#52. Laaangsóóótt túlkun á EES-samningnum.

Stöð 2 skýrði frá því í fréttum í gærkvöld að samkvæmt lögfræðiáliti stórrar lögfræðistofu fyrir fjármögnunarfyrirtæki, sem hvorugt mætti nafngreina, væri bann við gengistryggingu íslenskra lána við erlendar myntir mögulega talið brot á 40.gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.  Vísir.is skýrði svo frá því að um væri að ræða Lögmannstofuna Logos annars vegar og Lýsingu hinsvegar.  Í minnisblaði Logos segir að með túlkun héraðsdóms sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það er greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Því sé í raun verið að leggja kostnað og fyrirhöfn á lántaka fyrir það eitt að taka erlent lán. Með því sé veiting erlendra lána gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og það sé öllum líkindum brot á 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. 

Þessi túlkun á 40.gr. er að mínu mati mjög langsótt, en tek þó fram að ég er ekki löglærður maður. 

EES-samningurinn er að mínu viti fyrst og fremst milliríkjasamningur.  Markmið hans er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist EES.  Ákvæði hans eiga því að tryggja rétt aðila yfir landamæri og samræma löggjöf og framfylgni slíkrar löggjafar á milli aðildarríkja, sem eitt sé. 

40.gr. EES samningsins hljóðar svo: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar."

Takið eftir: Engin höft á milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra eða því hvar féð er notað til fjárfestingar!  Ég tel að átt sé við haftalausa fjármagnsflutninga á milli samningsaðila í aðildarríkjum EB og EFTA!  Ekki á milli samningsaðila innan eins og sama ríkis.  Af hverju ætti líka að vera þörf á höftum á milli samningsaðila innan sama ríkis undir sömu þjóðarlöggjöf?  Þessi túlkun Logos stenst illa skoðun að mínu mati.  Með EES-samningnum er verið að koma í veg fyrir að höft sé á fjármagnsflæði á milli ríkja á EES-svæðinu.   Hér er sem sagt átt við það sem kallast í raun milliríkjaviðskipti með fjármagn og að slík viðskipti eigi að vera haftalaus. 

Hvað téð gengistryggð neytendalán varðar var ekki um flutning fjármagns á milli aðildarríkja að ræða.  Innlendir aðilar lánuðu innlendum aðilum fé vegna bifreiða- eða íbúðakaupa.  Hvar bankarnir fjármögnuðu sig til þessa verkefnis er aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofnunar og neytanda.  Bankarnir fjármögnuðu sig á erlendum markaði að hluta til, einmitt undir formerkjum nefndrar 40.gr. að mínu mati.  Frekar má segja að gjaldeyrishöftin séu brot á 40.gr. samningsins heldur en gengistrygging höfuðstóls og afborgana lána á milli innlendra aðila.

Gengistrygging neytendaláns er ekki lögleg vísitölubinding í lánasamningi milli neytenda og lánastofnunar á Íslandi, og það kemur 40.gr. EES-samningsins ekkert við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Hvar bankarnir fjármögnuðu sig til þessa verkefnis er aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofnunar og neytanda."

Um... meei,  er það nefnilega ekki endilega,  og eg hef reyndar margbent á að í dómunum (nema einu héraðsdómi) er ekkert gert með það hvort lánsfjármagnið hafi sannarlega verið upprunnið í erlendum gjaldeyri eða ekki.   Það er bara hlutlaust.  Aðeins horft á formlegheitin á pappírnum við lánveitngu.  Margbent á þetta - án nokkurs skilnings neinstaðar.

Reyndar, reyndar hefur mér í framhaldinu dottið svipað í hug og minnst er á í álitnum sem nefnd eru - en eg hef ekkert nennt að minnast á það eða reyna að útskýra fyrir fólki.  Mér finnst þetta umhugsunarvert.  Er þetta ekki bara brot á EES?

(Reyndar rakst eg á þetta blogg núna af tilviljun.  Hafði eigi heyrt þessa frétt ea lesið - og er alveg hissa að ekki skuli loga ,,bloggheimur" eins og stundum er sagt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2010 kl. 20:41

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Virkni bloggheima og lestur bloggs virðist mikið stýrast af því hvort umræðuefnið kom fyrst fram sem frétt á mbl.is eða ekki. Svo var ekki með þessa frétt og þess vegna er bloggheimur hljóður. Einnig heyrist lítið frá "lánabloggsleggjunum" um þetta mál.

Allir íslensku bankarnir fengu afslátt af fjárkröfum á neytendur en allir reyna þeir að innheimta þær að fullu. Enginn lætur afsláttinn renna til neytenda og þar með er uppruni þess fjármagns hlutlaus.

Það sem stendur því upp úr hvað þetta varðar er að uppruni lánsfjármagnsins er í raun hlutlaus eins og þú segir. Fjármögnunarfyrirtækin tóku gjaldeyrislán, að sögn, hjá innlendum lánastofnunum í erlendri mynt til að endurlána viðskiptamönnum sínum í íslenskri mynt með gengistryggingarákvæði. Þarna var sem sagt um sitt hvorn samninginn að ræða. Annars vegar á milli fjármögnunarfyrirtækisins og bankans, og hins vegar á milli fjármögnunarfyrirtækisins og viðskiptamannsins/neytandans. Og það er lykilatriðið. Sínir hvorir samningarnir. Þess vegna segi ég að þetta sé aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofunar og neytanda.

Erlingur Alfreð Jónsson, 22.8.2010 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband