Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
#49. Var SP-Fjármögnun hf. gjaldþrota í árslok 2008?
12.8.2010 | 19:45
Ég hafði samband við Ríkisskattstjóra og óskaði eftir afriti ársreiknings SP-Fjármögnunar hf. fyrir árið 2008. Eintakið kostaði 2.350 kr. og var afhent á PDF formi eins og ég óskaði.
Ársreikningurinn er dagsettur 29. apríl 2009, sama dag og aðalfundur félagsins, og samþykktur af stjórn, en var þó ekki skilað til ársreikningaskrár fyrr en 7.apríl 2010. Þetta er heilu ári of seint því ársreikningi á að skila einum mánuði eftir samþykkt hans. Við lestur skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra kemur fram að mikið tap var á rekstri félagsins árið 2008, eins og við var að búast, eða 30,1 milljarður króna. Í skýrslunni kemur einnig fram að ársreikningurinn er endurgerð fyrri ársreiknings, sem samþykktur var 2.mars 2009. Ástæðan er að fram komu upplýsingar, eftir samþykkt fyrri ársreiknings, sem bentu til þess að mat útlánasafns félagsins væri of hátt og því þurfti að auka gjaldfærslu í ársreikningi sem því nam. Hvaða upplýsingar það voru kemur ekki fram. Þetta er hins vegar áhugaverður vinkill því slitastjórn var ekki skipuð yfir Landsbankanum fyrr en 29.apríl 2009, eða sama dag og endurgerður ársreikningur SP-Fjármögnunar hf. var samþykktur á aðalfundi félagsins. Þann 17. apríl 2009 kemur Marinó G. Njálsson fram með það álit sitt að gengistrygging lána sé ólögmæt. Hvaða upplýsingar höfðu stjórn eða endurskoðendur SP-Fjármögnunar hf. á tímabilinu 2.mars til 7. 17. apríl, um virðisrýrnun útlánasafnsins, sem leiddi til þess að endurgera þurfti ársreikning félagsins? Í áritun óháðs endurskoðanda á endanlega ársreikningnum kemur fram að fyrirvari um rekstrarhæfi félagsins hafi verið felldur niður. Var fyrri ársreikningur þannig áritaður með fyrirvara um rekstrarhæfi SP-Fjármögnunar hf. í árslok 2008? Var SP-Fjármögnun hf. í raun gjaldþrota 3 mánuðum eftir bankahrun?
Við endurgerðina kom fram að lögbundið eiginfjárhlutfall SP-Fjármögnunar hf. var neikvætt um 33,5% í lok ársins 2008, og hafði lækkað úr jákvæðu hlutfalli upp á 11,3% árið 2007! Lögbundið lágmark eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis er 8%. Fyrirtækið var því órekstrarhæft og í raun gjaldþrota í árslok 2008, aðeins 3 mánuðum eftir bankahrun, og hefði átt að missa starfsleyfi sitt sem fjármálafyrirtæki. Ennfremur átti að tilkynna stöðuna til Fjármálaeftirlitsins um leið og stjórnendum eða endurskoðendum var hún ljós. Ekki veit ég enn hvort sú tilkynning var send en hef nýlega sent FME fyrirspurn þar að lútandi. Svar hefur ekki borist þegar þetta er ritað.
Þrátt fyrir þennan árangur félagsins virðist ekkert hafa dregið úr ágóðahlut framkvæmdastjórans fyrir árið 2008, en árstekjur hans jukust um tæp 900.000 kr. á milli ára, úr 36,6 milljónum í 37,5 milljónir. Er þetta þrátt fyrir rekstrartap félagsins upp á 30,1 milljarð á sama tímabili. Það verður athyglisvert að sjá árstekjur framkvæmdastjórans fyrir árið 2009.
Á hluthafafundi félagsins 13. mars 2009 var hins vegar ákveðið að auka hlutafé þess um 800 milljónir að nafnvirði. Var það nauðsynlegt til að halda SP-Fjármögnun gangandi enda eiginfjárhlutfall komið niður fyrir lögbundin mörk. Endurgjald Nýja Landsbankans fyrir hina nýju hluti var krafa bankans á fyrirtækið að upphæð 26.200 milljónir króna! Já: 26,2 milljarðar voru greiddir fyrir 800 milljóna kr. hlutafé með því að afskrifa lán!
Í ársreikningi Nýja Landsbankans fyrir árið 2009, og samþykktur var 8.apríl árið 2010 (daginn eftir að SP skilar ársreikningi fyrir árið 2008 til RSK), kemur fram að ljóst var .... vegna fjárhagslegrar stöðu SP-Fjármögnunar hf. í kjölfar efnahagshrunsins að nauðsynlegt var að endurfjármagna reksturinn félagsins og þar með að færa þyrfti 49 % minnihlutaeignina í SP-Fjármögnun hf. niður í núll.
Bankinn lítur svo á að hann hafi í raun keypt allan eignarhluann í SP-fjármögnun hf. þann 9. október 2008 og færir því ekki hlutdeild minnihluta í félaginu. Formlega var 49 % hluturinn sem eftir var í SP-fjármögnun hf. keyptur á hluthafafundi SP-fjármögnunar hf. þann 13. mars 2009."
Þá átti að leggja fyrir aðalfund félagsins 29.apríl 2009 að auka hlutafé SP-Fjármögnunar hf. um aðrar 280 milljónir, endurgjaldið: 9.170 milljónir króna, tæpir 9,2 milljarðar fyrir 280 milljónir að nafnvirði!!!! Aftur var greiðslan í formi kröfu bankans á fyrirtækið.
Ég fæ ekki betur séð og skilið en að Nýji Landsbankinn hafi því í raun greitt 35,4 milljarða fyrir 1080 milljóna króna hlutafjáraukningu í SP-Fjármögnun hf. á vordögum 2009!
Tryggvi Þór Herbertsson hefur fullyrt að afskriftir lána Nýja Landsbankans hafi að einhverju leyti verið látnar ganga til SP-Fjármögnunar hf. og hvatti mig til að fá þetta staðfest hjá SP-Fjármögnun. Framkvæmdastjóri SP hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum mínum þessu lútandi. Ég ynnti Tryggva álits á ofangreindri túlkun minni varðandi hlutafjáraukninguna og hann taldi þessar upplýsingar úr ársreikningi SP-Fjármögnunar hf. fyrir 2008 renna stoðum undir fullyrðingu sína á Pressunni.
Miðað við ofangreinda upptalningu hafa afskriftirnar farið fram í formi hlutafjáraukningar upp á 1 krónu fyrir hverja 3 aura nafnverðs, eða 330 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs!!! Já, bankastjórn og þáverandi bankastjóri Nýja Landsbankanns, Ásmundur Stefánsson, greiddu 1 krónu fyrir að eignast 3 aura í auknu hlutafé SP-Fjármögnunar. Sennilega einhverjar óarðbærustu fjárfestingar Íslandssögunnar og er þá undanfari hrunsins ekki undanskilinn!!! Hvers vegna fyrirtækið var ekki lagt niður og leifarnar af lánasafninu færðar inn í Landsbankann veit ég ekki. En sá grunur læðist að manni að ástæðan sé þegar slæm eigin staða Nýja Landsbankans. Hér endurtekur sagan sig, því hérna er annað Lindarmál bara miklu stærra í þetta sinn. Nýji Landsbankinn ræður sennilega ekki við að taka við lánasafninu vegna slæmrar eigin stöðu, þar sem hann berst við að halda eiginfjárhlutfalli sínu yfir 16% viðmiði Fjármálaeftirlitsins. Lögbundið lágmark er hins vegar 8%.
SP-Fjármögnun hf., sem ekki enn hefur skilað ársreikningi fyrir 2009, er að fullu í eigu Nýja Landsbankans sem er að fullu í eigu ríkissjóðs. Þjóðin á sem sagt SP-Fjármögnun hf., fyrirtæki sem rifti og gjaldfelldi ólögmæta lánasamninga sökum meintra vanskila og olli gífurlegu tjóni, jafnvel gjaldþroti, hjá fyrirtækjum og einstaklingum með ólögmætum vörslusviptingum og innheimtuaðferðum. Það er tjón sem aldrei mun fást bætt. Fyrirtækið starfar enn með blessun FME og sami framkvæmdastjóri hefur stýrt því frá stofnun þess.
Sá situr enn sem fastast og heldur við svikamyllunni, sem hann kom á fót á liðnum árum. Framkvæmdastjórinn skuldar, að mínu mati, þjóðinni ágóðahlut sinn af ólögmætri starfsemi, svikum og prettum á undanförnum árum og á að endurgreiða, það sem ég vil kalla illa fengið fé, strax!
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 29.8.2010 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#48. Hvíldartími þyrluáhafnar
11.8.2010 | 10:58
Þetta verður örugglega ekki eina dæmið þar sem þyrluaðstoðar er óskað en ekki er hægt að sinna henni vegna áhafnaskorts. Það er grafalvarlegt að Landhelgisgæslan sé í þeirri stöðu að geta ekki sinnt útkalli rétt suðvestur af Keflavíkurflugvelli vegna þess að vaktartími áhafnarinnar er búinn. Flugtími að skipinu Aþenu og til baka til Reykjavíkur er sennilega tæpur klukkutími með hífingu sjúklings í þyrluna. Það er ekki boðlegt að þjóðin og gestir hennar þurfi að lifa við svona lélega björgunarþjónustu! Nú veit ég ekki hvað áhöfnin var búin að gera um daginn en hugsanlega má spyrja hvort það sé nauðsynlegt að flugmenn á ríkisreknum björgunarþyrlum þurfi að hlýða flugvaktartímareglum hönnuðum fyrir flugrekendur á samkeppnismarkaði. Hafa þarf þó flugöryggi í huga þegar þetta er rætt en mér finnst vel koma til álita að gefa Landhelgisgæslunni undanþágu frá slíkum reglum enda sé það gert í ljósi almannahagsmuna. Það er einfaldlega ekki boðlegt að mikið veikt eða slasað fólk þurfi að vera í lífshættu vegna áhafnaskorts björgunaraðila. Við höfum þyrlurekendur í landinu sem hugsanlega geta sinnt einhverjum verkefnum sem þyrlur Landhelgisgæslunnar eru annars að sinna s.s. sjúkraflutningum sem ekki krefjast hífingarvinnu og ýmsum smærri verkefnum fyrir opinberar stofnanir. Þær þyrlur eru mun ódýrari á hvern flugtíma en stóru þyrlur Landhelgisgæslunnar.
Því miður er útlit fyrir að mannslíf þurfi að glatast áður en bragarbót verður gerð á hag Landhelgisgæslunnar. Ég vona að svo verði þó ekki.
Sóttu tvo menn út á sjó í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#47. Tilkynningar SP-Fjármögnunar hf. til FME
9.8.2010 | 00:03
Í bloggfærslu þann 6.ágúst skýrði ég frá svörum Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurnum mínum vegna starfsleyfis SP-Fjármögnunar.
Til að styðja mínar fullyrðingar í þeirri færslu set ég hér inn færslu með tenglum á gögnin sem Fjármálaeftiritið sendi mér. Gagnanna var aflað með með vísan til 3.gr. og 10.gr. upplýsingalaga og eru því opinber gögn aðgengileg almenningi sé eftir því leitað. Mér er ekki kunnugt um að einstaklingum sé óheimilt að að birta gögn sem aflað er með vísan til þessara laga og birti því eftirfarandi tengla:
- Dreifibréf FME til fjármálafyrirtækja í febrúar 2003
- Tilkynning SP til FME í maí 2003
- Tilkynning SP til FME í júlí 2004
- Tilkynning SP til FME í janúar 2005
- Tilkynning SP til FME í júlí 2005
- Tilkynning SP til FME í janúar 2006
Dreifibréfið er sent til fjármálafyrirtækjanna heilum 2 mánuðum eftir gildistöku laganna.
Skjölin er ennfremur að finna hér á bloggsíðunni undir Tenglar/Skjöl.
Einhverra hluta vegna virðist SP-Fjármögnun hf. allt leyfilegt í eftirlitsskyldri starfsemi sinni án þess að í taumana sé tekið af ráðamönnum í virki FME á Suðurlandsbrautinni. Ég segi virki vegna þess að þangað fer enginn inn nema skrá sig hjá vaktmanni í stigahúsi á fyrstu hæð og fá gestakort. Gildir einu þótt erindið sé einungis inn í afgreiðsluna, enda er hún læst og þarf að hringja dyrabjöllu til að komast þangað inn, eftir að nafnið hefur verið tekið niður og skrásett á jarðhæð stigahússins og síðan ferðast í lyftu upp á 4.hæð. Ég hef aldrei vitað aðrar eins kröfur til að komast inn í afgreiðslu neins fyrirtækis, hvað þá opinbers.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þann 3. ágúst sl. fékk ég svar frá Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnar minnar þ. 26. júní sl. vegna starfsleyfis SP-Fjármögnunar. Í fyrirspurninni setti ég fram 4 spurningar, þar af eina í 2 liðum, um upplýsingagjöf SP-Fjármögnunar hf. til Fjármálaeftirilitsins í kjölfar setningar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Spurningarnar og svörin eru eftirfarandi:
1. Vísað er til setningu laga nr. 161/2002. Undirritaður óskar eftir að fá upplýsingar um hvort SP-Fjármögnun hf. hafi á sínum tíma sent FME tilkynningu um starfsemi sína eins og fyrirtækinu bara að gera innan sex mánaða frá setningu laganna 1. janúar 2003, sbr. 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis I?
Svar: Þann 28. febrúar 2003 sendi Fjármálaeftirlitið starfandi viðskiptabönkum, sparisjóðum, lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, þ.á m. SP-Fjármögnun hf., rafeyrisfyrirtækjum, verðbréfafyrirtækjum og verðbréfamiðlunum dreifibréf meðal annars þess efnis að þau skyldu innan sex mánaða eða fyrir 1. júlí 2003 tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi samkvæmt 3. gr. og IV. kafla laga nr. 161/2003 um fjármálafyrirtækja (ffl.) þau stunduðu við gildistöku laganna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögunum. Dreifibréfinu fylgdi eyðublað sem fyrirtækjunum bar að fylla út. Sjá meðfylgjandi skjöl í viðhengi við tölvubréfið.
2. Ef svarið við spurningu 1. er nei og engar upplýsingar komu frá SP-Fjármögnun hf. að fyrra bragði, er óskað svara FME hvort, og þá hvenær, stofnunin fór fram á upplýsingar frá fyrirtækinu á ásættanlegu formi um hvað starfsemi það stundaði við útgáfu laganna, eins og bar að gera innan sex mánaða frá setningu þeirra?
Svar: Vísast til svars Fjármálaeftirlitsins við fyrstu fyrirspurn yðar.
3. Ef svarið við spurningu 2. er já, fékk FME svör frá SP-Fjármögnun hf. við erindum sínum og þá hvenær slík svör bárust?
Svar: SP-Fjármögnun hf. tilkynnti Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi samkvæmt 3. gr. og IV. kafla ffl. það stundaði við gildistöku laganna með útfylltu eyðublaði, dags. 5. maí 2003, sem barst stofnuninni þann 6. maí sama ár. Sjá meðfylgjandi skjal í viðhengi við tölvubréfið.
4. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um hvort SP-Fjármögnun hf. hafi einhvern tímann á tímabilinu 2002-2010:
a. Óskað eftir breytingu á starfsleyfi sínu til að hefja nýja starfsemi?
Svar: SP-Fjármögnun hf. óskaði ekki eftir breytingu á starfsleyfi sínu eða auknum starfsheimildum á árunum 2002-2010.
b. Verið hafnað breytingu á starfsleyfi sínu í framhaldi beiðnar um slíkt vegna nýrrar starfsemi?
Svar: Vísast til svars Fjármálaeftirlitsins við a-lið fjórðu fyrirspurnar yðar.
Einnig var óskað afrita af öllum upplýsingum sem SP-Fjármögnun hf. sendi FME á árunum 2001-2008 til að útlista hvaða starfsemi fyrirtækið stundaði á nefndu árabili.
Á árabilinu 2003-2006 sendi SP-Fjármögnun hf. 5 tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfiskylda starfsemi sína. Aðrar tilkynningar um starfsemina voru ekki sendar Fjármálaeftirlitinu. Við skoðun þeirra gagna sést að SP-Fjármögnun hf . tilkynnti Fjármálaeftirlitinu ekki að það stundaði viðskipti fyrir eigin reikning með erlendan gjaldeyri, framvirka samninga eða gengisbundin bréf. Þó sýna ársreikningar félagsins skýrt að félagið stundaði viðskipti með erlendan gjaldeyri og framvirka gjaldmiðlasamninga í stórum stíl. Eins og við vitum var helsta afurð fyrirtækisins gengistryggðir lánasamningar sem í mínum huga eru ekkert annað en gengisbundin viðskiptabréf. Undir tilkynningarnar skrifar Pétur Gunnarsson, bróðir Kjartans Georgs Gunnarssonar framkvæmdastjóra.
Í viðurlagakafla laga nr. 161/2002 segir í 110. gr. um stjórnvaldssektir:
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
2. 8. gr. um tilkynningar um breytingar á áður skráðum upplýsingum um fjármálafyrirtæki,......
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar.
Þá segir í 112. gr. b. Sektir eða fangelsi:
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,"
Ég hef í kjölfar ofangreindrar fyrirspurnar sent Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi spurningu:
Þar sem fjármálafyrirtækjum var gert skylt frá 1.janúar 2003, með setningu laga nr. 161/2002, að tilkynna FME ef það ætlaði að hefja nýja starfsemi, og SP-Fjármögnun hf. hefur ekki tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að það stundi viðskipti með ofangreindar fjármálaafurðir, má þá ekki líta svo á að SP-Fjármögnun hf. hafi gerst brotlegt við bráðabirgðaákvæði I með því að stunda starfsemi sbr. 7. lið b-d, sem það:
a. segist ekki stunda sbr. afrit af eyðublöðum 2 þar að lútandi, og
b. hóf að stunda eða stundaði án lögbundinnar tilkynningar til FME?
Ég vænti þess að nokkur tími líði þar til Fjármálaeftirlitið svari þessari spurningu efnislega en ég mun greina frá svarinu hér á blogginu þegar það berst.
SP-Fjármögnun braut lög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
#45. Öðlingurinn hann Kjartan Georg
6.8.2010 | 11:10
Þykist Kjartan Georg Gunnarsson nú vera hugsa um hag lántaka? Ónei, þetta snýst ekki um hag lántaka. Þetta snýst um hag SP-Fjármögnunar og hugsanlega hans eigin. Það er klárlega hægt að tryggja sig fyrir að bílnum sé stolið í sumarleyfinu. Það er hægt að tryggja sig fyrir öllu ef maður er tilbúinn að borga fyrir það.
SP-Fjármögnun hefur stundað ólöglega starfsemi undir stjórn Kjartans Georgs um árabil. Viðskiptamenn þess hafa verið sviknir og prettaðir um árabil og fyrirtækið hefur haft af þeim fé sem þeir nú neita að greiða til baka. SP, undir stjórn Kjartans Georgs, hóf að bjóða gengistryggð bílalán/myndtkörfulán til bílakaupa árið 1998, þremur árum áður en lög um vexti og verðtryggingu bönnuðu það svo skýrt.
Þó eru uppi þau álit að gengistryggð lán hafi í raun aldrei verið lögleg eins og sjá má í dómi Hæstaréttar nr.92/2010 frá 16.júní. Þar segir einfaldlega: Frá 1960 hafi þetta [innsk EAJ: að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla] almennt verið óheimilt og hafi sú regla verið tekin upp í lög nr. 13/1979, en þó þannig að beita hafi mátt í þessu skyni sérstökum gengisvísitölum, sem Seðlabanki Íslands hafi birt, og hafi það verið liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma." Mér er ekki kunnugt um hvort SP notaði slíka gengisvísitölu á árunum 1998-2001.
Fyrirtækið og Kjartan Georg Gunnarsson hefur skapað viðskiptamönnum þess fjárhagstjón sem aldrei fæst bætt. Á meðan hefur Kjartan fengið greiddan árangurstengdan ágóðahlut sbr. bls. 20 í ársreikningi SP frá 2007. Ágóðahlut sem fékkst af ólöglegum fjármálagjörningum og hann á þess vegna að endurgreiða. Kjartan Georg hefur sýnt viðskiptamönnum SP-Fjármögnunar hf. ókurteisi og vanvirðingu og gerir enga breytingu þar á. Ég hef reynt frá 15.júlí að fá Kjartan Georg til að staðfesta fullyrðingu Tryggva Þórs Herbertssonar um að afskriftir Nýja Landsbankans hafi gengið til SP-Fjármögnunar við endurfjármögnun fyrirtækisins, eftir að Tryggivi Þór hvatti mig til að leita staðfestingar hjá SP. Kjartan hefur engu svarað, ekki stakt orð, ekki einu sinni að hann neiti að svara fyrirspurninni.
Nú situr Kjartan í skjóli Nýja Landsbankans, sem aftur er kominn í fang ríkissjóðs, og viðheldur fjársvikum á þegna landsins og ríkisstjórnin gerir ekki neitt. Út með þennan mann!
PS: Öll sjónarmið hér að ofan eru mínar persónulegar skoðanir birtar sbr. 73.gr.sjórnarskrár.
Óheimilt að fara með bílana úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 29.8.2010 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#44. Samskonar úrskurður gegn SP væntanlegur!
5.8.2010 | 11:59
Ákvæði um vexti brutu gegn lögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 29.8.2010 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#43. Bankastjórar með öruggt skjól í Bretlandi
4.8.2010 | 23:55
Bankastjóri snýr aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)