#117. Ég hef líka kært ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar.
21.6.2011 | 21:45
Vorið 2010 kvartaði ég við Neytendastofu yfir samningsskilmálum SP-Fjármögnunar hf. í bílasamningi mínum. Skilmálarnir sem kvartað var yfir voru 4. Ég kærði afstöðu Neytendastofu við 3 skilmálum til áfrýjunarnefndar neytandamála.
Sá fyrsti var ákvæði 8.gr. samningsins um óskoraðan aðgang að m.a. heimili leigutaka". Taldi ég þetta brot á 71.gr. stjórnarskrár og ganga svo gegn hagsmunum neytenda að banna ætti notkun ákvæðisins með tilvísun í 13.gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. 2.mgr. greinarinnar segir að óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.
Þá kvartaði ég yfir skilmála sem heimilaði 15% afföll af matsverði bifreiðar við uppgjör vegna riftunar samnings. Taldi ég þetta tækifæri til ótilhlýðilegrar auðgunar t.a.m. ef tvær jafnþungar bifreiðar væru metnar, önnur að verðmæti 2.000.000 kr., hin að verðmæti 5.000.000 kr. 15% afföll af hvorri um sig eru 300.000 kr. annars vegar og 750.000 kr. hins vegar, að sögn til að standa straum af kostnaði svo sem vangreiddum vátryggingariðgjöld, bifreiðagjöldum og sölulaunum. Það segir sig sjálft að munurinn á þessum bifreiðum réttlætir ekki flata 15% skerðingu á verð bifreiðar vegna þessara kostnaðarliða. Slíkt væri brot gegn ákvæðum 19.gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán sem segir í 2.mgr.:
Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað."
Einnig kvartaði ég vegna skilmála sem heimilaði sölu leigumunar/bifreiðar á uppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík, ef leigutaki mótmælti uppgjöri vegna endurheimt leigumunar, án þess að fá tækifæri til að fá tvo dómkvadda matsmenn til að meta virði hennar. Fyrrgreind 19.gr. segir í 5.mgr.:
Komi upp ágreiningur um hvað sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð tveggja dómkvaddra og óhlutdrægra manna. Matsmenn skulu ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið."
Neytendastofa sendi svar nokkrum vikum síðar sem hvorki var fugl né fiskur og kvartaði ég við sviðsstjóra neytendaréttarsviðs vegna þeirra. Þrátt fyrir ítrekanir tók langan tíma að fá einhver viðbrögð þar til að ég blandaði umboðsmanni alþingis í málið fyrr í vetur. Neytendastofa svaraði umboðsmanni að erindum mínum hefði verið svarað utan eins. Umboðsmaður tók þetta gott og gilt og lokaði kvörtun minni. En ég gafst ekki upp og sendi umboðsmanni ítarlegra erindi og bað um að hann legði mat á það hvort Neytendastofa hefði í raun svarað erindum mínum með fullnægjandi hætti í upphaflegum svörum. Neytendastofa sendi mér svar við ósvaraða erindinu stuttu síðar, ásamt því að endurtaka svör við hinum erindunum.
Í dag barst mér hins vegar bréf umboðsmanns sem tók undir athugasemdir mínar og taldi að erindum mínum til Neytendastofu hefði aldrei verið formlega svarað. Hefur hann nú óskað skýringa Neytendastofu annars vegar á hvað líði afgreiðslu hennar á erindum mín og hins vegar í hvaða farvegi erindi mín eru í dag.
Eftir að ég sendi málið aftur til umboðsmanns barst mér bréf Neytendastofu dags. 25.maí þar sem erindum mínum var svarað með formlegum hætti, rúmu ári eftir að þau voru upphaflega send stofnuninni.
Neytendastofa taldi ekki að lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu ættu við um þá háttsemi að gera neytanda skylt að veita fjármögnunarstofnun óskoraðan aðgang að heimili sínu. Þar með gæti stofnuninn ekkert gert vegna þessa skilmála.
Neytendastofa taldi ekki að 19.gr. laga um neytendalán ætti við um bílasamning minn, þess vegna gæti stofnunin ekkert gert vegna skilmála um 15% afföll eða heimild í skilmálum til að selja bifreið án dómkvaddra matsmanna. Engu að síður staðfesti stofnunin að lög um neytendalán ættu við um samninginn, bara ekki ákvæði 19.gr.! Vægast sagt undarlegt.
Þessi afstaða hefur nú verið kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála sem á að taka afstöðu innan 6 vikna.
Í kærunni til áfrýjunarnefndar nefndi ég þá skoðun mín aða eignaréttur SP-Fjármögnunar á lánstímanum séí raun aðeins leið lánveitanda til að komast hjá lögbundnum neytendarétti í viðskiptum við neytanda. Nefni þar t.a.m. aðfarargerð með atbeina sýslumanns við endurheimt söluhlutar, þegar lánveitandi er ekki sölu-eða þjónustuaðili þeirrar vöru sem kaupin snúast um, heldur kemur að eingöngu að viðskiptunum sem fjármögnunaraðili. Við þekkjum öll sögurnar um vörslusviptingar fjármögnunarfyrirtækjanna án atbeina sýslumanns. Þá er eingarétturinn einnig leið til að komast hjá því að neytandi megi kveða til dómkvadda matsmenn til verðmats þegar ágreiningur um verðmat söluhlutar er að ræða enda sé neytandinn ekki eigandi hlutarins.
Gott fólk! Ekki gefast upp í baráttunni við Neytendastofu og óheiðarlega þjónustuaðila sbr. fjármögnunarfyrirtækin. Neytendastofu ber að vinna fyrir neytendur en stundum fara þau aðeins út af sporinu. Það verður þá að vera okkar að ýta þeim inn á sporið að nýju.
Kreditkort kærir til áfrýjunarnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.