Færsluflokkur: Fréttir

#52. Laaangsóóótt túlkun á EES-samningnum.

Stöð 2 skýrði frá því í fréttum í gærkvöld að samkvæmt lögfræðiáliti stórrar lögfræðistofu fyrir fjármögnunarfyrirtæki, sem hvorugt mætti nafngreina, væri bann við gengistryggingu íslenskra lána við erlendar myntir mögulega talið brot á 40.gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.  Vísir.is skýrði svo frá því að um væri að ræða Lögmannstofuna Logos annars vegar og Lýsingu hinsvegar.  Í minnisblaði Logos segir að með túlkun héraðsdóms sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það er greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Því sé í raun verið að leggja kostnað og fyrirhöfn á lántaka fyrir það eitt að taka erlent lán. Með því sé veiting erlendra lána gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og það sé öllum líkindum brot á 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. 

Þessi túlkun á 40.gr. er að mínu mati mjög langsótt, en tek þó fram að ég er ekki löglærður maður. 

EES-samningurinn er að mínu viti fyrst og fremst milliríkjasamningur.  Markmið hans er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist EES.  Ákvæði hans eiga því að tryggja rétt aðila yfir landamæri og samræma löggjöf og framfylgni slíkrar löggjafar á milli aðildarríkja, sem eitt sé. 

40.gr. EES samningsins hljóðar svo: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar."

Takið eftir: Engin höft á milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra eða því hvar féð er notað til fjárfestingar!  Ég tel að átt sé við haftalausa fjármagnsflutninga á milli samningsaðila í aðildarríkjum EB og EFTA!  Ekki á milli samningsaðila innan eins og sama ríkis.  Af hverju ætti líka að vera þörf á höftum á milli samningsaðila innan sama ríkis undir sömu þjóðarlöggjöf?  Þessi túlkun Logos stenst illa skoðun að mínu mati.  Með EES-samningnum er verið að koma í veg fyrir að höft sé á fjármagnsflæði á milli ríkja á EES-svæðinu.   Hér er sem sagt átt við það sem kallast í raun milliríkjaviðskipti með fjármagn og að slík viðskipti eigi að vera haftalaus. 

Hvað téð gengistryggð neytendalán varðar var ekki um flutning fjármagns á milli aðildarríkja að ræða.  Innlendir aðilar lánuðu innlendum aðilum fé vegna bifreiða- eða íbúðakaupa.  Hvar bankarnir fjármögnuðu sig til þessa verkefnis er aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofnunar og neytanda.  Bankarnir fjármögnuðu sig á erlendum markaði að hluta til, einmitt undir formerkjum nefndrar 40.gr. að mínu mati.  Frekar má segja að gjaldeyrishöftin séu brot á 40.gr. samningsins heldur en gengistrygging höfuðstóls og afborgana lána á milli innlendra aðila.

Gengistrygging neytendaláns er ekki lögleg vísitölubinding í lánasamningi milli neytenda og lánastofnunar á Íslandi, og það kemur 40.gr. EES-samningsins ekkert við.


#48. Hvíldartími þyrluáhafnar

Þetta verður örugglega ekki eina dæmið þar sem þyrluaðstoðar er óskað en ekki er hægt að sinna henni vegna áhafnaskorts. Það er grafalvarlegt að Landhelgisgæslan sé í þeirri stöðu að geta ekki sinnt útkalli rétt suðvestur af Keflavíkurflugvelli vegna þess að vaktartími áhafnarinnar er búinn. Flugtími að skipinu Aþenu og til baka til Reykjavíkur er sennilega tæpur klukkutími með hífingu sjúklings í þyrluna. Það er ekki boðlegt að þjóðin og gestir hennar þurfi að lifa við svona lélega björgunarþjónustu! Nú veit ég ekki hvað áhöfnin var búin að gera um daginn en hugsanlega má spyrja hvort það sé nauðsynlegt að flugmenn á ríkisreknum björgunarþyrlum þurfi að hlýða flugvaktartímareglum hönnuðum fyrir flugrekendur á samkeppnismarkaði. Hafa þarf þó flugöryggi í huga þegar þetta er rætt en mér finnst vel koma til álita að gefa Landhelgisgæslunni undanþágu frá slíkum reglum enda sé það gert í ljósi almannahagsmuna. Það er einfaldlega ekki boðlegt að mikið veikt eða slasað fólk þurfi að vera í lífshættu vegna áhafnaskorts björgunaraðila. Við höfum þyrlurekendur í landinu sem hugsanlega geta sinnt einhverjum verkefnum sem þyrlur Landhelgisgæslunnar eru annars að sinna s.s. sjúkraflutningum sem ekki krefjast hífingarvinnu og ýmsum smærri verkefnum fyrir opinberar stofnanir. Þær þyrlur eru mun ódýrari á hvern flugtíma en stóru þyrlur Landhelgisgæslunnar.

Því miður er útlit fyrir að mannslíf þurfi að glatast áður en bragarbót verður gerð á hag Landhelgisgæslunnar. Ég vona að svo verði þó ekki.


mbl.is Sóttu tvo menn út á sjó í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#24. Og hverjir munu nýta verðmætin?

Þá erum við komin með enn eina ástæðuna fyrir veru bandaríska hersins í Afganistan. Hvað skyldi líða langt áður en þar verður orðið krökt af bandarískum verktökum að hjálpa Afgönum að nýta þessar auðlindir?
mbl.is Ofboðsleg verðmæti í jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband