#131. Óðs manns æði?

Því má kannski líkja við óðs manns æði fyrir ólöglærðan mann að ætla bera á móti lagatúlkunum virts hæstaréttarlögmanns sem jafnframt er formaður Lögmannafélagsins.  En ég get haft skoðun á þeim, og birt þá skoðun hér, enda er dagljóst hverra erinda lögmaðurinn gengur í sínum túlkunum.  Guðmundur Andri Skúlason hefur líka svarað túlkunum lögmannsins á vefsíðu Samtaka lánþega.  Mér finnst líka alveg merkilegt hversu ósammála reyndir lögmenn geta verið um túlkun lagagreina.  Það er eins og þeir hafi ekki lært sömu lögfræðina.

Lögmaðurinn umræddi, Brynjar Níelsson, fer fram í Pressupistli sínum í gær og gagnrýnir fréttaflutning RUV um vörslusviptingar fjármögnunarfyrirtækjanna; segir þær eiga fullan rétt á sér ef að samningsskilmálar á milli aðila heimila slíkt framferði.  Lögmaðurinn nefnir hins vegar ekki að samningsskilmálarnir voru einhliða samdir af öðrum aðilanum, fjármögnunarfyrirtækinu, sem ber að stunda eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á fjármagnsmarkaði skv. lögum.  Neytandinn hafði enga möguleika að breyta skilmálunum við samningsgerð.  Hann nefnir ekki heldur ákvæði Evróputilskipunar frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, nr. 87/102/EBE, sem Íslandi ber að uppfylla, en í henni segir 7.gr.:

„Þegar um er að ræða lán sem veitt er til vörukaupa skulu aðildarríki kveða á um skilyrði fyrir endurheimtingu eignarréttar á vörunum, einkum þegar neytandinn hefur ekki veitt samþykki sitt til þess. Þau skulu enn fremur tryggja að þegar lánveitandi tekur vörurnar aftur til sinnar eignar, séu reikningar aðila gerðir upp á þann hátt að endurheimting eignar hafi ekki í för með sér neina ótilhlýðilega auðgun." 

Upphaflegt frumvarp til laga um neytendalán til að uppfylla þess tilskipun fól í sér eftirfarandi grein í VII. KAFLA:

„Endurheimt eignarréttar.

23. gr.

Lánveitandi getur endurheimt hlut á grundvelli kaupsamnings með atbeina sýslumanns ef kaupsamningurinn uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1 . Kaupsamningurinn skal vera undirritaður af lántakanda og honum hefur verið afhent eintak af samningnum.

2 . Kaupsamningurinn verður að kveða á um eignarréttarfyrirvara. Þrátt fyrir samþykki lántakanda er ekki heimilt að endurheimta hlut ef hann er undanþeginn aðför að lögum."

Þannig að upphaflega var gert ráð fyrir að lánveitandi leitaði til sýslumanns þegar endurheimta átti vörur.  Í meðförum þingsins var þessu ákvæði breytt á eftirfarandi hátt af Vilhjálmi Egilssyni og félögum í efnahags- og viðskiptanefnd:

„Lagt er til að VI. og VII. kafli verði sameinaðir og 22. og 24.--29. gr. falli niður þannig að tvær greinar verði í kaflanum. Er þetta gert til þess að einfalda reglurnar, auk þess sem það þykir óþarft að hafa sérstakar reglur um lágmarksverð vöru, staðgreiðsluhlutfall, tilkynningar um innheimtu eða sérstakar aðfararreglur."

Greininni var því breytt og endaði sem hér segir:

„21. Við 23. gr. (er verði 19. gr.). Greinin orðist svo:

  • Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt hlutinn á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtunnar er að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
  • Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
  • Ef andvirði söluhlutar er meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
  • Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort slit og rýrnun söluhlutar er eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.
  • Komi upp ágreiningur um hvað sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð tveggja dómkvaddra og óhlutdrægra manna. Matsmenn skulu ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið."

Þetta ákvæði stendur óbreytt sem 19.gr. laga um neytendalán í dag.

Þá vísar lögmaðurinn í pistli sínum til frægra Hæstaréttarmála sem samstarfsaðili hans, Sigurmar K. Albertsson, sótti fyrir hönd Lýsingar og SP-Fjármögnunar hf., bæði í héraði og Hæstarétti, og nefnir að þar hafi einungis einu samningsákvæði verið vikið sem ólögmætu, nefnilega gengistryggingu.  Annað standi óbreytt.  Ekki má heldur gleyma því að eiginkona Brynjars er Arnfríður Einarsdóttir sem dæmdi Lýsingu og Sigurmar í vil um lögmæti afturvirkra vaxta í Héraðsdómi.  Brynjar nefnir ekki að Hæstiréttur taldi í dómi 92/2010 að neytandinn hefði valið bifreið þá er um ræddi og samið um kaup hennar án þess að SP-Fjármögnun hf. kæmi þar nærri.  Þar með leit rétturinn svo á að SP-Fjármögnun hf. hefði veitt Ó lán en fært lánsamning í orði kveðnu í búning leigusamnings.  Brynjar segir einnig að fjármögnunarfyrirtækin séu skráðir eigendur bifreiðanna sem um ræðir, og beri þar með sem eigendur ábyrgð á henni lögum samkvæmt þ.á m. skaðabótaábyrgð vegna tjóns á hagsmunum þriðja aðila og ábyrgð á sköttum og gjöldum sem á bifreiðina eru lögð.  Þetta er einungis rétt að nafninu til því svo háttar nefnilega að það eru umráðamenn bifreiðanna sem ber að tryggja þær skv. samningi og fá senda greiðsluseðla vegna bifreiðagjalda, bera allan rekstrarkostnað, viðhald og viðgerðir.  Einungis kemur til ábyrgðar fjármögnunarfyrirtækjanna ef umráðamaðurinn greiðir ekki þessi gjöld; að öðru leyti liggur ábyrgðin hjá umráðamanni.  Þá hafa fjármögnunarfyrirtækin rukkað allan kostnað sem þau hafa orðið fyrir vegna riftunar samnigs og vörslusviptingar þannig að tjón þeirra er ekkert.  Þegar haldið er síðan áfram að innheimta eftirstöðvar samnings án þess að neytandinn njóti afnota af andlaginu, bifreiðinni, myndast ólögmæt auðgun.

Þá er einnig rétt að benda á að mér er til efs að í nokkrum tilfellum hafi starfsmaður fjármögnunarfyrirtækis undirritað kaupsamning og afsal vegna bifreiðar við upphaf samnings.  Slíkt var einungis á herðum þess aðila er síðar varð skráður umráðamaður bifreiðar.  Skráning bifreiðar á fjármögnunarfyrirtæki þvert á kaupsamning er því ólögmæt.

Þrátt fyrir túlkun Hæstaréttar sem nefnt er að ofan er eitt stærsta ágreiningsmálið einmitt þetta: Eru þessi samningar lánssamningar eða leigusamningar?

Eignaréttarákvæði fjármögnunarsamnings, og tilvísanir í samningsskilmálum um leigu, leigutaka, leigumun og leigusala, eru að mínu mati einungis settar inn til að opna fjármögnunarfyrirtækjunum leið til að ganga framhjá neytendarétti, eins og hann er lögvarinn í lögum um neytendalán, t.a.m. 19.gr.  Öll umsýsla samninganna er með þeim hætti að um lán sé að ræða.  Settir eru fyrirvarar í samningsskilmála um að leigutaki gerir sér grein fyrir að lántaka í erlendri mynt sé áhættusamari en í íslenskri krónu, og reiknaðar eru afborganir og vextir af höfuðstól, sem og árleg hlutfallstala kostnaðar er kynnt.  Slíkt er alla jafna ekki gert í leigusamningum.  Þá er leigugjald venjulega fast í leigusamningum og samið sérstaklega um hækkun þess. 

Í þessu sambandi er því áhugavert að athuga hvort til séu sérstök lög um venjulega leigusamninga.  Mér vitanlega eru engin slík lög til önnur en samningalögin nr. 7 frá 1936 með síðari breytingum.  Þó eru til lög um húsaleigusamninga nr. 36 frá 1994.  Í þeim er upptalin réttindi og skyldur hvors samningsaðila um sig og þar sem engin önnur lög eru til að mínu viti um leigusamninga vil ég horfa til ákvæða húsaleigulaga ef úrskurða á fjármögnunarsamninga um bifreiðar sem leigusamninga.  Slíkt heitir líklega lögjöfnun á lagamáli og er beitt ef ekki er að finna sérstök lagaákvæði um ágreiningsefni. Er þá litið til annarra lagaákvæða um sambærilegt efni.

Sem dæmi er í húsaleigulögum sagt í 37.gr. að aðilum er frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Leigufjárhæðin skal þó jafnan vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila.

Um aðgang leigusala að leigðu húsnæði segir í 41. gr.:

Leigusali á rétt á aðgangi að hinu leigða húsnæði með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigjanda þannig að hvorki fari í bága við hagsmuni hans né leigjanda til að láta framkvæma úrbætur á hinu leigða og til eftirlits með ástandi þess og meðferð. Leigusala er þó aldrei heimill aðgangur að hinu leigða húsnæði þegar leigjandi eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur, nema að fengnu samþykki leigjanda."

SP-Fjármögnun hf. sá ástæðu til að hafa eftirfarandi ákvæði í 8.gr. sinna samningsskilmála: „SP, eða þeir sem SP tilnefnir, skal jafnan eiga óskoraðan aðgang að starfsstöð leigutaka, heimili, eða starfssvæði til að skoða bifreiðina."

Þannig að húsaleigulög girða fyrir slíkan rétt þinglýsts eiganda leiguhúsnæðis.

Um riftun leigjanda á leigusamningi í 60.gr. húsaleigulaga vil ég nefna þessi dæmi:

Leigjanda er heimilt að rifta samningi í eftirtöldum tilvikum:

„5. Ef réttur leigjanda er verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla eða vegna þess að hann fer í bága við kvaðir sem á eigninni hvíla. Leigusali ber og bótaábyrgð á beinu tjóni leigjanda af völdum slíkrar skerðingar ef hann vissi eða mátti um hana vita við gerð leigusamnings og lét hjá líða að gera leigjanda viðvart."  Hvað með afturvirkan vaxtareikning?  Mundi hann teljast réttarskerðing vegna laga eða opinberra fyrirmæla?

"7. Ef leigusali brýtur ítrekað eða verulega gegn rétti leigjanda til að hafa umsamin óskoruð umráð og afnot hins leigða, svo sem með því að hindra eða takmarka afnotin eða með óheimilum aðgangi og umgangi um hið leigða eða ef leigusali gerist sekur um refsivert athæfi gagnvart leigjanda eða fjölskyldu hans."  Ólögleg gengistrygging, afturvirkur vaxtareikningur og innheimta hans hafin fyrir gildistöku laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu?  Refisvert athæfi gagnvart leigjanda?  Eigum við að ræða það eitthvað?

"8. Ef leigusali vanefnir frekar skyldur sínar samkvæmt leigusamningi eða lögum þessum á svo verulegan eða sviksamlegan hátt að riftun af hálfu leigjanda sé eðlileg eða nauðsynleg."

Ekki ætla ég að telja upp fleiri dæmi en tel rétt að velta þessu sjónarmiði upp þó að mínu mati dagljóst sé hvers eðlis þessir fjármögnunarsamningar eru, nefnilega lánasamningar þar sem neytandi valdi bifreiðina hverrar fjármögnun styrinn stendur um.

PS: Allar feitletranir í tilvísunum í lagagreinar eru mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband