilt að endurheimta hlut ef hann er undanþeginn aðför að lögum.

Þá segir í athugasemd nr. 10. við frumvarpið um Endurheimt eignarréttar:

"Samkvæmt tilskipun nr. 87/102 EBE skulu aðildarríki tryggja að þegar hlutir eru seldir með eignarréttarfyrirvara og lánveitandi eða seljandi tekur aftur hlut sem hann hefur selt eigi kaupandinn rétt á því að leysa til sín aftur endurheimtan hlut. Má lánveitandi eða seljandi ekki hagnast óeðlilega mikið á því.

Engar lögfestar reglur eru til um kaupsamninga með eignarréttarfyrirvara þó að slík viðskipti hafi tíðkast lengi hér á landi.

Samkvæmt frumvarpinu getur lánveitandi endurheimt söluhlut með aðför ef kveðið er á um eignarréttarfyrirvara í kaupsamningnum. Ekki er heimilt að endurheimta hlut ef hann er undanþeginn aðför og skiptir þá ekki máli hvort lántakandi hefur samþykkt slíkt."

Í meðförum þingsins var þessari grein breytt til þess að einfalda reglurnar, auk þess sem það þótti óþarft að hafa sérstakar aðfararreglur meðal annarra atriða, væntanlega vegna þess að þessi neytendaréttur var þegar tryggður í lögum um aðför sem enn eru í gildi.  Ég tel að breytingin til einföldunar hafi verið misráðin enda sýnir dómur héraðsdóms það í dag. 

Í tilskipun ráðs Evrópubandalaganna nr. 87/102 EBE segir í 7.gr. að aðildarríki skulu kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess.  Vegna fyrrgreindra breytinga sem gerðar voru á á 23.gr. frumvarpsins árið 1993, er ekki skýrt í lögum nr. 121/1994 um neytendalán hvernig endurheimt hlutar skuli háttað sé neytandi mótfallinn kröfu lánveitanda um endurheimt eignaréttar. Í tilskipun ráðsins kemur einnig fram að aðildarríkin skulu ennfremur tryggja að þegar lánveitandi tekur vörurnar aftur til sinnar eignar, séu reikningar aðila gerðir upp á þann hátt að endurheimting eignar hafi ekki í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun. 

Endurheimt eignaréttar er klárlega aðfararaðgerð.  Má ætla af umsögn nefndarinnar um frumvarpið að hún hafi talið að þáverandi aðfararreglur framsettar í lögum um aðför, sem enn eru í gildi, væru nægjanleg skilyrði til tryggingar neytendaréttar um þetta atriði.  Kemur þar skýrt fram í 4.gr laga að með aðfarargerðir fari sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.

Tilskipunin segir (ennfremur) að í lánssamningum ætti ekki að víkja frá ákvæðum þeim sem samþykkt eru til framkvæmdar þessari tilskipun eða sem svara til ákvæða hennar, verði slíkt neytanda í óhag.  Ekki má setja samningsákvæði þannig fram að farið sé í kringum ákvæði tilskipunarinnar.  Hafi viðskiptanefnd litið svo á með áliti sínu árið 1993, að lög um aðför tryggðu rétt neytenda við endurheimt eignaréttar skv. samningi, verði að líta svo á að vörslusvipting á umráði söluhlutar án atbeina sýslumanns séu andstæð lögum og þar með neytanda í óhag og beri að stoppa.  Sé það ekki stöðvað er hægt að líta svo á að aðildarríki sinni ekki tilskipun ráðsins nr. 87/102/EBE um neytendarétt.

Miðað við niðurstöðu héraðsdóms í dag tel ég tíma kominn á endurskoðun laga um neytendalán enda gæta þau ekki neytendaréttar að fullu.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/05/18/lysing_ma_leysa_til_sin_bil/#


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband