#19. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 14. hluti.
27.4.2010 | 18:43
Við erum langt komin með yfirferð á almennum samningsskilmálum SP-Fjármögnunar hf.
15. gr. fjallar um afhendingu hins leigða við riftun. Þar segir 1.mgr. að ef samningi sé rift skuli afhenda bifreiðina á stað sem SP tiltekur. Leigutaki skal standa straum af útgjöldum vegna flutnings, þ.m.t. vátryggingu, sem og kostnaðar við að þrífa, yfirfara, viðgerðir vegna bilana og skemmda á bifreiðinni. Leigutaki ber ábyrgð ef bifreið eyðileggst af tilviljun, skemmist eða rýrnar uns SP hefur tekið við henni." Síðasta málsgreinin er enn einn óréttmæti samningsskilmálinn: Neiti leigutaki að afhenda bifreiðina eftir riftun er SP, eða öðrum aðila sem SP vísar til, heimilt að færa bifreiðina úr vörslum hans án atbeina sýslumanns." Ekki er hægt að gera kröfu til þess leigutaki semji frá sér lögvarinn réttindi. Slíkt framferði er óréttmætt og gagnstætt góðri viðskiptavenju og ekki síst, brot á lögum um aðför.
Aðför er skv. orðabókarskilgreiningu: lögleg valdbeiting til að knýja fram tildæmdan rétt (fjárnám, innsetningargerð eða útburðargerð). Hana má gera til fullnustu kröfum samkvæmt heimildum 1. gr. laga um aðför. Í 4. gr. laganna segir: Með aðfarargerðir fara sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra." 5.gr. segir: Aðför má gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir eru fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Aðför má gera eftir [stefnu],1) þegar hún hefur verið árituð af dómara um aðfararhæfi." Þannig er fyrirmælt að ekki má taka bifreið án fyrirvara. Lög um nauðungarsölu krefjast einnig leyfis sýslumanns ef vörslutaka eignar eigi að fara fram.
Talsmaður neytenda gerir þetta atriði að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni. Hann segir um vörslusviptingar án dóms og laga: Af þessu tilefni vekur talsmaður neytenda einnig athygli á því að ekki stenst lög um fullnusturéttarfar [innsk: lög um aðför] að eignarleigufyrirtæki svipti neytendur vörslum bifreiða án þess að sýslumaður veiti atbeina sinn að slíkri vörslusviptingu.
Hefur talsmaður neytenda undanfarið ráðfært sig við aðra lögfróða um þetta álitaefni. Telja verður í ljósi fræðilegrar umfjöllunar og lögskýringargagna - m.a. að því er varðar lög um neytendalán - að vörslusviptingar af hálfu eignarleigufyrirtækja án atbeina sýslumanns standist ekki. Er sú afstaða einkum byggð á því að í fullnusturéttarfari er talið að beina lagaheimild þurfi til svonefndrar aðfarar án undangengins dóms; enn síður ætti að vera hægt að framkvæma ígildi aðfarar með vörslusviptingu án þess að sýslumaður - sem handhafi opinbers valds - veiti atbeina sinn að því. [innsk: leturbreyting er mín] Slíka aðför er enda lögum samkvæmt unnt að bera undir dómara. Er neytendum, sem verða fyrir slíkum vörslusviptingum án dóms og laga" eða búast við slíku, ráðlagt að leita aðstoðar lögmanns eða jafnvel lögreglu - einkum í ljósi þeirrar óvissu sem er um réttmæti krafna samkvæmt framangreindu og í ljósi réttaróvissu sem er um lögmæti gengislána eins og áður hefur komið fram."
Hér er ennfremur vert að hafa í huga að ofangreind "heimild SP" tekur ekki til persónumuna leigutaka sem kunna að vera inn í bifreiðinni þegar vörslusvipting fer fram! Þar með er hægt að kæra hvern þann sem að slíkri vörslusviptingu stendur fyrir þjófnað á slíkum persónumunum.
SP reynir sjálfsagt að halda því fram að þar sem þeir séu eigandi sé þeim heimilt að ná í eigur sínar en samkvæmt samningi er leigutaki umráðamaður bifreiðarinnar á samningstíma.
Flokkur: Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Facebook
Athugasemdir
Ég las góða grein þína í Morglunblaðinu í dag. Þar kemur þú inn á brot á stjórnarskránni í bílasamningum SP. Ég hef aldrei tekið svona lán né lesið þessa samninga. Hins vegar blöskrar mér hversu mikið almenningur var blekktur af "sérfræðingum".
Ef samningurinn vísar í brot á almennum lögum, sér í lagi stjórnarskrá, þá hlýtur sá samningur að vera ógildur í heild sinni. Þar af leiðandi nægir að skila ökutækinu og semja um greiðslu fyrir eðlileg afnot. Miðað við það sem maður heyrir og les í fjölmiðlum - þá ættu það að vera fjármögnunarfyrirtækin sem þurfa að borga til baka mismun - sem og að borga skaðabætur fyrir það tjón sem þau hafa sannarlega valdið viðkomandi.
Dæmi: Þú getur ekki gert VISA-rað samning vegna fíkniefnasölu og ætlast til þess að sýslumaður sjái um að innheimta skuldina fyrir þig!
Nú verður einhver sem er með svona samning í höndunum að láta reyna á þetta. Ef viðkomandi er með góða fjölskyldutryggingu þá standa tryggingafélögin straum af slíkum kostnaði.
Sumarliði Einar Daðason, 28.4.2010 kl. 10:16
Takk fyrir Sumarliði......það er verið að fara yfir málin hvað varðar samninga vegna SP-Fjármögnun hf. VÍS hefur hafnað að standa straum af málskostnaði í gegnum heimilistryggingu ef það tengist ökutæki, þannig að einstaklingar verða að standa straum af því sjálfir. En dæmist málið þeim í vil borga eignaleigufyrirtækin væntanlega málskostnaðinn.
Erlingur Alfreð Jónsson, 29.4.2010 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.