Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

#112. Lög ekki afturvirk!

Eftir langa mæðu fékk ég loks svar í dag frá deildarstjóra neytendaréttarsviðs Neytendastofu vegna 4 kvartana yfir skilmálum í samningi mínum vegna bílakaupa.  Innihaldið var frekar rýrt og var t.d. misræmi í túlkunum stofnunarinnar á því hvort samningurinn væri leigusamningur eða lánssamningur.  Er það undarlegt í ljósi undangenginna dóma hvar kveðið var um að þessir samningar væru lán en ekki leiga.  Meira segja fullyrti Neytendastofa að samningurinn, sem var gengistryggður, hefði upphaflega verið í erlendri mynt!!  Hvað um það!

Eitt atriði stóð þó upp úr í svari deildarstjórans:

Það er meginregla í íslenskum stjórnskipunarrétti að skýra beri lög á þá leið að þeim verði ekki beitt afturvirkt."

Getur Neytendastofa þá útskýrt hvaða lagaheimildir leyfðu að SP-Fjármögnun hf. sendi endurrreiknað greiðsluflæði frá upphafsdegi samnings og hóf innheimtu skv. því 2 mánuðum áður en lögum um vexti og verðtryggingu var breytt í árslok 2010?  Lögfræðingur SP gat ekki útskýrt þetta og hótaði að henda mér út af skrifstofunni sinni, með lögregluvaldi ef þess kræfist þörf, þegar ég innti hann eftir því.  Þessi skoðun Neytendastofu um meginregluna segir þó margt, því þar með hefði átt að breyta vaxtastigi í fyrsta lagi eftir gildistöku laga nr. 151/2010, enn ekki 2 mánuðum fyrr eins og SP-Fjármögnun hf. gerði í mínu tilviki, og vafalaust fleiri. En hvaða lagaheimildir leyfa slíka gjörninga eftir gildistöku laga nr. 151/2010?  Um það eru áhöld líka.

Eftir mikla eftirgangsmuni fékk ég upplýsingar frá fyrirtækinu að árleg hlutfallstala kostnaðar á fjármögnunarsamningi mínum reiknist nú 12,19% í stað 5% við samningsgerð?  Getur Neytendastofa útskýrt hvaða lagaheimildir, eða samningsákvæði, leyfa þetta?  Sbr. 14.gr. laga um neytendalán er lánveitanda eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr.  Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.  Þetta er þó gert í stórum stíl!  Hvers vegna er þetta framferði ekki stoppað af Neytendastofu að eigin frumkvæði?  Hvers vegna þurfa neytendur sjálfir að standa í þessu stappi?  Og hvar er stuðningur stofnunarinnar við neytendur?  Líklega verð ég að setja inn sérstaka kvörtun vegna þessa til að reyna kría út svör.

Því miður er það svo að stjórnvöld og allir eftirlitsaðilar, þ.m.t. Neytendastofa, kasta þessum bílalánum frá sér eins og heitri kartöflu og eftirláta neytendum baráttuna á eigin spýtur í dómskerfinu.  Við búum einfaldlega við handónýtt eftirlitskerfi!


mbl.is Bílalánin misjafnlega dýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#111. Mál að linni!

Þessar fréttir um aðgangshörku fjármögnunarfyrirtækjanna koma ekki á óvart.  Fyrirtæki okkar landsmanna allra, SP-Fjármögnun hf., er sennilega það fyrirtæki sem verst kemur fram við skuldara.  Gunnlaugur Kristinsson fjallar um endurreikningana í grein á visir.is 30. mars sl. en hann hefur skoðað útreikninga SP Fjármögnunar m.a.

En nú er mál að linni.  Fjármögnunarfyrirtækin fengu lögin sín um hvernig ætti endurreikna samningana sína.  SP-Fjármögnun hf. sendi út greiðsluseðla samanber þessi lög rúmum 2 mánuðum áður en þau voru samþykkt.  Lögmaður fyrirtækisins hótaði mér að hringja á lögregluna til að henda mér út þegar ég leitaði skýringa.

SP-fjármögnun hf. sinnti ekki tilkynningaskyldu sinni með fullnægjandi hætti eftir setningu laga um fjármálafyrirtæki árið 2001.  Fyrirtækið stundaði gjaldeyrisviðskipti framhjá starfsleyfi sínu og tilkynnti Fjármálaeftirlitinu ekki að slík starfsemi væri stunduð.

Fyrirtækið gerði samninga við neytendur með ólögmætum samningsskilmálum og af þessu varð til útblásinn loftbóluhagnaður sem framkvæmdastjórinn fékk ágóða af samkvæmt starfskjarasamningi. Lauslega áætlað er um 60-70 milljónir að ræða í þessa launatengdu bónusa

Og enn túlka þessir menn að þarna sé um lánasamninga að ræða, sem eru verðbættir og bera vexti.  Eftir fjölda dóma sem segja annað!  Og síðan hvenær bera leigusamningar vexti?!

Og nú nefnir fyrrum sveitungi minn, velferðarráðherrann Gutti skólastjóri, að þarna virðist sem farið væri fram með öðrum hætti en stjórnvöld væru sátt við.  Jafnframt sagði hann að skoðað væri hvort setja þyrfti lög á túlkun fjármögnunarfyrirtækjanna.  Það er gagnlaust að setja en ein lögin sem ekki er framfylgt!  Þessi fyrirtæki virðast vera ríki í ríkinu og forsvarsmenn þeirra haga sér sem einræðisherrar.  Virðast komast upp með allt og ríkisvaldið horfir ekki einu sinni á!

Hér þarf að siga lögreglunni á mennina sem stýra þessum fyrirtækjum.  Það þarf að framfylgja lögum um vexti og verðtryggingu sbr. þá dóma sem fallið hafa.  Það þarf að framfylgja lögum um greiðsluskjól.  Það þarf að framfylgja lögum um aðför, lögum um neytendalán og lögum um samninga.

Á meðan ganga þessi fyrirtæki á milli bols og höfuðs á viðskiptamönnum sínum í skjóli lögleysu sem ekki er tekið á!

Nei Gutti, við þjóðin eigum SP-Fjármögnun hf. og Avant í gegnum Landsbankann.  Það er í þínu valdi að taka málið upp við efnahagsráðherra og innanríkisráðherra á ríkisstjórnarfundi og stöðva framgöngu þessara tveggja aðila!  Ekki þæfa málið með en einni lagasetningunni! 

Sýndu úr hverju þú ert gerður!  Ertu maður eða mús?

 


mbl.is Bílar teknir af fólki í greiðsluskjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#110. SP-Fjármögnun hf. í dauðateygjunum í núverandi mynd.

Það fór sem ég setti fram í bloggfærslu 24.júní 2010 að fyrir SP-Fjármögnun hf. lægju sömu örlög og eignaleigunnar Lindar hf. sem rann inn í eiganda sinn, forvera Landsbankans núverandi, Landsbanka Íslands árið 1994.  Tap bankans nam „einungis" 80,5 milljónum króna þegar hlutafé Lindar var aukið um 115 milljónir króna í lok desember 1990 en tap Landsbankans núverandi á SP-Fjármögnun hf. er heldur meira.  Árið 2009 varð bankinn að breyta 35,6 milljarða króna láni í nýtt hlutafé til að bjarga SP-Fjármögnun hf. frá gjaldþroti og frá missi starfsleyfis. Hverjar 330 lánaðar krónur urðu að 1 krónu nafnverðs.  Góð fjárfesting það.

Það sem er framkvæmt ólöglega er glæpur að mínu viti.  Enn hefur enginn forsvarsmanna SP-Fjármögnunar hf. verið ákærður vegna ólöglegra athafna fyrirtækisins.  Kjartan Georg Gunnarsson framkvæmdastjóri hefur frá 2007 fengið um 63 milljónir í árangurstengdar greiðslur af ágóða fyrirtækisins, ágóða sem reyndist loftbóla og til kominn vegna ólöglegra gjörninga í starfsemi sem var gjaldþrota í árslok 2008.  Tær snilld eða þannig.  Fróðlegt verður að sjá afdrif framkvæmdastjórans nú við sameininguna við Landsbankann.  Verður hann látinn greiða til baka þessar innistæðulausu árangurstengdu greiðslur við sameininguna?

Er Steinþór Pálsson tilbúinn að axla ábyrgð af ólöglegum gjörningum SP-Fjármögnunar hf. á undanförnum árum?  Eða mun hann loks stoppa framferði fyrirtækisins?

Eitt er víst að SP-Fjármögnun hf. er í dauðateygjunum í núverandi mynd og örlög þess eru þau sömu og eignaleigunnar Lindar hf. árið 1994 að renna inn í eiganda sinn.  Er glæpastarfsemi Kjartans Georgs í Sigtúni 42 loksins að taka enda?


mbl.is Eignaleigur sameinaðar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband