#12. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 7. hluti.

Nú er nokkuð liðið frá því ég bloggaði síðast um lánastarfsemi SP Fjármögnunar .  Þá velti ég upp hugleiðingum um viðurlög við brotum á starfsleyfum, útgefnum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Víkjum aðeins að vafanum.  Í 36. gr. samningalaganna segir í b-lið m.a.: „Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli.   Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag." Minn samningur segir á einum stað:  „Samningur er 100% gengistryggður."  Jú, þetta er nú þokkalega skiljanlegt.  (En löglegt, það er annað mál.  En sleppum þeirri umræðu núna.)  Nema forstöðumaður inheimtusviðs SP segir í tölvupósti: „Samningur [nr. samnings] er í erlendri mynt og verður innheimtur sem slíkur......."  Sami aðili hefur ekki enn getað bent á þá grein samningsins þar sem þetta sjónarmið fyrirtækisins er stutt, þrátt fyrir óskir mínar þar að lútandi.

Ég hef áður nefnt 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem segir að þau „skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði."  Ábyrgð á að svo sé frá degi til dags, er væntanlega á herðum framkvæmdastjóra, þó ábyrgð stjórnar hljóti að koma þar að ætli hún eða hafi vitneskju um hið gagstæða.

Ég hef sent SP 3 skrifleg erindi í vetur, þar sem ég efast m.a. um lögmæti þessara samninga og fer fram á endurgreiðslu ofgreiddra greiðslna.  Í símtölum við lögfræðing SP hef ég bent á að fyrirtækið skorti, að mínu mati, heimildir til viðskipta með erlendan gjaldeyri og gengisbundin bréf, eins og ég hef áður rakið hér á blogginu.  Svör fyrirtækisins eru einföld eins og hér er sýnt úr tölvupósti frá lögfræðingi þess þ. 31. mars sl. (ég hef ákveðið að nafngreina ekki umrædda  einstaklinga að sinni):  „Eins og fram hefur komið í samtölum okkar tölupóst‐ og símleiðis, þ.e. bæði við mig og [........], þá er öllum kröfum og yfirlýsingum þínum hafnað hvað varðar ólögmæti leigusamnings okkar í millum. Við lítum svo á að samningar okkar séu löglegir og innheimtum því fjárkröfur okkar samkvæmt þeim með tilliti til aðstæðna í því formi sem greiðsluúrræði okkar kveða á um."

Ég hef þó fengið tvo tölvupósta þar sem annars vegar framkvæmdastjóri SP og hins vegar lögfræðingur SP, vísa til réttaróvissu um gengistryggða bílasamninga.  Lögfræðingurinn segir í sama tölvupósti þ. 31. mars: „Erindi þín hafa verið fremur ítarleg og ljóst að talsverð vinna hefur farið í þau skrif en afstaða okkar stendur óbreytt engu að síður á meðan óvissa ríkir um stöðu vegna skulda einstaklinga og fyrirtækja [innsk: hann á  væntanlega við skuldir þessara aðila við SP í formi bílalána og bílasamninga] ."

Áður hafði eftirfarandi borist frá framkvæmdastjóra SP 30. mars sl. í kjölfar tölvupósts sem ég sendi honum:

Sæll Erlingur.

Skv. upplýsingum frá [.......] tjáði hann þér að SP mun ekki taka efnislega til varna vegna ágreinings um leigusamninga sem upp geta komið á milli viðskiptavina og SP í formi tölvupósts.   [innsk:  3 bréf voru send, nokkur símtöl hringd og svo síðar sendir tölvupóstar til að ýta á eftir svari frá fyrirtækinu.  Það tók tæpa 4 mánuði að fá svar frá þeim.]  Réttaróvissa ríkir um málið og dómstólar og/eða stjórnvöld munu greiða úr um þann ágreining sem upp er kominn.

Afstaða SP er skýr og hefur marg oft komið fram samskiptum sem þú hefur átt við bæði [........] og [........] á síðustu mánuðum.

SP er að bjóða sínum viðskiptavinum úrræði til þess að halda greiðslubyrði í nálægð við það sem áður var á meðan þessi óvissa ríkir.

Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig frekar um þetta mál á þessum vettvangi.

Bestu kveðjur

Kjartan"

Takið eftir þessu orðalagi: „....SP mun ekki taka efnislega til varna vegna ágreinings um leigusamninga sem upp geta komið á milli viðskiptavina og SP...."  Með öðrum orðum þeir neita að svara efnislega, bréfum og rökstuðningi, sem til þeirra er beitt.  Ég tjáði lögfræðingnum í símtali þegar hann kynnti mér afstöðu SP, að ég myndi líklega skjóta máli mínu til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.  Hans viðbrögð voru þau, að félli úrskurður nefndarinnar SP í óhag myndu þeir skjóta honum til dómstóla til staðfestingar.  Með öðrum orðum, SP mun ekki fara eftir slíkum úrskurði heldur óska eftir meðferð dómstóla á málinu með tilheyrandi óþægindum fyrir neytendur.  Það skal þó haft í huga að það er réttur hvors málsaðila um sig að óska eftir úrskurði dómstóla skv. samþykktum nefndarinnar.

En eru þetta eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir skv. fyrrnefndri 19. gr.?  Ég geri ráð fyrir að teknu tilliti til viðskiptahátta SP undafarin misseri að innheimtuaðgerðir myndu fara fram samhliða meðferð dómstóla á slíkum úrskurði.

„Réttaróvissa ríkir um málið" segir framkvæmdastjórinn réttilega.  Ég fann ekki orðið „réttaróvissa" á vefbókasafni snara.is, en fletti upp orðinu „óvissa" í staðinn og fékk eftirfarandi skýringu: 

„ó|vissa KVK

1              það að vita ekki fyrir víst, vafi, tvísýna, mikil óvissa er ríkjandi ekki er vitað hvað verður, hvernig málum lyktar

2              fornt/úrelt óviss eða tvíræð framkoma, fjandskapur, mein"

Þar er það bara svart á hvítu.  Óvissa er vafi og vafa á að túlka neytanda í hag skv. samningalögum.  Það væru eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur á fjármálamarkaði.  En ætlar SP að virða óvissuna?  Ónei.  Þar á bæ er innheimtuaðgerðum haldið áfram af fullum krafti og bifreiðar hirtar af fólki um allan bæ.

Það skal áréttað að allar leturbreytingar og undirstrikanir eru mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

stefna SP virðist vera hin sígilda hentistefna.

Brjánn Guðjónsson, 18.4.2010 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband