#119. Svör fjármögnunarfyrirtækjanna við upplýsingabeiðni Fjármálaeftirlitsins vegna uppgjörs í kjölfar riftunar samnings.
22.6.2011 | 22:12
1. nóvember 2010 sendi ég Fjármálaeftirlitinu tölvupóst og óskaði eftir afritum af svörum fjármögnunarfyrirtækjanna fjögurra, Avant, Íslandsbanka-Fjármögnunar, Lýsingar hf. og SP-Fjármögnunar hf. við dreifibréfi stofnunarinnar frá 9. apríl 2010 þar sem óskað var upplýsinga fyrirtækjanna á verklagi vegna uppgjörs á fjármögnunarsamningi í kjölfar riftunar. Eftir nokkra bið og ítrekanir af minni hálfu fékkst loks svar 3.desember þar sem Fjármálaeftirlitið neitaði mér um aðgang að svörunum. Var ástæðan sögð sú að þær upplýsingar sem óskað er eftir aðgangi að eru svör umræddra fjármálafyrirtækja við upplýsingabeiðni Fjármálaeftirlitsins er varðar framkvæmd uppgjörs í kjölfar riftunar á kaupleigusamningum á bifreiðum. Svör fyrirtækjanna varða rekstur þeirra, þ.á m. innri verkferla og upplýsingar um kerfi fyrirtækjanna, og því mikilvæga viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt. Með hliðsjón af 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 5. gr. upplýsingalaga synjar Fjármálaeftirlitið aðgangi að umbeðnum gögnum."
Þessi neitun Fjármálaeftirlitsins var umsvifalaust kærð til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU) þ. 6. desember 2010 sem úrskurðaði 31.maí sl. (úrskurður nr. A-370/2011) að ég ætti rétt á aðgangi að svarbréfunum. Bréfin bárust mér í pósti 10. júní sl.
Hér á eftir nefni ég meginatriði hvers bréfs fyrir sig, eins og ég met þau, en á undan hverri upptalningu hér að neðan eru tenglar á bréfin fyrir þá sem vilja skoða þau sérstaklega.
Spurningar FME til fjármögnunarfyrirtækjanna í bréfinu 9.apríl 2010 voru í meginatriðum þessar:
1. Óskað var lýsingar á því ferli sem á sér stað við uppgjör vegna riftunar á kaupleigusamningum. Meðal annars var óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig verðmat og uppgjör fer fram.
2. Spurt var hvort uppgjör væri endurskoðað ef söluverð væri hærra en matsverð á uppgjöri. Ef svo væri hvernig og hvenæar sú endurskoðun færi fram.
Meginatriði bréfs SP-Fjármögnunar hf.:
- Ýmist talað um skuldara eða leigutaka í bréfinu sem undirritað er af Pétri Gunnarssyni forstöðumanni fjármálasviðs SP.
- Skuldari ber kostnað af vörslusviptingu þegar bifreið er endurheimt á grundvelli kaupleigusamnings, ef hann skilar bifreiðinni ekki sjálfur; algengur kostnaður vegna þessa sagður 15-20 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu.
- Skuldari ber kostnað á ástandsskoðun í Frumherja, oftast kr. 15-20 þús.
- Verðmat er framkvæmt og notast við Bíló kerfi Bílgreinasambandsins; 15% áætlaður kostnaður er dreginn frá verðmati til að greiða fyrir vátryggingariðgjöld, bifreiðagjald, sölulaun o.þ.h. [15% af verðmati bifreiðar getur verið æði misjöfn upphæð á milli bifreiða og endurspeglar ekki raunkostnað nefndra kostnaðarliða; tökum tilbúið dæmi fyrir 2 bifreiðar sem hvor um sig er 1.800 kg. Tryggingariðgjöld, bifreiðagjöld og annar kostnaður er svipað hár fyrir þær báðar en önnur bifreiðin er að verðmæti 2.000.000 kr, hin 5.000.000 kr. 15% af 2 millj. er 300.000 kr. en 750.000 kr. fyrir hina dýrari. Munurinn er 450.000 kr! Hér er því um ólögmæta auðgun að ræða að mínu mati.]
- Uppgjörsbréf sent skuldara.
- Segir að öll uppgjör vegna riftana frá 1.október 2008 hafa verið endurskoðuð. [ATH: Fyrir dagsetningu bréfsins.]
- Þegar söluuppgjör er unnið þá er allur útlagður kostnaður dreginn frá söluverði, t.d. sölulaun, bifreiðagjöld, vátryggingariðgjöld (frá riftun fram að sölu), kostnaður vegna niðurfellingar á umráðamanni hjá Umferðarstofu, viðgerðarkostnaður ef einhver er. [Úr svarinu má þannig lesa að sami kostnaður virðist tvisvar dreginn frá, fyrst frá verðmati söluhlutar og síðan aftur frá söluverði hans! Ef svona vinnubrögð eru ekki ólögmæt auðgun þá veit ég ekki hvað ólögmæt auðgun er.]
- Að auki eru reiknaðir vextir á eignfærsluverðið frá eignfærsludegi að söludegi!!! [Ég hefði gjarnan viljað sjá nánari útskýringu á þessum lið því ég kannast ekki við þessa heimild í samningsskilmálum.]
- Vinna við söluuppgjör er sögð geta tekið allt að 30 daga.
- Enginn andmælafrestur viðskiptamanns er tilgreindur í bréfinu en ég hef séð 7 daga frest tilgreindan í samningsskilmálum.
Meginatriði bréfs Lýsingar hf.:
- Vegna fyrri liðar fyrirspurnar FME er vísað í meðfylgjandi verkferla sem ÚNU veitti ekki aðgang að. [Það gæti sennilega orðið Lýsingu til tjóns að almenningur fengi að vita hverjir þeir eru!]
- Lýsing hf. lýsir eingöngu verklagi við uppgjör en svarar ekki beint öðrum lið fyrirspurnarinnar um hvort uppgjör sé endurskoðað ef söluverð er hærra en matsverð á uppgjöri. Þó er sagt að ef ágreiningur sé um uppgjör megi forstöðumenn Eignaumsýslu samþykkja að viðskiptamaður njóti góðs af söluverði umfram matsverð. [Sem sagt engin sjálfvirk eða sjálfsögð endurskoðun á matsverði nema viðskiptamaður mótmæli sjálfur.]
- Lýsing hf. styðst við Bíló kerfið við verðmat, eins og SP-Fjármögnun hf.
- Dregur frá matsverði áætlaðan viðgerðarkostnað.
- Segist ekki nýta 15% affallaheimild nema í undantekningartilvikum; ekki er útskýrt hver þessi undantekningartilvik eru.
- Ef ágreiningur er til staðar er taldir upp 4 mismunandi farvegir sem málið fer í, þar er ekki talið upp að viðskiptamaður geti kallað til dómkvadda matsmenn til að skera úr um ágreining vegna verðmats.
- Gefur viðskiptamanni 7 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
- Undirritað af Sigurbjörgu Leifsdóttur, áhættustjóra hjá Lýsingu.
Meginatriði bréfs Íslandsbanka - Fjármögnun:
- Notast við Bíló kerfið við verðmat.
- Leyfir dómkvadda matsmenn vegna ágreinings um verðmat en áskilur sér rétt til að krefjast yfirmats [endurmat áður metinna atriða] og hnekkja mati dómkvaddra matsmanna! Vísað er í IX. kafla, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
- Gefur viðskiptamanni 5 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
- Ef tækið hefur ekkert markaðsgildi hefur Íslandsbanki-Fjármögnun heimild til að falla frá eignarétti sínum. Hvort það ákvæði hafi verið nýtt veit ég ekki.
- Iðulega bætist við vangoldin tryggingariðgjöld og bifreiðagjöld ásamt áföllnum innheimtkostnaði og áætluðum 3,5% sölukostnaði af nettó söluverði. Lágmarksþóknun er þó sögð 49.900 kr.
- Meginregla er að uppgjör er ekki endurskoðað eftir að sala hefur átt sér stað.
- Talar um leigutaka.
- Undirritað af Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra.
Meginatriði bréfs Avant:
- Gefur viðskiptamanni 10 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
- Notast við söluverð hjá Bílgreinasambandinu (Bíló-kerfið).
- Frá verðmati er dreginn áfallinn kostnaður s.s vörslusvipting, flutningur, ástandsskoðun, þrif, áfallnar tryggingar, bifreiðagjöld og sektir, og áætlaður kostnaður, viðgerðarkostnaður, sölulaun og geymslukostnaður ásamt því að gert er ráð fyrir 15% aukaafföllum frá uppgefnu söluverði. [Er ekki vottur af ólögmætri auðgun hér á ferð?]
- Endurskoðar ekki uppgjör.
- Segist taka á sig allan kostnað vegna leigumunar frá riftunardegi en segir jafnframt í svari vegna liðar nr.1 draga frá verðmati fyrrgreindan áfallinn og áætlaðan kostnað. Hér stangast því svörin á!
- Undirritað af Hafdísi Böðvarsdóttur, forstöðumanni fjármálasviðs.
Hér rétt að benda á að öll fjármögnunarfyrirtækin styðjast við Bíló-kerfi Bílgreinasambandsins við gerð verðmats. Þegar svörin voru rituð vorið 2010 lá það fyrir að fjármögnunarfyrirtækin gættu ekki hagsmuna viðskiptamanna sinna nema að litlum mæli þar sem stuðst var við ófullnægjandi upplýsingar úr lélegum og illa uppfærðum gagnagrunni Bílgreinasambandsins á þeim tíma. Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins telur upplýsingarnar í kerfinu í lang flestum tilfellum nokkuð áreiðanlegar í dag, júní 2011, en taka skal fram að um viðmiðunarverð er að ræða. Bílar eru misjafnir að búnaði sem og gæðum, sérstaklega þegar þeir eru komnir til ára sinna. Ekkert bendir til að fjármögnunarfyrirtækin hafi tekið tillit til þessa við uppgjör samninga.
Viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við svörum fyrirtækjanna voru að senda dreifibréf til að áminna fyrirtækin um að stunda eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármagnsmarkaði þannig að væntanlega var það mat stofnunarinnar að svörin bæru með sér að slíkir viðskiptahættir hefðu ekki verið stundaðir, sbr. 19.gr. laga um fjármálafyrirtæki, við uppgjör samninga vegna riftunar. Þó sá stofnunin ekki ástæðu til að beita frekari viðurlögum sem henni er þó heimilt sbr. lög um fjármálafyrirtæki, en í XIV. kafla um viðurlög segir í 7.tl. 110. gr. um stjórnvaldssektir:
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
.............
7. 1. og 2. mgr. 19. gr. um að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði,"
Í uppgjörunum sem um ræðir er ekki um lágar upphæðir að ræða heldur meinta ólögmæta auðgun svo skiptir hundrðum þúsunda eða milljónum króna í einstaka tilvikum. Samt sem áður hefur enginn stjórnandi eða fjármögnunarfyrirtæki verið látið axla ábyrgð sbr. heimildir fyrrnefndar 110 gr. Hvernig á að bæta siðferði þessa fólks ef að viðurlögum er ekki beitt?
Fyrir þá sem hafa áhuga set ég hér tengla á bréf með rökstuðningi FME fyrir því að ég eigi ekki að fá aðgang að svörunum sem og andsvar mitt til ÚNU vegna rökstuðning FME. Dæmi nú hver sem vill.
Andsvar mitt til ÚNU 15. janúar
Athugasemdir
Glæsilega frammistaða hjá þér. Ekki gefa tommu eftir.
Sigurður Sigurðsson, 23.6.2011 kl. 16:38
Frábært Erlingur, ekki gefa eftir.
En hversu mikið af þessu skiptir raunverulega máli þegar nú hefur verið dæmt að það er ekki til neitt sem heitir vaxtaberandi leigusamningur. Slíkir samningar eru í raun og veru lánasamningar og því hljóta lántakendur að vera raunverulegir eigendur þeirra tækja sem lánað var fyrir. Fyrst fengu þeir lánaða peninga, notuðu svo þá peninga til að kaupa sér t.d. bíl. Það var aldrei SP eða Avant sem keypti neina bíla í raun og veru, ekki frekar en að Íbúðalánasjóður kaupi fasteignir heldur lánar hann fólki fyrir þeim.
Ég ræddi þetta óformlega við lögfræðing umferðarstofu, hvort ekki væri ástæða til að leiðrétta allar þessar röngu eigendaskráningar. Án þess að vilja taka afstöðu til þess sýndi hún þessu sjónarmiði skilning, en sagði að beiðni um breytingu á eigendaskráningu þyrfti almennt séð að berast frá þegar skráðum eiganda (í þessu tilviki fjármögnunarfyrirtækinu). Þegar ég benti henni á hið augljósa að fyrirtækin væru ólíkleg til að gera það ótilneydd, og spurði hvernig maður gæti sótt rétt sinn í þessu, þá virtist af svörum hennar að eina leiðin til að þvinga fram leiðréttingu á þessu væri með málshöfðun.
Getur verið að þúsundir ökutækja og vinnuvéla á Íslandi séu með kolranga eigendaskráningu? Ég fæ ekki betur séð en að svo sé. Efnahagsreikningar þar sem þessi tæki er færð sem eign hljóta því að vera í raun og veru falsaðir, því samningarnir eru ekki veðlánasamningar og óþinglýstir. Að færa sem trausta eign (veðhæft ökutæki) eitthvað sem að í raun og veru er bara skuldabréf sem eru í flestum tilvikum mun minna virði, er varla annað en fjársvik.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2011 kl. 20:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.