#202. Til hamingju, en....?

Um leið og ástæða er til að óska starfsfólki Gengislána og skjólstæðingum þeirra til hamingju með niðurstöðuna furða ég mig á því hvers vegna ákvæði laga um neytendalán eru ekki notuð í málatilbúnaði. 

Ég er að sjálfsögðu að tala um ákvæði um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem ég er nokkrum sinnum búinn að benda á hér á blogginu og í athugasemdum annars staðar að mögulega eigi að byggja á í málatilbúnaði vegna gengistryggðra lána, sérstaklega vegna bíla-og tækjafjármögnunarsamninga almennra neytenda.

Fyrir þá sem vita ekki hvað ég er að tala um á ég við ákvæði 14.gr. laga um neytendalán nr. 121 frá 1994, en í þar var sagt að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Þetta ákvæði hefur nú verið tekið út úr núverandi lögum um neytendalán. Hins vegar ber að líta til þess að ákvæðið var gilt þegar neytendur gerðu sína gengistryggðu samninga við Lýsingu, Avant, SP-Fjármögnun og fleiri aðila, og ætti þess vegna að vera takmarkandi við innheimtu þessara samninga að mínu mati. 

Neytendum var kynnt við samningsgerð upphæð sem átti að vera heildarlántökukostnaður samningsins ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar svo hægt væri að bera saman ólíka fjármögnunarkosti. Bæði þessi atriði máttu ekki hækka samkvæmt þáverandi ákvæðum laganna nema forsendur breytinganna væru kynntar í samningi og tilgreint að breytingarnar gætu haft áhrif á heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ég leyfi mér að fullyrða að möguleg áhrif breytinga á þessi tvö atriði hafi aldrei verið tilgreind, og ég tel þar með óheimilt að innheimta eina krónu umfram það sem tilgreint var við samningsgerð, hvað sem endurreikningi líður. Endurreikningur hefur alltaf verið óþarfur að mínu mati vegna þessara ákvæða.

Við úrlausn þessara tveggja mála lítur dómurinn til ákvæða fyrrgreindra laga og tiltekur að sbr. ákvæði 1.mgr. 16.gr. laga nr. 121/1994, þá á neytandi sem greiðir upp lán fyrir umsamdan lánstíma rétt á lækkun heildarlántökukostnaðar sem annars hefði verið innheimtur eftir greiðsludagsetningu. En hvers vegna dómarinn lítur ekki til ákvæða 14.gr. sömu laga, og ég tilgreindi hér að ofan, er mér ókunnugt en mögulega var dómnum ekki kynntur upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar, og þess vegna er ekki tekin afstaða til þess hvort þær uplýsingar takmarki innheimtu samnings. Ég tel að þessi tvö atriði, upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar sé takmarkandi við innheimtu þessara lána, sbr. fyrrgreind lagaákvæði. Það á þó eftir að koma í ljós.

Mér hefur alltaf fundist einkennilegt að neytendur eigi að sætta sig endurreikning samnings þar sem þeim er gert að greiða hærri heildarlántökukostnað en samið var um í upphafi.  Ég tel það fullkomlega ólöglegt og hef skorað á lögmenn að láta reyna á þessi ákvæði í málatilbúnaði.

mbl.is Lýsing tapaði tveimur málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#201. Icelandair mun líklega tapa tugum milljóna á næstu 6 dögum!

Franskir flugumferðarstjórar hafa boðað 6 daga verkfall frá og með 0400UTC á morgun 24. júní til 30. júní. Mörgum flugum til og frá Frakklandi mun verða aflýst og óþægindi almennings verða mikil, enda mikil óvissa uppi og getur verkfallið haft áhrif á önnur flug sem þurfa að fljúga yfir Frakkland á tímabilinu, sem og fjölda annarra fluga innan Evrópu. Samskonar aðgerðir flugumferðarstjóra á síðasta ári leiddu til þess að allt að 1.800 flugum var aflýst á degi hverjum með tilheyrandi óþægindum fyrir almenna farþega og efnahagslegu tjóni. 

EasyJet býst við að verkfallið muni hafa áhrif á um 70 prósent af þeim 1.400 flugum sem félagið er með á áætlun á degi hverjum um alla Evrópu. 

Þá er ótalin áhrif á aðra flugrekendur, t.d. Ryanair, British Airways, KLM/Air France, Lutfhansa og að sjálfsögðu Icelandair.

Tjón Icelandair af þessu verkfalli í Frakklandi mun líklega skipta tugum milljóna. Því má búast við að SA og íslenska ríkisstjórnin muni biðla til franskra yfirvalda, og jafnvel ESB, að setja lög á þetta verkfall flugumferðarstjóra í ljósi almannahagsmuna og til að forða efnahagslegu tjóni, enda alveg ófært að launþegar fái að skaða efnahagslífið með þessum hætti.


mbl.is Verkföll kostuðu 400 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#200. Borgarverkfræðingar á sandölum?

Einkennilegt hversu erfitt það getur verið árið 2014 að hanna götu sem hentar þeim farartækjum sem um hana eiga að fara. Það er frekar ódýrt að skella skuldinni á verktakann ef mistök eiga sér stað við framkvæmdir. Er ekkert eftirlit með framkvæmdum hjá borginni?

Þá er vert að staldra við ef strætó kemst illa um götuna í dag, að sumri til og mjókka þarf umferðareyjar um 10 cm til að liðka fyrir þeim, hvernig eiga saltbílar borgarinnar að geta athafnað sig við snjóhreinsun á sömu götu þegar vetrar með yfir 3 metra snjótönn framan á bílnum?  Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að hreinsa götuna á veturna og ekki síður þegar frystir og þiðnar á víxl og snjóruðningarnir safnast upp og gefa ekkert eftir. Og hvernig á strætó þá að komast um?


mbl.is Of brattar vegna mistaka verktaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband