#32. Sveiattan aftur!

Ég er sammála Viljálmi. Það er hinum sama til háborinnar skammar að standa núna og benda á skuldara sem ábyrgðaraðila fyrir lántökum og of háum vöxtum og stöðu íslensks fjármagnsmarkaðar. Ekki síst er það Pétri Blöndal til skammar. Það voru bankastjórar og bankastjórnir bankanna sem áttu að passa sparifjáreigendur og hag þeirra með því að fylgja reglum og eðlilegum viðskiptaháttum. FME átti að tryggja að starfsemi þeirra væri lögum samkvæmt.
Það voru bankastjórnirnar sem sóttu fjármagn til útlanda, til að endurlána á Íslandi með óábyrgum hætti gegn ótryggum veðum í glórulausar yfirtökur á fyrirtækjum, ekki lánþegar. Bankarnir veifuðu fé framan í almenning á kostakjörum, almenningur stóð ekki og betlaði í dyragættinni. Það gátu allir fengið nóg af peningum að láni.
Það voru eigendur bankanna með fulltingi bankastjóranna og bankastjórnanna sem fóru með þá eins og vogunarsjóði og skömmtuðu sér og sínum óhóflegt fé úr sjóðum þeirra með arðgreiðslum, kaupaukum, veislubruðli og lélegum eða engum veðum. Ekki almennir lánþegar. Stærstu lánþegar bankanna voru "fagfjárfestar" eða "kjölfestufjárfestar". Sér var nú hver kjölfestan! Upphæðirnar sem hafa verið afskrifaðar á suma einstaklinga í eigendahópi bankanna gætu borgað skuldir heimilanna mörgum sinnum.
Pétur Blöndal segir að það vanti sparnað á Íslandi. Besti sparnaðurinn á Íslandi síðustu ár átti að vera langtímasparnaður með hlutabréfakaupum í sjóðum eða fyrirtækjum. Hvað hafa lífeyrissjóðirnir "okkar" tapað miklu á þeim sparnaði, Pétur Blöndal?
Hverjir heldur Pétur Blöndal að vilji spara hjá bankastjórnendum sem hagar sér eins og bankinn sé vogunarsjóður?
Skömmin er þeirra að benda núna á almenning sem orsakavald!
mbl.is Segir „sveiattan" við málflutningi Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#31. Hver hafði eftirlitsskylduna með gengistryggðum lánum?

Nú er verið að kynna nýjan flöt í umræðunni um hver bar ábyrgð á eftirliti vegna gengistryggðra lána.  Gráa svæðið!  Hvílík endemisþvæla ætlar þessi umræða að verða!  Skoðum ákvæði tvennra laga, fyrst laga um neytendalán og svo lög um fjármálafyrirtæki.

Í lögum um neytendalán nr. 121/1994 segir í 1. gr. 

„Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.

Þá segir í 25. gr. sömu laga: 

„[Neytendastofa]1) annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. [Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.]2)" 

Þessi lög voru sett til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE þar sem segir í fororði:  „Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar."

Þá segir í 7. gr. hennar:

Aðildarríkin skulu tryggja, í þágu neytenda og samkeppnisaðila, að til séu réttar og árangursríkar leiðir til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í samningum seljenda eða veitenda við neytendur."

Lög um fjármálafyrirtæki segja í 1. gr.:

 „Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr."

19. gr. segir ennfremur að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Þá segir 107. gr laganna:

Fjármálaeftirlitið.
[Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði sem fellur undir ákvæði laga þessara, svo og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Útlán fjármálafyrirtækis eru eftirlitskyld starfsemi! Sú starfsemi skal vera lögum samkvæmt, þ.m.t. lögum um vexti og verðtryggingu!

Hananú!  Þar höfum við það!  Er þá gráa svæðið ekki  orðið kýrskýrt?

Gengistrygging var bönnuð frá 2001 sbr. lög um vexti og verðtryggingu.  Sé slíkur samningsskilmáli settur í samning atvinnurekanda við neytanda er hann brot á landslögum og því óréttmætur.  Íslenska ríkið átti að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur væru ekki óréttmætir skilmálar.  Með tryggingu  þýðir að sett eru lög til að tryggja réttindi og ennfremur að lögum sé framfylgt án þess að til dómsmála komi.  Þetta hefur íslenska ríkið ekki gert og þar með gerst brotlegt við tilskipun Evrópuráðsins frá 1993 um óréttæta samningskilmála og þar með EES-samninginn. 

Neytendastofa átti að fylgjast með því að lánssamningar væru rétt gerðir, þ.e. innhéldu ekki óréttmæta samningsskilmála.  Tilskipunin telur upp dæmi um slíka samningsskilmála í viðauka, en listinn er ekki sagður tæmandi.   Burt séð frá slíkum listum, hvaðan sem þeir kunna að eiga uppruna sinn, er þó varla til skýrara dæmi um óréttmætan samningskilmála en brot á landslögum tiltekins ríkis!

Fjármálaeftirlitið átti að sjá til þess að starfsemi fjármálafyrirtækis bryti ekki starfsleyfi, eða góða viðskiptahætti  og venjur á fjármagnsmarkaði.  Það eru ekki góðir viðskiptahættir að brjóta landslög við framsetningu á lánssamningum.


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#30. Ræða þingmanns um afnám verðtryggingar árið 1992!

Ég fann eftirfarandi tilvitnanir á vef Alþingis í ræðu þingmanns frá árinu 1992.  Umræðuefnið var frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu.  Ég birti hér valda kafla, en hlekkur á ræðuna í heild sinni er að finna í lok færslunnar.  Leturbreytingar eru mínar.

„Ég vil fyrst nefna þann megingalla að sá sem á að greiða skuldina og undirgengst skuldbindingar um vísitölu tekur á sig alla áhættu um þróun mála á lánstímanum hvað varðar vísitölu og vexti og önnur þau kjör sem kveðið er á um í lánssamningi að séu breytileg. Eitt af því sem mér hefur fundist orka mjög tvímælis er hvort það ætti að heimila lánveitingar með breytilegum kjörum. Það er að mínu viti nokkurt siðleysi fólgið í því að fá fólk til að taka lán á tilteknum kjörum, eins og þau líta út við undirskrift samnings, en áskilja sér síðan rétt til að breyta þeim kjörum sér í hag og lángreiðandanum í óhag hvenær sem er á lánstímanum. Þar á ég fyrst og fremst við vextina. Það er alkunna og þarf ekki að minna menn á það að eitt af því sem hefur valdið verulegum vandræðum hjá fjöldamörgum hér á landi eru þessir breytilegu vextir."

Og litlu seinna:

Mér hefur stundum fundist að það væru réttar leikreglur að skipta áhættunni til helminga og skylda þá sem veita lán eða vilja fá aðra til að taka lán hjá sér að hafa fast fyrirkomulag á láninu og afnema ákvæði um breytileg lánakjör eða fyrirvara lánveitanda um það að hann áskilji sér rétt til að breyta kjörum á láninu hvenær sem honum dettur í hug. Það er eitt af þeim atriðum sem hafa reynst launafólki hvað erfiðust í gegnum tíðina og hefur ítrekað komið mjög hart niður á pyngju þeirra, t.d. hækkanir á afborgunum af lánum til húsnæðiskaupa."

Og síðar:

Mér finnst að mörgu leyti sanngjarnar leikreglur að sá sem lætur lánið eða peningana af hendi undirgangist þá kvöð að lánið, sem hann er að veita, sé með föstum kjörum. Hvort sem það er með verðtryggingu eða vöxtum sem samið er um þarf það að vera fast og óumbreytanlegt út lánstímann svo sá sem tekur lánið veit að hverju hann gengur og hefur þar fast land undir fótum allan lánstímann. Hann tekur að vísu áhættuna af því að afsala sér hugsanlega skárri lánskjörum ef vextir kynnu að lækka en sá sem lætur lánið af hendi verður líka að sæta því að taka áhættu því hann getur ekki tekið sér hærri vexti ef vaxtastigið hækkar á lánstímanum. Það held ég að sé grundvallaratriði í fjármálaviðskiptum að þeir sem taka lán geti búið við það öryggi að lánskjör séu föst.

Eitt dæmi af hálfu stjórnvalda sem hefur breytt verulega miklu fyrir lántakendur er hringlandaháttur og lagabreytingar sem koma aftan að fólki."

Áfram heldur þingmaðurinn:

Ég vil líka nefna að með verðtryggingunni sem slíkri er sá sem veitir lánin að taka sér býsna miklar tryggingar gagnvart öllum hugsanlegum breytingum, t.d. breytingum erlendis sem við getum ekki haft nein áhrif á og valda erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Lánveitendur hafa tryggt sig fyrir þeim þó að þeir erfiðleikar lendi á almenningi í landinu af fullum þunga að öðru leyti. Þannig má nefna sem dæmi, sem að sumu leyti er kannski dálítið broslegt, að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu leiðir til hækkunar skulda hjá fólki hér á landi af því að sá sem hefur lánað hefur tryggt sig fyrir því með svokallaðri lánskjaravísitölu og hvernig að því er staðið að reikna hana út.

Maður kann auðvitað að spyrja sjálfan sig: Er rétt eða eðlilegt að sá sem á útistandandi peninga hjá öðrum þurfi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum? Á hann að njóta þess að eign hans hjá öðrum hækkar við að erfiðleikar verði í kaffiuppskeru í Brasilíu? Það er nákvæmlega það sem gerist að það veldur hækkun á höfuðstól lánsins."

Og svona endar ræða þingmannsins:

En í heildina finnst mér óeðlilegt að verðtrygging skuli vera slík trygging fyrir þá sem lána peninga sem raun ber vitni. Þeir hafa í raun og veru allt sitt á þurru, taka enga áhættu og áskilja sér þar að auki heimild til þess að auka kostnaðinn við lántökuna með breytilegum vöxtum ef tilteknar aðstæður leiða til þess að vextir almennt hækka í þjóðfélaginu.

Staða þeirra sem lána gagnvart stöðu þeirra sem skulda allt of ójöfn. Staða þeirra sem skulda þarf að verða miklu styrkari en hún er í reynd.  Því tel ég þetta frv. í sjálfu sér fyllilega tímabært og vænti þess að það leiði til skaplegrar umræðu um lánskjör og ávöxtun sparifjár, eins og hér segir, en kannski ekki hvað síst um stöðu skuldara í samfélagi markaðshyggjunnar."

Þessi orð mælti Kristinn H. Gunnarsson á 116. löggjafarþingi árið 1992, í 2. umræðu um frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu.

Ræðuna í heild sinni má finna hér.

Kristinn:  Hvað breyttist?


mbl.is Eftirstöðvar sexfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband