#74. Nýyrðasmiðurinn á Sölvhólsgötunni.
14.11.2010 | 00:36
Ég er orðinn þreyttur á þeim sólbrúna, hæstvirtum viðskiptaráðherra. Ég skil ekki hvað hrærist í höfðinu á honum. Næsta vika er alltaf vika tíðindanna hjá honum. Jafnvel stórtíðinda. Núna vill hann loforð bankanna um að ekki verði sóttar skaðabætur vegna nýja gengislánafrumvarpsins. Frumvarpsins sem á að bjarga öllu en gera gengistryggð lán til fyrirtækja lögleg. Heldur hann virkilega að slíkt loforð væri virði pappírsins sem það væri skrifað á? Af hverju eru núgildandi lög ekki virt og unnið eftir þeim? Hví þarf að setja ný?
Ráðherrann getur ekki einu sinni ráðið fólk í ábyrgðarstöður embættismanna vandkvæðalaust og gerði ekkert fyrir heimilin á meðan hann var félagsmálaráðherra. Ég fæ ekki séð að hann geti gert neitt fyrir fyrirtækin sem viðskiptaráðherra. Nær öll verktakafyrirtæki eru komin að fótum fram vegna verkefnaskorts og skuldastöðu. Fyrrum starfsmenn þeirra ganga atvinnulausir í öllum landshlutum. Fjöldi tækja hafa verið gerð upptæk, eða skilað til fjármögnunarleiga og flutt úr landi, en eftir standa skuldirnar sem nú á að gera löglegar og innheimta! Hvað heldur hann að gerist? Að menn borgi þessar tækjaskuldir með glöðu geði en standa tómhentir eftir? Eigendur þeirra stofna bara ný félög, færa allar eignir (ef einhverjar eru eftir) úr gamla félaginu í það nýja en skilja gengistryggðu skuldirnar eftir í því gamla sem verður sett í þrot, að nýjum víkingasið!
Í Hagsýn, nýju vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, segir að endurskipulagning skulda fyrirtækja sé forsenda hagvaxtar. Síðan á að fara í skuldahreinsanir lífvænlegra fyrirtækja því slíkt sé ein meginforsenda þess að fjárfesting taki við sér á ný. Væntanlega er átt við sömu fyrirtæki og eiga nú að glíma við að gengistryggð lán þeirra verða gerð lögleg af þeim sólbrúna í nýja gengislánafrumvarpinu. Í sama vefriti segir að nú liggi fyrir að svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til fyrirtækja er umtalsvert. Og þó að um helmingur fyrirtækja sé í vanskilum við viðskiptabankana eru aðeins 4% íslenskra fyrirtækja gjaldþrota. Nær allar eftirstöðvar lána gjaldþrota fyrirtækja eru vegna lántöku í erlendri mynt. Aldrei er minnst á gengistryggð lán þessara fyrirtækja. Vefritið endar á því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið leggur því mikla áherslu á árangur í skuldahreinsun fyrirtækja í samvinnu við önnur stjórnvöld, lánastofnanir og aðila vinnumarkaðarins.
En heimilin skulu brenna á ólöglegu skuldabáli enda er svigrúm bankanna til að hjálpa þeim fullnýtt!
Ráðherrann lifir í einhverjum draumaheimi. Það er eins og hann viti ekki hvað landslög eru. Og þó er hann lögfræðingur að mennt. Hjal hans í viðtölum er innantómt og innihaldslaust og frekar leiðinleg tímasóun. Vera hans í ríkisstjórn er einhver aumasta ráðherraseta frá upphafi lýðveldis.
Vantar ekki karlmódel í næsta Hagkaupsbækling eða nýjustu Gillette auglýsingu?
![]() |
Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#73. Leikurinn heldur áfram........
12.11.2010 | 22:04
Hvernig er hægt að tapa því sem þú aldrei áttir? Fjármálafyrirtækin áttu aldrei þessa 108 milljarða nema í bókum sínum. Bækurnar voru ranglega færðar því fyrirtækin höfðu rangt við. Þau sviku neytendur með ólöglegum gengistryggðum lánasamningum; samningum sem sumir voru færðir í búning leigusamnings" sbr. dóm Hæstaréttar 16. júní. Fyrirtækin sömdu ólögmæta samningsskilmála og frömdu umboðssvik; sögðu samning vera annað en hann var. Hvers vegna ríkissaksóknari tekur ekki þessa umsögn Hæstaréttar á lofti og hjólar í fyrirtæki eins og SP-Fjármögnun hf. er óskiljanlegt. Fyrirtækin frömdu fjársvik; innheimtu fjárhæðir sem ekki var samið um. Nú hafa þau framið önnur fjársvik með að endurreikna eftirstöðvar lánasamningana, reiknað vexti á eftirstöðvarnar mörg ár aftur í tímann þvert á 7.gr. laga um vexti og verðtryggingu og hafið innheimtu þessara eftirstöðva.
Og enginn hefur verið kærður enn vegna þessara svika. FME stendur hjá og gerir ekki neitt. Umboðsmaður skuldara stendur hjá og gerir ekki neitt. Ríkissaksóknari sömuleiðis. Samt bendir allt til þess að ítrekað hafi verið framin refsiverð athæfi skv. almennum hegningarlögum. Forsvarsmenn sumra þessara fyrirtækja ættu að vera kærðir og dæmdir til fangelsisvistar.
29. október afhenti ég bréf í afgreiðslu SP-Fjármögnunar hf. þar sem ég óskaði svara og upplýsinga í 7 liðum, vegna birtra endurútreikninga, sem og eins liðar að auki þar sem ég óska eftir að bifreiðin verði umskráð á mitt nafn og afsal sent mér þar sem Hæstiréttur telur samning samskonar og minn vera lánssamning en ekki leigusamning. Ég er þó aðeins hálfnaður með upphaflega samningstímann. 30. október svaraði lögfræðingur þess að hann myndi lesa erindi mitt mánudaginn 1.nóvember. Síðan hef ég ekki heyrt frá fyrirtækinu þrátt fyrir tvær ítrekanir með tölvupósti. Mér sýnist allt stefna í annan eltingarleik til að fá svör vegna þessa blessaða samnings sem ég er með við fyrirtækið. Enn SP mun halda innheimtunni áfram af fullum krafti, það er víst.
Ég hef einnig sent stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins fyrirspurn vegna stöðu erindis sem ég sendi stofnuninni 29. apríl. Erindið beindist að heimildum SP-Fjármögnunar til gjaldeyrisviðskipta, öllu heldur skorts þar á í starfsleyfi þess og þar með hugsanleg brot á starfsleyfinu, og þar með almennum hegningarlögum. Erindinu hefur ekki verið svarað efnislega til þessa og leita ég skýringa hjá stjórnarformanni FME þar að lútandi. Dragist svar á langinn mun ég senda Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna seinagangsins.
Og svona til gamans þá átti ég afmæli 29.ágúst.
![]() |
108 milljarða tap banka vegna myntkörfulána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#72. Ólögmætir vaxtaútreikningar á vangreiðslum bílalána.
27.10.2010 | 23:12
Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Sturlu Jónsson endurskoðanda hjá Nordik Finance. Hann tekur þar fyrir endurútreikninga fjármálafyrirtækjanna eftir dóm Hæstaréttar í september. Þórdís Sigurþórsdóttir birtir greinina á bloggsíðu sinni með leyfi höfundar. Sturla veltir upp þeirri spurningu hvort kröfuhafi megi reikna vexti á reiknaðar vangreiðslur við endurútreikninga.
Að mínu mati bannar 7.gr vaxtalaga afdráttarlaust að reikna skuli dráttarvexti af vangreiðslum, en þar segir skýrt:
"Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar."
Reiknaðar "vangreiðslur" eru til komnar vegna ólögmætra athafna lánveitanda, eða kröfuhafa, á lánstímanum. Samningarnir voru ólögmætir sbr. dóm Hæstaréttar í máli 92/2010 frá 16. júní. Hér er því sem sagt um að ræða atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt. Að rukka vexti á vangreiðslur er því einfaldlega ólöglegt sbr. 1.mgr. 7 gr. að ofan.
Fjármögnunarfyrirtækin eru nú að hefja innheimtu þessara lána að nýju. Sum hafa þegar sent út gögn vegna skilmálabreytinga, t.a.m. Íslandsbanki Fjármögnun. Í endurgerðum samningsskilmálum þessara kaupleigusamninga", er lántaki enn kallaður leigutaki og kröfuhafi, Íslandsbanki Fjármögnun, nefndur leigusali. Hæstiréttur úrskurðaði slíka kaupleigusamninga í reynd lánasamninga sem kröfuhafi hafi kosið að færa í búning leigusamnings. Hér á því með réttu að nefna samningsaðila lántaka og lánveitanda og samninginn lánssamning eða neytendalán.
Ég hvet fólk að fara varlega í að skrifa gagnrýnislaust upp á þessa samninga án fyrirvara og krefja kröfuhafa um skýringar á því hvaðan heimildir fyrir þessum vaxtaútreikningum eru fengnar.
![]() |
Lýsing hefur lokið fyrsta hluta endurútreiknings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)